Klukkan 00:01 kom í heiminn lítil stúlka …

Ég á hef sögu að segja. Góða og fallega sögu. Sagan hefst þannig að ungur flugmaður í flugher Bandaríkjanna, staðsettur á Íslandi, er í ástarsambandi við íslenska konu, Sigríði Þóru Þorvaldsdóttur, frá Blönduósi, sem starfaði á símanum suður á Keflavíkurflugvelli. Barn verður til og áður en barnið fæðist er ungi flugmaðurinn kallaður til annarra starfa í heimalandinu og hann kemur ekki aftur til Íslands. Það var mikið áfall fyrir móðurina á þeim tíma.

Um miðnætti þann 10. janúar árið 1956 kemur lítil stúlka í heiminn. Klukkunum í fæðingarstofunni ber ekki saman um það hvorum megin við miðnættið barnið fæðist. Móðurinni er boðið að velja hvort hún vilji að barnið eigi afmæli þann 9. janúar eða þann 10. og hún velur seinni daginn. Henni finnst talan 10 fallegri. Fæðingin er því skráð klukkan 0:01 þann 10. janúar árið 1956.

Til að gera langa sögu stutta þá hefur móðirin ekki tök á því að sjá um litla barnið sitt og það verður að samkomulagi að bróðir hennar, Þráinn Þorvaldsson og konan hans, Soffía Margrét Þorgrímsdóttir, taka barnið í fóstur. Þannig verður litla Bryndís þeirra fyrsta barn. Sagan er lengri og verður sögð síðar en svona hófst hún. Hér má sjá nokkrar ljósmyndir af ,,persónum og leikendum“ fyrstu mánuðina í lífi litlu dömunnar, Bryndísar Kristínar Williams Þráinsdóttur.

Í dag eru tímamót. Þá er gott að hugsa til baka en líka fram á við. Ég er þakklát Sísu fyrir að gefa mér lífið og mömmu og pabba fyrir ljósið, uppeldið og væntumþykjuna. TAKK.

Sigríður Þóra Þorvaldsdóttir, frá Blönduósi með dóttur sína og Bobby G. Williams, Bryndísi Kristínu. Bryndís er skírð í höfuðið á langafa sínum Brynjólfi og konu hans, Kristínar.
Bobby G. Williams.
Flugstjórinn, Bobby.
Bryndís Kristín nokkurra mánaða gömul.
Bryndís Kristín.
Sísa mamma með Bryndísi litla.
Brúðkaupsmynd af mömmu Soffíu og Þráni pabba. Þau giftu sig 7. júlí 1956.
Mamma, Soffía og Bryndís.
Mamma og Bryndís.
Pabbi, Þráinn Þorvaldsson, með dóttur sína sem hann tók í fóstur eftir mitt ár 1956.
Pabbi og Bryndís.
Löööngu síðar. Fjölskylda mín. Einar Svan og Guðný, kona hans. Áslaug Sóllilja, Bryndís Lilja, frúin sjálf, Óli maður Bryndísar, Gísli Svan og Þráinn Svan. Myndin er tekin í erfidrykkju pabba. Á myndina vantar Friðrik, kærasta Áslaugar og barnabörnin fjögur.

Jólakveðjur … þegar nútíminn ákvað að stela kveðjunum

Ég hef á hverju ári í mörg, mörg ár sent jólakort til ættingja og vina minna. Ég hef sjálf hannað kortin og teiknað forsíðumynd og síðan fylgir texti og ljósmyndir af fjölskyldunni með. Svona eins konar fréttaannáll í mjög stuttu máli og ég er alltaf á síðustu stundu með kortin.

Mér hefur alltaf þótt skemmtilegt að fá jólakveðjur í umslagi frá ættingjum og vinum, en nú er það að verða búið spil. Það nenna fæstir að senda jólakort og láta duga að senda kveðjur, til dæmis á Facebook. Ég sakna mjög þeirra stunda þegar ég settist niður, seint á aðfangadagskvöld, til að lesa jólakortin. Ég þrjóskast við og sendi enn kort á mína nánustu og jafnvel skreyti umslögin líka svona eins og til að mótmæla þessari þróun.

