Ég hefði aldrei getað orðið bissnesskona. Það er eitthvað í mínum innsta kjarna sem leyfir það ekki að ég selji eitthvað; komi mér eða því sem ég er að gera eða stend fyrir á framfæri. Líklega kallast þetta feimni á góðri íslensku en hugsanlega tengist þetta líka einhverju öðru djúpt í sálartetrinu.

Ég skellti mér í klippingu um miðjan nóvember og þá bauð hárgreiðslumeistarinn minn, hún Erna, mér að koma með nokkur vettlingapör og selja hjá sér fyrir jólin. Eftir stutta umhugsun ákvað ég að slá til enda nóg til í skápnum hjá mér. Vettlingarnir hafa vakið nokkra athygli og þeir seljast bara vel mér til mikillar ánægju og kannski undrunar. Hvaða litur skildi nú vera vinsælastur? Því er fljótsvarað. Bleikir; spurt er um bleika vettlinga.

Ég hef styrkst í þeirri trú að það sem ég er að prjóna er ekki svo galið eftir allt saman. Mér telst til að ég sé búin að prjóna hátt í 200 vettlingapör og ég er ekki enn komin með leið á verkefninu. Ég prjóna úr alls konar garni eins og Kambgarninu og Fjallalopanum (hann stingur) en prjóna mest úr norskri ull. Ekkert gervigarn. Nú er ég að hanna 2026 vettlingana og það eru ótal hugmyndir í kollinum. Var ég að tala um bissnesskonu eða?
