,,Ertu maður eða vél?“ Ferðin sem aldrei var farin

„Ertu maður eða vél?“, spurði konan viðmælandann á spjallinu hjá flugfélaginu Play í gærmorgun. Hún hafði spjallað við vélmenni í smá stund sem á endanum gaf henni samband við þjónustufulltrúa. „Ég er manneskja“, svaraði hann.

Konan var niðurbrotin eftir að hafa uppgötvað, fjórum tímum fyrir flug til Gran Canaria, að vegabréfið hennar hafði orðið eftir heima. Þetta hafði aldrei komið fyrir hana áður. „Hefur þú ekki tíma til að láta einhvern skutla því til þín?“, spurði elskulegur starfsmaður Isavia. Það gafst enginn tími til að skjótast eitt eða neitt enda um 340 km heim og veður og færð eins og menn þekkja á Suðvesturhorninu þessa dagana. Hún var heppin að ferðafélagi hennar var yngri sonur hennar en sá eldri var á sama tíma á leiðinni til Gran Canaría frá Danmörku, þar sem hann býr, ásamt börnunum sínum þremur. Þrátt fyrir góða hjálp starfsmanns Isavia, þá var ekki nokkur sjéns að fá enskumælandi starfsmenn flugfélagsins Play til að reyna að aðstoða konuna eða koma með einhverjar hugmyndir að lausn. Hún gæti ekki flogið með félaginu nema hafa sjálft vegabréfið, þetta bláa. Konan hafði þó verið fyrirhyggjusöm og skannað vegabréfið þannig að hún gat framvísað því, bæði í símanum, tölvunni og í útprentun á pappír. Það var ekki tekið gilt.

Auðvitað var þetta konunni sjálfri að kenna og það vissi hún vel. Á opinberum vefsíðum segir þó að ekki þurfi að sýna vegabréf við landamæri innan Schengen svæðisins þótt auðvitað sé mælt með því að fólk hafi vegabréf meðferðis og sé reyndar skilt að vera með persónuskilríkí. Flugfélög geta þó sett sínar eigin reglur og reglur flugfélagsins Play eru þær að enginn fer um borð nema hann framvísi gildu vegabréfi.

Konan gerði allt sem hún gat. Hún leitaði í örvæntingu að einhverri þjónustu á vellinum en það var allt lokað. Hún hringdi í lögregluna. Þeir opna klukkan 10:00. Hún hringdi í síma sýslumannsins. Hann opnar klukkan 08:30. Hún skrifaði Play tölvuóst, því ekki er boðið upp á neyðarsíma. Sá sem svaraði erindinu skrifaði á ensku og sagðist ekki alveg skilja erindið.

Til að gera langa og ömurlega sögu stutta þá samþykkti sonurinn með miklum semingi á endanum að fara í ferðina og skilja konuna, mömmu sína, eftir.

Hún gekk því buguð út úr flugstöðinni og fannst hún niðulægð; dró á eftir sér fulla ferðatösku af sumarfötum, litum, blöðum, bókum og smá nammi sem hún hafði ætlað barnabörnunum.

Þessi óheppna kona er auðvitað ég sjálf. Ég hef á síðasta sólarhring gengið í gegnum allan tilfinningaskalann; áfall, reiði og sorg og þær fylgdu mér alla leiðina norður í Skagafjörð.

Já, ertu maður eða vél? Er von að spurt sé. Flugfélagið Play býður eingöngu upp á rafræn samskipti við sína viðskiptavini. Það var ítrekað þegar ég vildi fara á staðinn til að ræða málin. „Við erum ekki með móttöku“, var svarið á spjallinu.

Að lokum þetta. Ég legg til að á flugvellinum starfi eins konar umboðsmaður farþega. Einhver sem hefur yfirsýn yfir starfsemina og getur aðstoðað fólk af einhverri alvöru þegar það lendir í sömu aðstæðum og ég gerði. Sú manneskja hefði klárlega sparað mér örvæntinguna og tárin í gær.

Synirnir og barnabörnin hafa það annars gott í sólinni á Kanarí …

Published by

Óþekkt's avatar

bryndiskristin

Ég er elst fimm systkina. Ég er gift og á fjögur börn; Einar Svan, Þráinn Svan, Áslaugu Sóllilju og Bryndísi Lílju. Ég útskrifaðist sem B.Ed. 1981 frá KHÍ. Haustið 2010 lauk ég M.Ed. í menntunarfræðum með áherslu á fullorðinsfræðslu og mannauðsþróun frá HÍ.

Færðu inn athugasemd