Góð vinkona mín, sem hefur mikla trú á mér, hefur rammað inn margar af þessum myndum og hengt upp á vegg. Ég get ekki annað en verið þakklát henni fyrir það. Hún er þá svona ákveðinn kynningarfulltrúi fyrir mig og mínar myndir.

2025

2024

2023.

Fleiri sýnishorn

Það er mjög líklegt að ég þráist við næstu árin og sendi áfram jólakort að gömlum og góðum sið. En ég er líka pínu skrýtin kona.

Bissnesskona eða ekki, þar liggur efinn …

Ég hefði aldrei getað orðið bissnesskona. Það er eitthvað í mínum innsta kjarna sem leyfir það ekki að ég selji eitthvað; komi mér eða því sem ég er að gera eða stend fyrir á framfæri. Líklega kallast þetta feimni á góðri íslensku en hugsanlega tengist þetta líka einhverju öðru djúpt í sálartetrinu.

Ég skellti mér í klippingu um miðjan nóvember og þá bauð hárgreiðslumeistarinn minn, hún Erna, mér að koma með nokkur vettlingapör og selja hjá sér fyrir jólin. Eftir stutta umhugsun ákvað ég að slá til enda nóg til í skápnum hjá mér. Vettlingarnir hafa vakið nokkra athygli og þeir seljast bara vel mér til mikillar ánægju og kannski undrunar. Hvaða litur skildi nú vera vinsælastur? Því er fljótsvarað. Bleikir; spurt er um bleika vettlinga.

Ég hef styrkst í þeirri trú að það sem ég er að prjóna er ekki svo galið eftir allt saman. Mér telst til að ég sé búin að prjóna hátt í 200 vettlingapör og ég er ekki enn komin með leið á verkefninu. Ég prjóna úr alls konar garni eins og Kambgarninu og Fjallalopanum (hann stingur) en prjóna mest úr norskri ull. Ekkert gervigarn. Nú er ég að hanna 2026 vettlingana og það eru ótal hugmyndir í kollinum. Var ég að tala um bissnesskonu eða?

Slátur – lifrarpylsa – himneskur matur

,,Uhh …nú vaknar upp í huganum einhver æskuminning!“, muldraði sonurinn, um leið og hann gekk inn í eldhúsið. Af svip hans mátti ráða að minningin var ekki góð. Hvernig hann beitti röddinni sagði líka meira en þúsund orð. Ja hérna hér, hugsaði ég … og ég sem vara bara að gera slátur eða lifrapylsu.

Mér hefur alltaf fundist lifrarpylsa góð. Hún er bæði holl og seðjandi. Í fyrra gerði ég hana með tveimur fjölskyldum en núna, eins og oftast áður, var ég ein á báti og allt í góðu með það.

Ég má til með að deila því hvernig ég geri lifrarpylsu því mín aðferð á eftir að hjálpa mörgum. Fyrir löngu síðan, þegar ég treysti mér ekki í að sauma vambir þá fór ég að hugsa hvort ekki mætti ganga frá lifrapylsunni á einfaldari hátt en formæður okkar kenndu okkur. Það er að segja að nota eitthvað annað en kindavambir. Jú, jú það voru komnar gervivambir á þeim tíma, en mér hefur ekki fundist þær sérstaklega heppilegar vegna þess að það er svo erfitt að koma lifrarpylsunni ofan í þær. Þá fékk ég líka þessa snilldar hugmynd. Hvernig væri að setja lifrarpylsuna í jólakökuform og gufusjóða hana síðan. Þetta fannst mér góð hugmynd. Ég hugsaði líka til Frakkanna sem eru frægir fyrir sitt lifrarpaté og eins Dananna með sitt leverpostej. Hvað er lifrarpylsa annað en paté, svona ef maður hugsar út í það.

Það fór heill laugardagur í verkið. Ég vandaði mig vel við að hreinsa lifrina. Tók af henni himnuna en það gerði ég nú kannski aðallega til að hún þvældist ekki í hnífnum á hakkavélinni minni. Hökkuð lifrin fór í lítinn bala og smátt og smátt bættust önnur hráefni í blönduna. Ég notaði uppskrift frá ömmu minni, Áslaugu á Staðastað, en notaði líklega bara um 40 % af mör miðað við uppskriftina hennar ömmu. Eins notaði ég minna af rúgmjölinu. Í uppskriftinni á að nota nýru en ég er fyrir löngu hætt að setja þau með og bæti lifur við í staðinn.

