Mér finnst gaman að búa til mósaíkmyndir. Ég skil reyndar ekki alveg þessa áráttu því það tekur langan tíma að gera eina mynd. Það væri mun fljótlegar að mála myndina með pensli.
Fyrst teikna ég myndina á striga eða pappír. Síðan lita ég pappír og klippi hann niður í litla ferninga sem eru um það bil 1 x 1 cm eða rúmlega það; fer eftir stærð myndarinnar. Ég lími síðan litlu bútana á myndina og nota til þess veggfóðurslím. Þegar allir pappírsbútarnir eru komnir á sinn stað laga ég myndina til. Ég nota krít og er því mikið með ,,puttana“ í myndinni.
Það er eitthvað sem róar hugann minn þegar ég vinn svona myndir. Kannski er það nostrið við hverja einustu ,,flís“, um leið og ég kem henni fyrir á sínum stað eða kannski er ástæðan sú að ég get hugsað og pælt mikið á meðan á vinnunni stendur og þá sérstaklega um þann sem er fyrirmynd hverju sinni.
Nýjasta myndin mín er teiknuð eftir ljósmynd af Þráni Svan, syni mínum. Myndin er aðeins færð í stílinn en það er smá svipur.