Ömmuskóli …

Við upplifum skrýtna tíma þessi misserin. Rútínan er einföld og fábreytt. Dagurinn hefst snemma á SÆT prógramminu mínu, en það má þýða sem: sund, æfingar og teygjur. Síðan tekur vinnan við. Að loknum vinnudegi skýst ég kannski í búðina, vel varin með grímu og hanska og þá má nánast segja að dagurinn sé búinn.

Fyrir nokkrum dögum spurði sonur minn í Danmörku mig að því, hvort ég gæti hitt ömmustelpuna mína nokkra morgna í viku, þar sem skólinn hennar er lokaður vegna Covid. Mamman starfar sem læknir og pabbinn vinnur heima þessar vikurnar, en þarf að byrja hvern dag á fundum. ,,Ekki málið“, sagði ég spennt. ,,Við köllum þetta ömmuskóla“, sagði sonurinn.

Hvað gerum við svo í þessum ömmuskóla í gegnum tölvuna? Jú, ég hef hjálpað henni smá með heimaverkefnin. Við teiknum saman og litum. Hún klippir og límir, býr til bækur og segir mér sögur. Hún teiknaði af mér mynd í fyrsta tímanum okkar.

Amma Bryndís

Um daginn minnti ég hana á að hún mætti alveg standa aðeins upp frá borðinu og gera æfingar. Fyrr en varði var hún komin með spjaldtölvuna á stofugólfið og komin á fullt í æfingar. ,,Amma, leggstu niður á bakið og svo lyftir þú bakinu upp og býrð til svona brú“. Síðan var hún komin nánast í splitt. ,,Þú setur bara fótinn svona og teygir þig svona til hægri og …“. Ég sat enn á stólnum, vandræðaleg og þóttist gera æfingar og það kom ekki að sök.

Stundum kennir hún mér að segja eitthvað á dönsku og leiðréttir þá framburðinn minn. Ég bað hana um að kenna mér að kaupa miða í flugvélina sem ætlaði að fljúga með mig til Danmerkur og segja það á dönsku. Eftir smá umhugsun sagði hún: ,,Amma, það tala allir íslensku í flugvélinni, þú þarft ekki að segja það á dönsku“. Á endanum féllst hún á að kenna mér að kaupa miða í lestina og að sækja bræður sína á leiskólann. ,,God morgen, jeg … „.

Ég les fyrir hana um það bil eina bók á dag. Tæknin þvælist lítið fyrir okkur. Þegar ég les sögu þá er ég búin að taka ljósmyndir af myndunum í bókinni og síðan deili ég þeim jafnóðum og ég les, en þetta er bara gert fyrir okkur tvær.

Ljósmynd úr bókinni Gilitrutt en ljósmyndir bókarinnar eru eftir Brian Pilkington.

Í morgun sat ég uppi í herbergi og las fyrir hana söguna af Gilitrutt. Brian Pilkington teiknaði myndirnar í þá bók. Á einum tímapunkti verður mér litið á gluggann og sé þá spegilmynd mína. Ég var orðin heldur ófrýnileg í framan, baðandi út öllum öngum, algjörlega búin að missa mig í túlkuninni á persónum og leikendum sögunnar. ,,Ja, hérna hér“, hugsaði ég. Hvað er ég eiginlega að hugsa. Þetta er auðvitað málið. Streitulosun af bestu gerð. Að lesa fyrir barnabarnið og komast í flæði við að teikna og föndra í gegnum netið er að bjarga Covid heilsunni minni. Hvílík heilun og heppin ég.

Horft í suðurátt, út um gluggan í Suðurgötu 8. Dagrenning.

Og heilarinn minn, hún Ella, hún er bara sex ára snillingur.

Published by

Óþekkt's avatar

bryndiskristin

Ég er elst fimm systkina. Ég er gift og á fjögur börn; Einar Svan, Þráinn Svan, Áslaugu Sóllilju og Bryndísi Lílju. Ég útskrifaðist sem B.Ed. 1981 frá KHÍ. Haustið 2010 lauk ég M.Ed. í menntunarfræðum með áherslu á fullorðinsfræðslu og mannauðsþróun frá HÍ.

One thought on “Ömmuskóli …”

Færðu inn athugasemd