Þá er það suðan. Formin, með hrárri lifrarpylsunni í, set ég í pott með vatni. Læt vatnið ná upp að miðju formsins og set álpappír yfir formið og gufusíð herlegheitin.

Hvernig tókst svo til? Mín skoðun er sú að ég hafi aldrei gert eins góða lifrarpylsu og í þetta sinn og ef eitthvað mætti gagnrýna þá hefði ég mátt salta hana aðeins betur. Verði okkur að góðu.

Hér koma nokkra myndir af ferlinu.

Lifrin hreinsuð og skorin í heppilega strimla til að auðvelda hakkavélinni (Kitchen Aid) vinnuna.
Lifrin komin á sinn stað og mjólkinni bætt í ásamt grænmetiskrafti og salti.
Heilhveti, haframjöl og rúgmjöl komin í blönduna.
Allt klár fyrir mörinn.
Ég setti lifrarpylsu í sjö gervivambir en gafst þá upp ….
Snilldin ein. Lifrarpylsan komin í álformin.

Á ég að leyfa þeim að taka flugið?

Ég setti mér það markmið í júlílok árið 2021 að prjóna eitt par af fingravettlingum á viku í eitt ár. Nú eru liðin tæp tvö ár og verkefnið er enn svo skemmtilegt að ég held áfram að prjóna og prjóna og er löngu búin að ná markmiðinu.

Nú er komið að því að ég ákveði hvort ég fari með verkefnið lengra og bjóði vettlingana til sölu. Það er hins vegar ákveðinn höfuðverkur því ég þarf auðvitað að ákveða verð á hvert par. Ég er alla vega búin að ákveða eitt og það er að þeir verða heldur í dýrari kantinu, ef ég mætti orða það sem svo. Alla vega munu þeir kosta meira en þessir fjöldaframleiddu sem fást í vegasjoppunum. Vettlingarnir eru mín hönnun og prjónaðir úr úrvals ull sem á ættir að rekja til Noregs. Þannig að ég nostra vel við hvert par.

Til Noregs spyr kannski einhver. Hvers vegna ekki að nota íslenska ull? Það er löng saga að segja frá því. Ég notaði lengi íslenska Kambgarnið en þegar nánar er skoðað þá er Kambgarnið ekki unnið úr íslenskri ull og það vill hnökra (það gerir nú reyndar öll ull). Íslenskan lopa er erfitt að nota í fingravettlinga, en ég er þó núna að gera tilraun með að prjóna vettlinga úr skagfirskri ull sem kemur beint frá bónda. Það kemur í ljós hvernig þeir verða en það er spennandi að geta sagt nákvæmlega af hvaða kindum ullin kemur sem vettlingarnir eru prjónaðir úr. Ég bíð sjálf spennt eftir niðurstöðunni og að sjálfsögðu þá verða þessir vettlingar eingöngu í sauðalitunum þar sem það er náttúrulegur litur kindanna hennar Sigrúnar frá Stórhóli í Skagafirði.

Vettlingar prjónaðir úr íslenskri ull af kindim frá Stórhól í Skiagafirði.

En aftur að nútíðinni. Eru grænir tónar málið eða bleikir; kannski rauðir og gráir, nú eða bláir? Á ég kannski að halda áfram með skagfirsku ullina? Er rétti tíminn kominn til að leyfa vettlingunum að taka flugið?

Hver er að stinga upp á mér …

,,Ég er nú ekki nein listakona“ , svaraði ég hálf vandræðaleg á svipinn, þegar góð vinkona úr alþjóðasamtökunum Delta Kappa Gamma, spurði mig, hvort ég væri ekki til í að vera listamaður mánaðarins hjá Evrópudeild samtakanna. Delta Kappa Gamma eru aljóðasamtök kvenna í fræðslustörfum.

,,Hver er að stinga upp á mér“, bætti ég við hissa. ,,Það eru konur fyrir sunnan, sem gerðu það“, svaraði vinkonan. Ég var fljót að finna nafn á listakonu sem ég þekkti vel til innan samtakanna, sem mér fannst miklu verðugri fyrir viðtalið; alvöru listakonu. Vinkonan gaf sig ekki og sagði að stungið hefði verið upp á mér.

