Texas … hér komum við!

Texas – fyrsti hluti

Það er meira en að segja það, fyrir flughrædda konu (svona í grunninn) að taka sér flugferð á hendur, alla leið til Texas, til að hitta nýfundin hálfsystkini sín … og það á sama deginum.

Í flugstöðinni í Keflavík hitti ég gamalkunnugt andlit. Þar var þá mættur Icavia starfsmaðurinn, sem tók svo vel utan um mig í mars þegar ég ætlaði að fljúga til Kanarí með Pl … ég get bara ekki sagt nafnið upphátt … en fékk ekki að fara um borð í vélina, af því að ég gleymdi vegabréfinu mínu fyrir norðan. Í mínum huga er hann starfsmaður ársins hjá Isavia. Ég þakkaðu honum aftur góðvildina, en gleymdi að spyrja hann um nafn. Ég á eftir að hitta hann aftur.

Í röðinni áður en við fórum í gegnum öryggisgæsluna sneri ég mér að Áslaugu minni og sagði henni að hliðið myndi ekki hleypa mér í gegn frekar en fyrri daginn. ,,Það er alltaf leitað á mér“, sagði ég. Hún trúði ekki orði af því sem ég sagði henni. Ljósin blikkuðu og hliðið ýlfraði um leið og ég gekk í gegn. Öryggisvörðurinn kallaði í konu og hún bað mig um að stíga upp á pall og rétta út hendurnar. ,,Snúðu þér við“, sagði hún, um leið og hún skannaði mig alla með leitartækinu. ,,Ég er með nokkra nagla í fætinum“, sagði ég. Hún skannaði fótinn. Fóturinn virtist ekki vera málið. ,,Ég held að þetta sé spöngin í brjóstahaldaranum“, sagði ég að lokum. Hún færði leitartækið ofar. Jú, það fór ekki á milli mála hver sökudólgurinn var. Ég vissi þetta reyndar.

Mæðgur vel gíraðar á leið til New York.

Flugið með Icelandair til New York gekk vel. Þau klikka sko ekki á þeim bænum. Flugfreyjurnar algjörlega með allt upp á tíu, bæði hvað varðar þjónustu, klæðnað og framkomu. Kannski gamaldags að nefna þetta en ég mátti til.

Aðflug inn til Kennedy flugvallar. Ströndin er falleg við New York.

Ég var vel undirbúin fyrir landamæravörðinn í USA enda margir búnir að gefa mér góð ráð. Til dæmis þá var mér sagt að passa upp á lyfin mín. Tollurinn í USA myndi kannski vilja sjá pakkninguna, svo það færi ekki á milli mála að lyfin eða blóðþrýstingstöflurnar mínar væru í alvörunni lyf og fyrir mig en ekki einhvern annan. Ég hafði því klippt í sundur lyfjaboxin og haldið þeim hluta, þar sem nafn mitt og lyfsins kemur fram  og límt lyfjaspjöldin sem ég þurfti á að halda við þá. Það var heilmikið föndur.

Ég var ekki spurð um nein lyf á landamærunum, en var aftur á móti beðin um að horfa í myndavélalinsu, sem var á bak við rispað gler. „I´m sorry“, sagði maðurinn, eftir smá stund. „I need to take another picture“. Kannski voru varirnar of fölar og krumpaðar en kannski var það bara rispaða glerið. En seinni myndatakan tókst vel að mati fulltrúa kerfisins.

Næst bað hann mig um að setja fjóra fingur hægri handar á einhvers konar plötu svo hann gæti skannað fingraförin. Svo vildi hann líka þumalinn. „No problem“, sagði ég og glotti til dóttur minnar, sem stóð á hliðarlínunni. „And now I want to ask you to place the four fingers of your left hand on the plate“? sagði hann. „I´m sorry”, sagði ég og mér fannst ég bara svolítið fyndin og fann til mín og ég hélt áfram: “I only have four and a half finger on my left hand”. Síðan skellti ég fingrunum á plötuna og það fór auðvitað ekkert á milli mála að fingurnir voru ekki alveg fjórir. Ég er ekki frá því að ég hafi séð smá brosviprur í augum hans áður en við kvöddumst. En auðvitað á maður ekki að grínast í svona alvarlegum aðstæðum.

Central Park í lok september.

Eftir að hafa farið inn í borgina og gengið um Central Park og miðborgina þá tók næsta flug við.

„This is because of my bra“, sagði ég vandræðalega við öryggisgæsluna í New York. Ég var búin að fara í ,,röntgenmyndatökuna“ og enn ýlfraði kerfið á mig. Ég var skönnuð hátt og lágt, eins og fyrri daginn en fékk svo að fara.

Öfugt við starfsfólk Icelandair þá var starfsfólk Blue Jets ekki í neinu „júniformi” eða ég gat ekki séð það. Tveir karlar og ein kona. Ég varð lítið vör við þau meðan á fluginu stóð. Flugþjónninn, sem tók á móti okkur þegar við gengum inn í vélina, hafði aðspurður sannfært okkur um að flugveður væri gott alla leið. Ég man ekki eftir að hafa lent í öðrum eins hristingi í langan tíma í flugi. „Stundum verður maður að sleppa takinu og treysta öðrum“, sagði sálfræðingur við mig eitt sinn, þegar ég ræddi við hann um flughræðsluna mína og það var akkúrat það sé ég gerði í fluginu frá New York til Fort Worth í Texas. Ég lagði traust mitt á góða flugmenn og trausta  flugvél.

Flugþjónnin afsakaði sig í bak og fyrir þegar við gengum úr vélinni og dóttir mín sagði brosandi við hann um leið og við kvöddum: „Yes, you lied to us about the flight conditions“. Hann vissi upp á sig skömmina:) Já, hún er hreinskilin stelpan, en samt alltaf kurteis.

Í dag er kominn nýr dagur og Texas bíður mín. Hér er sól og hiti og ævintýri dagsins framundan.

 

sama deginum.





Published by

Óþekkt's avatar

bryndiskristin

Ég er elst fimm systkina. Ég er gift og á fjögur börn; Einar Svan, Þráinn Svan, Áslaugu Sóllilju og Bryndísi Lílju. Ég útskrifaðist sem B.Ed. 1981 frá KHÍ. Haustið 2010 lauk ég M.Ed. í menntunarfræðum með áherslu á fullorðinsfræðslu og mannauðsþróun frá HÍ.

Færðu inn athugasemd