JAKKINN …

Texas – Fjórði hluti

Fyrir ferðina ákváðu John og Barb að fara með okkur á tvo skipulagða viðburði: annars vegar að heimsækja „Fort Worth Stockyards National Historic District“ og að fara á hafnarboltaleik. „Hafnarboltaleik! Veistu hvað svona leikur getur verið langur?“ sagði yngri systir mín við mig, þegar ég sagði henni frá þessum plönum og hún bætti við: „Þrír til fjórir tímar og það er ekkert að gerast“. Þetta hljómaði ekki vel í mín eyru fyrir ferðina út.

John ók með okkur stelpurnar að Stockyards. Á heimasíðu þeirra segja þeir að Fort Worth sé staðurinn þar sem Vestrið byrjar og í Stockyards megi sjá og kynnast gömlu arfleifðinni um kúreka sem ráku nautahjarðirnar um langan veg til að ná sér í pening. Við gengum um í hitanum, litum inn í búðir og mátuðum kúrekahatta og ég skimaði eftir jökkum með kögri. Þeir voru til en ekki alveg eins og ég hafði hugsað mér.

Svo sá ég hann! Hann hékk þarna á slá með öðrum kvenjökkum. Dökkbrúnn úr rússkinni og með kögri á ermum og á baki. Þungur rússkinnsjakki, alveg eins og ég hafði hugsað mér. Jakki sem verður fallegri eftir því sem hann eldist. Samferðafólki mínu leist vel á jakkann og nú þarf konan bara smá hugrekki til að þora að klæðast honum:)

Frekari myndataka ekki leyfð að sinni …

Alveg frá því ég var unglingur hefur mig langað í rússkinnsjakka með kögri. Ég var of ung til að upplifa hippatímann að öðru leyti en því að sjá bíómyndir eins og Woodstock og hlusta á tónlistina sem var auðvitað alveg geggjuð.

Daginn eftir skelltum við okkur á hafnarboltaleik til að sjá Texas Rangers spila við New York Yankees á sínum heimavelli.  Höllin þar sem heimavöllur Texas er er risastór og mikil stemning var í húsinu.

Ljósmyndin er tekin af: https://ballparkdigest.com/2019/08/16/rangers-release-updated-globe-life-field-renderings/

Ég skildi hvorki upp né niður í reglum leiksins til að byrja með. Ég fékk góðar útskýringar á ensku en það dugði ekki alveg til. Ég ákvað því að einbeta mér að leiknum og kerfisbundið fylgjast með hvað var að gerast og smátt og smátt áttaði ég mig á hvað var í gangi.

Í stuttu máli: Óvinurinn er á vellinum ásamt kastara og grípara eða þeim sem grípur boltann. Samtals níu menn. Síðan kemur einn úr hinu liðinu og hann er með kylfu og á að hitta boltann sem kastarinn kastar á áttina að gríparanum, eftir kúnstarinnar reglum. Ef hann hittir boltann þá hleypur hann af stað í næstu höfn. Tilgangurinn er sem sagt að komast hringinn í heimahöfnina. Nokkuð langdreginn leikur, eins og systir mín hafði réttilega nefnt við mig, en bara nokkuð skemmtilegur þegar ég fór að átta mig á litlu hlutunum í leiknum. Okkar menn töpuðu leiknum með einu stigi. Leikurinn fór 6 – 5 fyrir New York. Úrslitin komu okkar fólki ekki á óvart en fyrirfram var gert ráð fyrir að New York myndi vinna leikinn.

Frá vinstri: John, Bryndís, Barb, Ardy og Áslaug. Friðrik tók myndina.
Áslaug Sóllilja og Friðrik.

Í kvöld ætlum við borða saman heima hjá John og síðan er heimferð á morgun. Það verður erfitt að kveðja.

Published by

Óþekkt's avatar

bryndiskristin

Ég er elst fimm systkina. Ég er gift og á fjögur börn; Einar Svan, Þráinn Svan, Áslaugu Sóllilju og Bryndísi Lílju. Ég útskrifaðist sem B.Ed. 1981 frá KHÍ. Haustið 2010 lauk ég M.Ed. í menntunarfræðum með áherslu á fullorðinsfræðslu og mannauðsþróun frá HÍ.

Færðu inn athugasemd