Fyrir sunnan, eru sem sagt konur sem þekkja til mín og vita hvað ég hef verið að bralla með litina svona á bak við tjöldin.

Það þurfti bæði að tala mig til og sannfæra mig um að ég væri verðug fyrir verkefnið. Á endanum sló ég til. Nú er komið út stutt viðtal við konuna ásamt sýnishorni af nokkrum myndum.

… og er það ekki skondið að alþjóðasamtökin Delta Kappa Gamma eru stofnuð í Austin í Bandaríkjunum og hvar er Austin? Í Texas, auðvitað! Heimfylkinu sjálfu sem ég heimsótti í september síðstliðinn. Svona getur nú lífið verið skemmtilegt.

Sjá nánar á: http://www.dkgeurope.org/bryndis-thrainsdottir.html?fbclid=IwAR34bK2my7dCNX6D3wQbKmqcGK6gxOoEbnf_JLgQrHhyQMmJlJz-W1z_G0w

Laufabrauð … ómissandi á jólum

Það er mikil laufabrauðshefð í minni fjölskyldu. Í gamla daga kom stórfjölskyldan saman við laufabrauðsgerðina og okkur fannst þetta skemmtilegur siður og hlökkuðum alltaf mikið til. Eldra fólkið, oftast amma og mamma, hnoðuðu og flöttu út laufabrauðskökur. Við krakkarnir, ásamt pabba, skárum út mynstur í kökurnar. Pabbi var snillingur í að skera út í kökurnar eða það fannst mér að minnsta kosti.

Verkfærnin sem við þurftum í þá daga voru gott bretti og lítill vasahnífur. Við brutum upp á kökurnar og skárum litla skurði á ská í kökuna. Síðan flettum við í sundur og brettum upp á skurðinn svona eins konar lauf. Í dag notum við laufabrauðsjárn sem er snilldar uppfinning og flýtir mjög fyrir.

Áður en laufabrauðsjárnið kom til sögunnar var skorið mynstur í kökurnar með litlum hnífum.

Mamma og systur hennar sáu um að steikja laufabrauðskökurnar upp úr tólg og seinna meir Palmin feiti.

Þegar mínir krakkar voru litlir tóku þau þátt í laufabrauðsgerðinni með mér og pabba sínum. Svo fluttu þau að heiman og þá hefur það komið í minn hlut að steikja laufabrauðið. Halla vinkona mín spyr mig oft hvers vegna ég kaupi ekki bara laufabrauð. Það er bæði hægt að kaupa kökur sem á eftir að skera út og eins er hægt að kaupa tilbúið laufabrauð. Mér finnst uppskriftin hennar mömmu alltaf best og ég held mig við hana eitthvað áfram.

Í ár gerðum við Bryndís Lilja, dóttir mín, saman laufabrauð. Bryndis Lilja er vegan svo við ákváum að gera líka vegan kökur. Í staðinn fyrir mjólk settum við haframjólk. Við bárum saman bragð og áferð eftir steikinguna og vegan kökurnar voru ekki síðri en þessar hefðbundnu. Þannig að ég get mælt með haframjólkinni.

Hér hnoðar Bryndís Lilja deigið eftir sinni vegan uppskrift.
Laufabrauðsjárnið kemur að góðium notum.

Hér koma nokkrar ljósmyndir af ferlinu. Myndirnar eru teknar í desember 2020. Þá aðstoðaði Áslaug Sóllilja við baksturinn/steikinguna. Ekkert photoshoppað hér:)

Mjólkin/haframjólkin er hituð með smjörinu/smjörlíkinu.
Gott er að sigta mjölið/hvetið.
Kökurnar tilbúnar í steikingu.
Feitin er hituð vel. Passa þarf að hún brenni ekki.
Kökurnar eru steiktar báðum megin. Það þarf að snúa þeim við og passa að brenna sig ekki.
Pressa þarf kökurnar. Þá staflast þær betur. Eldhúspappír er notaður á milli.
Þessar eru tilbúnar til smökkunar.

