Klukkan 00:01 kom í heiminn lítil stúlka …

Ég á hef sögu að segja. Góða og fallega sögu. Sagan hefst þannig að ungur flugmaður í flugher Bandaríkjanna, staðsettur á Íslandi, er í ástarsambandi við íslenska konu, Sigríði Þóru Þorvaldsdóttur, frá Blönduósi, sem starfaði á símanum suður á Keflavíkurflugvelli. Barn verður til og áður en barnið fæðist er ungi flugmaðurinn kallaður til annarra starfa í heimalandinu og hann kemur ekki aftur til Íslands. Það var mikið áfall fyrir móðurina á þeim tíma.

Um miðnætti þann 10. janúar árið 1956 kemur lítil stúlka í heiminn. Klukkunum í fæðingarstofunni ber ekki saman um það hvorum megin við miðnættið barnið fæðist. Móðurinni er boðið að velja hvort hún vilji að barnið eigi afmæli þann 9. janúar eða þann 10. og hún velur seinni daginn. Henni finnst talan 10 fallegri. Fæðingin er því skráð klukkan 0:01 þann 10. janúar árið 1956.

Til að gera langa sögu stutta þá hefur móðirin ekki tök á því að sjá um litla barnið sitt og það verður að samkomulagi að bróðir hennar, Þráinn Þorvaldsson og konan hans, Soffía Margrét Þorgrímsdóttir, taka barnið í fóstur. Þannig verður litla Bryndís þeirra fyrsta barn. Sagan er lengri og verður sögð síðar en svona hófst hún. Hér má sjá nokkrar ljósmyndir af ,,persónum og leikendum“ fyrstu mánuðina í lífi litlu dömunnar, Bryndísar Kristínar Williams Þráinsdóttur.

Í dag eru tímamót. Þá er gott að hugsa til baka en líka fram á við. Ég er þakklát Sísu fyrir að gefa mér lífið og mömmu og pabba fyrir ljósið, uppeldið og væntumþykjuna. TAKK.

Sigríður Þóra Þorvaldsdóttir, frá Blönduósi með dóttur sína og Bobby G. Williams, Bryndísi Kristínu. Bryndís er skírð í höfuðið á langafa sínum Brynjólfi og konu hans, Kristínar.
Bobby G. Williams.
Flugstjórinn, Bobby.
Bryndís Kristín nokkurra mánaða gömul.
Bryndís Kristín.
Sísa mamma með Bryndísi litla.
Brúðkaupsmynd af mömmu Soffíu og Þráni pabba. Þau giftu sig 7. júlí 1956.
Mamma, Soffía og Bryndís.
Mamma og Bryndís.
Pabbi, Þráinn Þorvaldsson, með dóttur sína sem hann tók í fóstur eftir mitt ár 1956.
Pabbi og Bryndís.
Löööngu síðar. Fjölskylda mín. Einar Svan og Guðný, kona hans. Áslaug Sóllilja, Bryndís Lilja, frúin sjálf, Óli maður Bryndísar, Gísli Svan og Þráinn Svan. Myndin er tekin í erfidrykkju pabba. Á myndina vantar Friðrik, kærasta Áslaugar og barnabörnin fjögur.

Published by

Óþekkt's avatar

bryndiskristin

Ég er elst fimm systkina. Ég er gift og á fjögur börn; Einar Svan, Þráinn Svan, Áslaugu Sóllilju og Bryndísi Lílju. Ég útskrifaðist sem B.Ed. 1981 frá KHÍ. Haustið 2010 lauk ég M.Ed. í menntunarfræðum með áherslu á fullorðinsfræðslu og mannauðsþróun frá HÍ.

Færðu inn athugasemd