Texas – annar hluti.
Þeir tóku geltandi á móti okkur hundarnir hennar systur minnar enda hafa þeir líklega aldrei séð Íslendinga fyrr. Í sjónvarpsþáttum, þar sem fjallað er um fólk sem leitar uppruna síns má sjá miklar tilfinningar; menn og konur faðmast og gráta út í eitt. Það var ekki þannig hjá okkur systrum. Mér fannst það einhvern vegin eins og eðlilegasti hlutur í heimi að hitta Barb. Kannski vegna þess að við höfðum bæði séð og heyrt í hvor annarri á netinu undanfarna mánuði. Faðmlagið var hlýtt.
Hún býr í fallegu húsi ásamt tveimur hundum og einum ketti. Hún missti mann sinn árið 2013. Fylgifiskarnir mínir voru fljótir að komast upp á lag með hundana og köttinn. Hundarnir róuðust smátt og smátt, enda var þeim klappað í bak og fyrir. Við gátum spjallað saman í langa stund og skoðað gamlar ljósmyndir og Barb sagði okkur sögur.

Ég færði Barb lakkrís og súkkulaði og lét fylgja með söguna af milliríkjadeilu Dana og Íslendinga um lakkrísinn og súkkulaðið. Einnig gaf ég henni fingravettlinga og litla mynd.

Prjónaðir fingravettlingar eru kannski ekki alveg málið í Texas þar sem meðalhitinn yfir köldustu mánuði ársins er um 18°C!
Ég er ekki frá því að kötturinn hafi orðið eilítið órólegur yfir harðfiskinum því hann vildi ólmur komast í pokann minn, þrátt fyrir að fiskurinn væri farinn í frystinn.

Við ókum til Dallas daginn eftir og fórum á „The sixth floor Museum at Dealey Plaza (jfk.org)“. Við sem eldri erum munum mörg eftir því þegar John F. Kennedy var skotinn. Líklega með óhugnanlegri atburðum samtímans. Það var áhrifamikið að fara upp á sjöttu hæðina, þar sem talið er að skotmaðurinn hafi búið um sig og skoða allt sem þar var að sjá og heyra. Annars vakti það athygli okkar hversu fáir voru á ferli þennan föstudag í miðbæ Dallas og kannski bara eins gott því konan fékk í magann og þurfti að hraða sér heim á hótel.

Ég hitti John Williams, bróður minn og konu hans, að kvöldi föstudags. Það urðu fagnaðarfundir. Það kom mér á óvart hversu hávaxinn hann er. John var flugmaður í flughernum og er enn að vinna við þjálfun flugmanna þrátt fyrir að vera kominn nokkuð yfir sjötugt. „I followed in my father´s footsteps“, sagði hann. Hann flaug meðal annars „Air force one (three)“, flugvél Bandaríkjaforseta um tíma, en það vita líklega fæstir að þær vélar eru að minnsta kosti þrjár og sú sem John flaug var ætluð forsetafrúnni og öðrum háttsettum embættismönnum á tímum Bush eldri.

Á sunnudag ætlum við að fara til Oklahoma; til borgar sem heitir Ardmore en þar ólst faðir minn upp og þar búa bróðurbörn hans. Við ætlum að hitta þau og heyra fleiri sögur. Ég hlakka til.