Uppskriftin okkar:

1 kg hveiti – 70 gr smjör/smjörlíki – 3 msk sykur (jafnvel minna) – 1 tsk salt – 1 tsk ger – 6 – 7 dl mjólk/haframjólk. Mjólk og smjör hitað upp. Ekki láta suðuna koma upp.

Það er gott að þú ert komin heim, elskan …

Texas – fimmti og síðasti hluti

Siðasta kvöldið í ferðinni dvaldi ég heima hjá bróður mínum og konu hans ásamt Barb. Fylgifiskarnir mínir, unga fólkið, voru á flandri einhvers staðar. Við sátum þarna þrjú, systkinin og borðuðum saman og höfðum til þess gott næði. Mér fannst stundin nánast heilög.

Allt í einu stendur bróðir minn upp frá borðinu og kíkir á símann sinn, sem hafði látið í sér heyra nokkrum sinnum. ,,Google er að segja mér að það sé einhver búinn að vera að elta mig“, segir hann. ,,Air tag tracker“, og hann skoðar skilaboðin vandlega og var, að mér fannst, eilítið hissa. Svo lagði hann frá sér símann. Skyndilega kveikti ég á perunni og ég stóð á fætur og náði bakpokann minn. ,,This must be because I have this small device in my backpack“, sagði ég vandræðalega og sýndi honum ,,Apple air tag trackerinn“. Svo sagði ég þeim frá því að Áslaugu minni og kærastanum hefði fundist það góð hugmynd að ég væri með svona tæki í töskunni ef ég skildi nú týnast í hinu stóra Texas fylki. Ég skil ekki enn hvers vegna Google sjálfur er að láta aðra vita um það.

Mér fannst kveðjustundin erfið. Faðmlög á báða bóga og ég sagði Barb og John að ef þau kæmu til Íslands þá myndi ég vera þeim innan handar og fara með þeim og sýna þeim landið mitt. Þau tóku vel í það að koma til Íslands. Hvað sem því líður þá ætla ég að fara aftur til Texas.

Barb, systir mín, Ardy, John, bróðir minn og ég:)

Dallas/Fort Worth alþjóðaflugvöllurinn er annar stærsti flugvöllur í USA. Svæðið sem hann þekur er um 70 ferkilómetrar að stærð. Þrír flugturnar eru á flugvellinum og skipulag allt mjög gott. Þegar við tókum á loft í BlueJet vélinni tók önnur þota á loft á sama tíma á braut við hliðina á okkar vél. Einhvern tímann hefði ég ekki alveg getað horft á það rólega.

Vélarnar koma og fara og umferðin um völlinn er mikil. Við höfðum tekið rúnt með John nokkrum dögum fyrr og hann fór með okkur á sérstakan útssýnisstað til að fygjast með fluginu. John fetaði á sínum tíma i fótspor föður okkar og þjónaði í flughernum. Hann er hugfanginn af fluginu; er enn að vinna við að þjálfa flugmenn og sjálfur á hann vél sem hann flýgur reglulega á milli staða, bæði til að sinna ákveðnum erindum og eins sér til skemmtunar.

Áslaug tekur þátt í flugdansinum.

Ég flaug í gegnum öryggisleitina á flugvellinum. Engin blikkandi ljós og ekkert ýlfur. Ég tók á ákvörðun fyrir ferðina heim um að feta í spor gömlu hippanna; henti haldaranum ofan í stóru töskuna sem væntanlega var komin í lestina í flugvélinni og málið var dautt.

Flugið til Boston gekk eins og í sögu. „Clear sky“, eins og flugstjórinn nefndi við upphaf ferðar nánast alla leið. Ferðalagið var frábært í alla staði og ekki síst vegna þess að með í för voru Áslaug Sóllilja og Friðrik, kærasti hennar. Án þeirra hefði ferðin ekki heppnast svona vel.

Í Boston rigndi en mér var alveg sama um veðrið þegar þarna var komið sögu. Ég hlakkaði til að koma heim eftir ævintýraferð til Texas.

Ég sat hjá pabba þegar heim var komið og sagði honum hluta ferðasögunnar. Hann bað mig um að hringja þegar ég væri komin heim á Krók og ég gerði það. „Ertu komin norður? Það er gott að þú ert komin heim, elskan mín“, sagði pabbi minn og ég fann svo vel hversu vænt honum þykir um mig.

