Það er stundum skrýtið hvernig maður getur ánetjast einhverju, einhverju sem manni finnst skemmtilegt, áhugavert og uppbyggjandi. Í júli síðastliðinn ákvað ég að taka aftur upp prjónana og prjóna fingravettlinga. Ég hef fylgt gamalli uppskrift í gegnum tíðina, breytt henni nokkuð og gert hana að minni. Í sumar ákvað ég að skrifa uppskriftina niður fyrir ýmsar útfærslur, til dæmis vettlinga á börn, netta kvenvettlinga og svo framvegis. Ég ákvað líka að að prjóna eitt vettlingapar í viku ásamt því að mála eina mynd, en það er önnur saga..

Í dag, í lok september, held ég mig enn við markmiðin mín og gott betur því að á ellefu vikum hef ég prjónað 17 pör og það er engan bilbug á mér að finna.

Nú hef ég fundið nýtt vettlingaverkefni, sem er reyndar ekki nýtt og það er að prjóna vettlinga í einum lit og sauma svo á handarbakið mynstur. Ég hef gert þetta áður og saumaði þá krosssaum í vettlinga hjá dætrum mínum en núna sauma ég í lykkjurnar þannig að það kemur út eins og mynstrið eða myndin hafi verið prjónuð í vettlingana. Fyrirmyndin er gamall púði sem móðir mín, Sísa, saumaði út í fyrir 55 til 60 árum. Mér finnst hugmyndin góð; að færa gamalt handverk og í leiðinni góða minningu yfir á nýtt form sem í þessu tilfelli eru vettlingar. Þessir sem nú eru undir nálinni eru fyrir Bryndísi Lilju mína og eiga að vera við sparikápuna hennar.

Mynstrið kemur vel út svona við fyrstu sýn. Nú er að finna fleiri mynstur, jafnvel hönnuð af mér frá grunni.

Það er alltaf gott að eiga svona vettlinga og mér finnst þeir til dæmis góð og falleg afmælisgjöf fyrir þá sem eiga allt.
Það er alveg á mörkunum að ég sé illa haldin af prjónaáráttuhegðun en það er ekki slæmt að geta dundað sér við handverk núna þegar veturinn er framundan.
Áfram ég …
