Ardmore Oklahoma …

Texas – þriðji hluti

„When we cross the Red river, we have reached Oklahoma“, sagði John þegar hann keyrði okkur; konu sína, mig, Áslaugu og Barb til Oklahoma. Stefnan var tekin á borgina Ardmore sem hefur um 25 þúsund íbúa.  Við ætlum að hitta börn Jacks föðurbróður okkar. John er hafsjór af fróðleik sem hann deilir á  leiðinni. Vissuð þið að vötn í nágrenni Dallas og Fort Worth eru gerð af mönnum fyrir utan eitt? Þetta fannst mér merkilegt. Ég velti fyrir mér hvort það væru formleg landamæri á milli ríkjanna en svo er ekki.  Áður en við komum til Ardmore tökum við vinstri beygju í áttina að litlum bæ sem heitir Healdton, en þar ólst faðir minn upp ásamt bróður sínum Jack. John vildi sýna okkur húsið sem þeir bræður ólust upp í. Gamla hverfið þeirra er í mikilli niðurníðslu; garðar illa hirtir og gróður allur skrælnaður. Húsið var á sinum stað en illa farið.

Gamla húsið í Healdton sem Bobby og Jack ólust upp í.

Kirkjugarðurinn var ekki langt frá og John og Barb vildu sýna okkur hvar amma okkar og afi hvíla. Víða eru plastblóm á leiðum og enginn á ferli. Það var hálf súrrealískt að standa fyrir framan legsteinana: Helen G. Williams, fædd 1903 og látin 1971 og William A. Williams, fæddur 1896 og látinn 1958. Ég sagði John að ég myndi signa yfir leiðin. „That´s what we Icelanders do every time we go to the cemetery“, sagði ég um leið og ég krossaði vel og vandlega yfir.

Áslaug Sóllilja og John við leiði ömmu og afa.

Við mættum á veitingahúsið „Two frogs grill“ í Ardmore á slaginu klukkan 13:00. Þegar við komum voru allir mættir; Ann Williams, frænka mín og bróðir hennar Russel ásamt sinni konu og Becky sem var gift Joel frænda mínum, en Joel lést í vor. Mér fannst eins og ég hefði þekkt þetta fólk alla ævi; öll andlit voru kunnugleg, en auðvitað var það ekki svo. Málið er, að eftir að Facebook kom til sögunnar getur maður kynnt sér alla sem eru á þeim miðli og það hafði ég svo sannarlega gert.

Ég er enn að vandræðast með skammtastærðir þegar ég panta mér mat hér í Texas og eins finnst mér pínu vandræðalegt þegar kemur að því að greiða reikninginn. Ég sá að Russel frændi minn var kominn með reikninginn í hendurnar og gerði sig líklegan til að borga. Ég hallaði mér að John og sagði: „Can I speak to you in confidence?“. „Sure“, sagði hann. Ég nefndi þá að ég væri ekki með pening en myndi greiða okkar hlut með korti. Hann fór að hlæja og sagði: „Well … this is Russel´s treat. Just enjoy …“. Þannig fór það.

Húsið hennar Ann frænku minnar er mjög skemmtilegt. Þangað var hersingin komin eftir góðan hádegismat. Húsið er allt öðru vísi en húsin í kring sem öll eru tveggja hæða með kjallara. Húsið hennar er langt og mjótt, lágreist og á einni hæð og í garðinum er lítil sundlaug. Ann er grafískur hönnuður, spilar á píanó og uppáhaldstónlistarmaður hennar er Joni Mitschell. Listaverkin í húsinu eru eftir hana sjálfa og hún er með vinnustofu heima. Ég giska á að hún sé gamall hippi. Ég á eftir að heyra meira í henni. Ann og maður hennar John eiga eina dóttur og tvö barnabörn.

Dagurinn leið hratt. Mikið var spjallað og gamlar ljósmyndir og skoðaðar. Mér voru gefnir gamlir eyrnarlokkar sem amma mín hafi átt eða „nanny“, eins og allir kalla hana. Áður en hópurinn kvaddist var skellt í eina myndatöku.

Sitjandi frá vinstri: Bryndís, kona Johns og Becky, kona Joels, Standandi: Áslaug Sóllilja, Ann Williams, John, kona Russels, Barb og Russels.

Á morgun er ferðinni heitið í Fort Worth´s StockYards. Hver veit nema þar fáist alvöru kúreka rússkinnsjakki, sem konuna hefur dreymt um frá því að hún kornung sá Crosby, Stills, Nash og Young hér um árið, í kvikmyndinni Woodstock.

Published by

Óþekkt's avatar

bryndiskristin

Ég er elst fimm systkina. Ég er gift og á fjögur börn; Einar Svan, Þráinn Svan, Áslaugu Sóllilju og Bryndísi Lílju. Ég útskrifaðist sem B.Ed. 1981 frá KHÍ. Haustið 2010 lauk ég M.Ed. í menntunarfræðum með áherslu á fullorðinsfræðslu og mannauðsþróun frá HÍ.

Færðu inn athugasemd