Kúrekastelpa ættuð frá Texas …

JAKKINN …

Texas – Fjórði hluti

Fyrir ferðina ákváðu John og Barb að fara með okkur á tvo skipulagða viðburði: annars vegar að heimsækja „Fort Worth Stockyards National Historic District“ og að fara á hafnarboltaleik. „Hafnarboltaleik! Veistu hvað svona leikur getur verið langur?“ sagði yngri systir mín við mig, þegar ég sagði henni frá þessum plönum og hún bætti við: „Þrír til fjórir tímar og það er ekkert að gerast“. Þetta hljómaði ekki vel í mín eyru fyrir ferðina út.

John ók með okkur stelpurnar að Stockyards. Á heimasíðu þeirra segja þeir að Fort Worth sé staðurinn þar sem Vestrið byrjar og í Stockyards megi sjá og kynnast gömlu arfleifðinni um kúreka sem ráku nautahjarðirnar um langan veg til að ná sér í pening. Við gengum um í hitanum, litum inn í búðir og mátuðum kúrekahatta og ég skimaði eftir jökkum með kögri. Þeir voru til en ekki alveg eins og ég hafði hugsað mér.

Svo sá ég hann! Hann hékk þarna á slá með öðrum kvenjökkum. Dökkbrúnn úr rússkinni og með kögri á ermum og á baki. Þungur rússkinnsjakki, alveg eins og ég hafði hugsað mér. Jakki sem verður fallegri eftir því sem hann eldist. Samferðafólki mínu leist vel á jakkann og nú þarf konan bara smá hugrekki til að þora að klæðast honum:)

Frekari myndataka ekki leyfð að sinni …

Alveg frá því ég var unglingur hefur mig langað í rússkinnsjakka með kögri. Ég var of ung til að upplifa hippatímann að öðru leyti en því að sjá bíómyndir eins og Woodstock og hlusta á tónlistina sem var auðvitað alveg geggjuð.

Daginn eftir skelltum við okkur á hafnarboltaleik til að sjá Texas Rangers spila við New York Yankees á sínum heimavelli.  Höllin þar sem heimavöllur Texas er er risastór og mikil stemning var í húsinu.

Ljósmyndin er tekin af: https://ballparkdigest.com/2019/08/16/rangers-release-updated-globe-life-field-renderings/

Ég skildi hvorki upp né niður í reglum leiksins til að byrja með. Ég fékk góðar útskýringar á ensku en það dugði ekki alveg til. Ég ákvað því að einbeta mér að leiknum og kerfisbundið fylgjast með hvað var að gerast og smátt og smátt áttaði ég mig á hvað var í gangi.

Í stuttu máli: Óvinurinn er á vellinum ásamt kastara og grípara eða þeim sem grípur boltann. Samtals níu menn. Síðan kemur einn úr hinu liðinu og hann er með kylfu og á að hitta boltann sem kastarinn kastar á áttina að gríparanum, eftir kúnstarinnar reglum. Ef hann hittir boltann þá hleypur hann af stað í næstu höfn. Tilgangurinn er sem sagt að komast hringinn í heimahöfnina. Nokkuð langdreginn leikur, eins og systir mín hafði réttilega nefnt við mig, en bara nokkuð skemmtilegur þegar ég fór að átta mig á litlu hlutunum í leiknum. Okkar menn töpuðu leiknum með einu stigi. Leikurinn fór 6 – 5 fyrir New York. Úrslitin komu okkar fólki ekki á óvart en fyrirfram var gert ráð fyrir að New York myndi vinna leikinn.

Frá vinstri: John, Bryndís, Barb, Ardy og Áslaug. Friðrik tók myndina.
Áslaug Sóllilja og Friðrik.

Í kvöld ætlum við borða saman heima hjá John og síðan er heimferð á morgun. Það verður erfitt að kveðja.

