Það er mikil laufabrauðshefð í minni fjölskyldu. Í gamla daga kom stórfjölskyldan saman við laufabrauðsgerðina og okkur fannst þetta skemmtilegur siður og hlökkuðum alltaf mikið til. Eldra fólkið, oftast amma og mamma, hnoðuðu og flöttu út laufabrauðskökur. Við krakkarnir, ásamt pabba, skárum út mynstur í kökurnar. Pabbi var snillingur í að skera út í kökurnar eða það fannst mér að minnsta kosti.
Verkfærnin sem við þurftum í þá daga voru gott bretti og lítill vasahnífur. Við brutum upp á kökurnar og skárum litla skurði á ská í kökuna. Síðan flettum við í sundur og brettum upp á skurðinn svona eins konar lauf. Í dag notum við laufabrauðsjárn sem er snilldar uppfinning og flýtir mjög fyrir.

Mamma og systur hennar sáu um að steikja laufabrauðskökurnar upp úr tólg og seinna meir Palmin feiti.
Þegar mínir krakkar voru litlir tóku þau þátt í laufabrauðsgerðinni með mér og pabba sínum. Svo fluttu þau að heiman og þá hefur það komið í minn hlut að steikja laufabrauðið. Halla vinkona mín spyr mig oft hvers vegna ég kaupi ekki bara laufabrauð. Það er bæði hægt að kaupa kökur sem á eftir að skera út og eins er hægt að kaupa tilbúið laufabrauð. Mér finnst uppskriftin hennar mömmu alltaf best og ég held mig við hana eitthvað áfram.
Í ár gerðum við Bryndís Lilja, dóttir mín, saman laufabrauð. Bryndis Lilja er vegan svo við ákváum að gera líka vegan kökur. Í staðinn fyrir mjólk settum við haframjólk. Við bárum saman bragð og áferð eftir steikinguna og vegan kökurnar voru ekki síðri en þessar hefðbundnu. Þannig að ég get mælt með haframjólkinni.


Hér koma nokkrar ljósmyndir af ferlinu. Myndirnar eru teknar í desember 2020. Þá aðstoðaði Áslaug Sóllilja við baksturinn/steikinguna. Ekkert photoshoppað hér:)






Uppskriftin okkar:
1 kg hveiti – 70 gr smjör/smjörlíki – 3 msk sykur (jafnvel minna) – 1 tsk salt – 1 tsk ger – 6 – 7 dl mjólk/haframjólk. Mjólk og smjör hitað upp. Ekki láta suðuna koma upp.
