Afmæliskveðja – 24. janúar 2017

Hún gaf mér lífið en ákvað þegar ég var nokkurra mánaða að eftirláta Þráni bróður sínum og konu hans, Soffíu,  uppeldið á stelpunni. Foreldrar mínir voru á þessum tíma nýgift og barnlaus og höfðu litið eftir mér á meðan hún var að vinna sem símastúlka suður í Keflavík. Á einhverjum tímapunkti var ákveðið að ég yrði hjá þeim til frambúðar. ,,Ég vildi frekar gráta ein“, sagði hún mér seinna ,,frekar en að horfa upp á þau tvö gráta“. Þannig æxlaðist það að ég varð elsta barn foreldra minna.

sisa-1
Sísa í kringum tvítugt.

Það var aldrei neitt leyndarmál að ég ætti aðra mömmu og meira að segja amerískan föður enda góður samgangur á milli pabba og Sísu mömmu. Það truflaði mig ekki í uppeldinu, enda átti ég góða foreldra og systkini og hafði nóg fyrir stafni. Ég man eftir einu atviki þar sem ég er í kringum átta ára aldurinn og var að hjálpa mömmu að leggja á borð og áttaði mig á því að ég ætti engin alsystkini. Það fannst mér alveg hræðilegt. Mömmu fannst ég gera úlfalda úr mýflugu, nokkur tár féllu og svo var það búið í það skiptið.

rettur-william
Captain Williams, blóðfaðir minn.

Þegar ég var orðin unglingur bærðust alls konar tilfinningar innra með mér, svona eins og gengur og gerist hjá unglingum. Sísa vildi alltaf allt fyrir mig gera en ég tók þann pól í hæðina að halda henni í ákveðnni fjarlægð. Ég vildi lengi ekki leyfa henni að vera góðri við mig. Ég hef alltaf séð eftir því.

227263_1706402496086_1118747683_31390696_3836188_n1
Myndin er tekin á Hólavallagötunni. Það eru jól og Sisa mamma í heimsókn.

Ég kynntist Sísu ekki af neinu viti  fyrr en eftir að hún bauð mér vinnu hjá sér sumarið 1978. Ég stundaði nám í Kennaraháskólanum. Hún var þá búin að vera ráðskona á sumrin í veiðihúsinu við Hítará, frá sumrinu 1966. Ég sló til enda launin ágæt. Þarna kynntist ég henni fyrst almennilega og hún mér. Við unnum vel saman og mér leið vel með henni þessi þrjú sumur sem við áttum saman við Hítará. Þegar við áttum frí þá unnum við handavinnu; prjónuðum og saumuðum út eins og enginn væri morgundagurinn og ég held að við höfum hlustað á allar framhaldssögur sem Rás 1 bauð upp á þessi sumur.

Hún hafði stóran og hlýjan faðm og það var gott að fá hjá henni faðmlag. Það var ,,alvöru“ eins og sagt er. Hún eldaði besta mat í heimi og var höfðingi heim að sækja. Hún og Friðrik, maður hennar, útbjuggu matarveislur fyrir fermingar í mörg ár. Mér fannst ,,köldu borðin“ þeirra alltaf alveg æði. Hún var listakona í höndunum og fyrir utan að prjóna, saumaði hún út af miklu kappi alla tíð.

img_0012
Amma í heimasókn. Áslaug Sóllilja og Bryndís Lílja. Lílega sumarið 1994.

Sísa hafði ekki góða heilsu í gegnum tíðina. Sem ung kona þjáðist hún af höfuðverkjum og var greind með mígreni. Henni bauðst að fara til Danmerkur í aðgerð sem átti að hjálpa til. Hún átti ekki peninga fyrir ferðinni sem átti að kosta 3 þúsund krónur, sem var mikið á þeim tíma. Þráinn, pabbi, bróðir hennar, átti sparifé sem hann lánaði systur sinni. Hún sigldi því með Gullfossi til Danmerkur og fékk einhver bóta meina sinna. Síðar plagaði gigt hana og það setti mark sitt á hennar daglega líf í gegnum tíðina.

img_0014
Myndin er tekin fyrir utan Bifröst á Sauðárkróki. Tilefnið er jarðarför ömmu Ragnheiðar.

Hún eignaðist fimm börn; Óðinn Má Jónson, sem er fæddur 1946, Bryndísi Krístínu fædda 1956, Eirík Valdimar Friðriksson sem fæddur er 1958, Sigríði Súsönnu Friðriksdóttur sem fædd er 1959 og Þorvald Björn sem fæddist 1966 og dó sama ár. Hún giftist Friðriki Eiríkssyni, bryta.

img_0003
Efsta röð: Hildur Þóra, Eiríkur, Óðinn með Róbert Rafn og Svava Rut. Miðröð: Súsanna, Sísa með Áslaugu Sóllilju, Bryndís með nöfnu sína. Nesta röð: Kristín Lilja, Ragnheiður, Þráinn Svan og Einar Svan.

Sísa lést 9. apríl 2001. Hér má lesa viðtal við Sísu í Morgunblaðinu frá því í mars 2001 og eftirmæli um hana í Morgunblaðinu eftir að hún lést.

Til hamingju með afmælið, elsku Sísa móðir mín.

Published by

Óþekkt's avatar

bryndiskristin

Ég er elst fimm systkina. Ég er gift og á fjögur börn; Einar Svan, Þráinn Svan, Áslaugu Sóllilju og Bryndísi Lílju. Ég útskrifaðist sem B.Ed. 1981 frá KHÍ. Haustið 2010 lauk ég M.Ed. í menntunarfræðum með áherslu á fullorðinsfræðslu og mannauðsþróun frá HÍ.

Færðu inn athugasemd