Ardmore Oklahoma …

Texas – þriðji hluti

„When we cross the Red river, we have reached Oklahoma“, sagði John þegar hann keyrði okkur; konu sína, mig, Áslaugu og Barb til Oklahoma. Stefnan var tekin á borgina Ardmore sem hefur um 25 þúsund íbúa.  Við ætlum að hitta börn Jacks föðurbróður okkar. John er hafsjór af fróðleik sem hann deilir á  leiðinni. Vissuð þið að vötn í nágrenni Dallas og Fort Worth eru gerð af mönnum fyrir utan eitt? Þetta fannst mér merkilegt. Ég velti fyrir mér hvort það væru formleg landamæri á milli ríkjanna en svo er ekki.  Áður en við komum til Ardmore tökum við vinstri beygju í áttina að litlum bæ sem heitir Healdton, en þar ólst faðir minn upp ásamt bróður sínum Jack. John vildi sýna okkur húsið sem þeir bræður ólust upp í. Gamla hverfið þeirra er í mikilli niðurníðslu; garðar illa hirtir og gróður allur skrælnaður. Húsið var á sinum stað en illa farið.

Gamla húsið í Healdton sem Bobby og Jack ólust upp í.

Kirkjugarðurinn var ekki langt frá og John og Barb vildu sýna okkur hvar amma okkar og afi hvíla. Víða eru plastblóm á leiðum og enginn á ferli. Það var hálf súrrealískt að standa fyrir framan legsteinana: Helen G. Williams, fædd 1903 og látin 1971 og William A. Williams, fæddur 1896 og látinn 1958. Ég sagði John að ég myndi signa yfir leiðin. „That´s what we Icelanders do every time we go to the cemetery“, sagði ég um leið og ég krossaði vel og vandlega yfir.

Áslaug Sóllilja og John við leiði ömmu og afa.

Við mættum á veitingahúsið „Two frogs grill“ í Ardmore á slaginu klukkan 13:00. Þegar við komum voru allir mættir; Ann Williams, frænka mín og bróðir hennar Russel ásamt sinni konu og Becky sem var gift Joel frænda mínum, en Joel lést í vor. Mér fannst eins og ég hefði þekkt þetta fólk alla ævi; öll andlit voru kunnugleg, en auðvitað var það ekki svo. Málið er, að eftir að Facebook kom til sögunnar getur maður kynnt sér alla sem eru á þeim miðli og það hafði ég svo sannarlega gert.

Ég er enn að vandræðast með skammtastærðir þegar ég panta mér mat hér í Texas og eins finnst mér pínu vandræðalegt þegar kemur að því að greiða reikninginn. Ég sá að Russel frændi minn var kominn með reikninginn í hendurnar og gerði sig líklegan til að borga. Ég hallaði mér að John og sagði: „Can I speak to you in confidence?“. „Sure“, sagði hann. Ég nefndi þá að ég væri ekki með pening en myndi greiða okkar hlut með korti. Hann fór að hlæja og sagði: „Well … this is Russel´s treat. Just enjoy …“. Þannig fór það.

Húsið hennar Ann frænku minnar er mjög skemmtilegt. Þangað var hersingin komin eftir góðan hádegismat. Húsið er allt öðru vísi en húsin í kring sem öll eru tveggja hæða með kjallara. Húsið hennar er langt og mjótt, lágreist og á einni hæð og í garðinum er lítil sundlaug. Ann er grafískur hönnuður, spilar á píanó og uppáhaldstónlistarmaður hennar er Joni Mitschell. Listaverkin í húsinu eru eftir hana sjálfa og hún er með vinnustofu heima. Ég giska á að hún sé gamall hippi. Ég á eftir að heyra meira í henni. Ann og maður hennar John eiga eina dóttur og tvö barnabörn.

Dagurinn leið hratt. Mikið var spjallað og gamlar ljósmyndir og skoðaðar. Mér voru gefnir gamlir eyrnarlokkar sem amma mín hafi átt eða „nanny“, eins og allir kalla hana. Áður en hópurinn kvaddist var skellt í eina myndatöku.

Sitjandi frá vinstri: Bryndís, kona Johns og Becky, kona Joels, Standandi: Áslaug Sóllilja, Ann Williams, John, kona Russels, Barb og Russels.

Á morgun er ferðinni heitið í Fort Worth´s StockYards. Hver veit nema þar fáist alvöru kúreka rússkinnsjakki, sem konuna hefur dreymt um frá því að hún kornung sá Crosby, Stills, Nash og Young hér um árið, í kvikmyndinni Woodstock.