Gul mistök …

Stundum geta mistök  snúist upp í andhverfu sína og orðið eitthvað sérstakt og fallegt. Það er í lagi að gera mistök. Mistök eru til að læra af þeim. Akkúrat þetta hugsaði ég, fyrr í vor, þegar ég æfði mig í að gera nokkrar grafít myndir á eldhúsborðinu mínu. Myndirnar voru verkefni á námskeiðinu Sjónlistir á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Ég reyndi tvær aðferðir; skar út myndir í dúk og handþrykkti myndirnar á pappír og eins þá málaði ég á plexílgler og þrykkti á pappír. Ég hafði ekki aðgang að grafíkpressu á mínum heimaslóðum og því þurfti ég að nota hendurnar til að þrykkja myndirnar á pappírinn, allt eftir kúnstarinnar reglum.

Ein tilraunin var þannig að ég rúllaði gulan akríllit á plexílglerið. Síðan málaði ég lauslega með svartri málningu útlínur af íslenskri konu á gula litinn. Ég lagði rakan pappírinn yfir glerið. Setti því næst dagblað  ofan á pappírinn og þrýsti þéttingsfast með fingrunum og lófanum yfir. Ég tók síðan dagblaðið varlega af pappírnum og pappírinn af glerinu. Bingó! Hér var komin mynd. Hún hefði mátt þrykkjast betur á pappírinn en það er önnur saga.

Í fyrstu fannst mér lítið varið í myndina og var jafnvel að hugsa um að farga henni en ég ákvað að geyma hana. Til að gera langa sögu stutta þá finnst mér myndin flott og fleiri hafa tekið undir það. Myndin minnir mig á listamanninn Banksy  og eins minnir hún mig á auglýsingu sem ég sá einhvern tímann fyrir sýninguna Vesalingana en þrátt fyrir mikla leit hef ég ekki fundið þessa auglýsingu.

En aftur að myndinni. Það sem ég taldi vera mistök er ekki svo slæmt eftir allt saman:)

20200415_171757

Published by

Óþekkt's avatar

bryndiskristin

Ég er elst fimm systkina. Ég er gift og á fjögur börn; Einar Svan, Þráinn Svan, Áslaugu Sóllilju og Bryndísi Lílju. Ég útskrifaðist sem B.Ed. 1981 frá KHÍ. Haustið 2010 lauk ég M.Ed. í menntunarfræðum með áherslu á fullorðinsfræðslu og mannauðsþróun frá HÍ.

Færðu inn athugasemd