,,Uhh …nú vaknar upp í huganum einhver æskuminning!“, muldraði sonurinn, um leið og hann gekk inn í eldhúsið. Af svip hans mátti ráða að minningin var ekki góð. Hvernig hann beitti röddinni sagði líka meira en þúsund orð. Ja hérna hér, hugsaði ég … og ég sem vara bara að gera slátur eða lifrapylsu.
Mér hefur alltaf fundist lifrarpylsa góð. Hún er bæði holl og seðjandi. Í fyrra gerði ég hana með tveimur fjölskyldum en núna, eins og oftast áður, var ég ein á báti og allt í góðu með það.
Ég má til með að deila því hvernig ég geri lifrarpylsu því mín aðferð á eftir að hjálpa mörgum. Fyrir löngu síðan, þegar ég treysti mér ekki í að sauma vambir þá fór ég að hugsa hvort ekki mætti ganga frá lifrapylsunni á einfaldari hátt en formæður okkar kenndu okkur. Það er að segja að nota eitthvað annað en kindavambir. Jú, jú það voru komnar gervivambir á þeim tíma, en mér hefur ekki fundist þær sérstaklega heppilegar vegna þess að það er svo erfitt að koma lifrarpylsunni ofan í þær. Þá fékk ég líka þessa snilldar hugmynd. Hvernig væri að setja lifrarpylsuna í jólakökuform og gufusjóða hana síðan. Þetta fannst mér góð hugmynd. Ég hugsaði líka til Frakkanna sem eru frægir fyrir sitt lifrarpaté og eins Dananna með sitt leverpostej. Hvað er lifrarpylsa annað en paté, svona ef maður hugsar út í það.
Það fór heill laugardagur í verkið. Ég vandaði mig vel við að hreinsa lifrina. Tók af henni himnuna en það gerði ég nú kannski aðallega til að hún þvældist ekki í hnífnum á hakkavélinni minni. Hökkuð lifrin fór í lítinn bala og smátt og smátt bættust önnur hráefni í blönduna. Ég notaði uppskrift frá ömmu minni, Áslaugu á Staðastað, en notaði líklega bara um 40 % af mör miðað við uppskriftina hennar ömmu. Eins notaði ég minna af rúgmjölinu. Í uppskriftinni á að nota nýru en ég er fyrir löngu hætt að setja þau með og bæti lifur við í staðinn.
Þá er það suðan. Formin, með hrárri lifrarpylsunni í, set ég í pott með vatni. Læt vatnið ná upp að miðju formsins og set álpappír yfir formið og gufusíð herlegheitin.
Hvernig tókst svo til? Mín skoðun er sú að ég hafi aldrei gert eins góða lifrarpylsu og í þetta sinn og ef eitthvað mætti gagnrýna þá hefði ég mátt salta hana aðeins betur. Verði okkur að góðu.
Hér koma nokkra myndir af ferlinu.






Er hætt að gera en get hjálpað þér og fengið í tvo mata í staðin. 😂🥰. Tala við þig á morgun þegar Þóra er far
Líkar viðLíkar við
Ég er búin að gera lifrarpylsuna eins og þarna kemur fram. Þannig að þú getur hjálpað mér næsta haust eins og þarna um árið.
Líkar viðLíkar við