Ég, Barb og John …

Texas – annar hluti.

Þeir tóku geltandi á móti okkur hundarnir hennar systur minnar enda hafa þeir líklega aldrei séð Íslendinga fyrr. Í sjónvarpsþáttum, þar sem fjallað er um fólk sem leitar uppruna síns má sjá miklar tilfinningar; menn og konur faðmast og gráta út í eitt. Það var ekki þannig hjá okkur systrum. Mér fannst það einhvern vegin eins og eðlilegasti hlutur í heimi að hitta Barb. Kannski vegna þess að við höfðum bæði séð og heyrt í hvor annarri á netinu undanfarna mánuði. Faðmlagið var hlýtt.

Hún býr í fallegu húsi ásamt tveimur hundum og einum ketti. Hún missti mann sinn árið 2013. Fylgifiskarnir mínir voru fljótir að komast upp á lag með hundana og köttinn. Hundarnir róuðust smátt og smátt, enda var þeim klappað í bak og fyrir. Við gátum spjallað saman í langa stund og skoðað gamlar ljósmyndir og Barb sagði okkur sögur.

Friðrik ásamt Barb.

Ég færði Barb lakkrís og súkkulaði og lét fylgja með söguna af milliríkjadeilu Dana og Íslendinga um lakkrísinn og súkkulaðið. Einnig gaf ég henni fingravettlinga og litla mynd.

Tvær skvísur og önnur ´íslensk.

Prjónaðir fingravettlingar eru kannski ekki alveg málið í Texas þar sem meðalhitinn yfir köldustu mánuði ársins er um 18°C!

Ég er ekki frá því að kötturinn hafi orðið eilítið órólegur yfir harðfiskinum því hann vildi ólmur komast í pokann minn, þrátt fyrir að fiskurinn væri farinn í frystinn.

Við ókum til Dallas daginn eftir og fórum á „The sixth floor Museum at Dealey Plaza (jfk.org)“. Við sem eldri erum munum mörg eftir því þegar John F. Kennedy var skotinn. Líklega með óhugnanlegri atburðum samtímans. Það var áhrifamikið að fara upp á sjöttu hæðina, þar sem talið er að skotmaðurinn hafi búið um sig og skoða allt sem þar var að sjá og heyra. Annars vakti það athygli okkar hversu fáir voru á ferli þennan föstudag í miðbæ Dallas og kannski bara eins gott því konan fékk í magann og þurfti að hraða sér heim á hótel.

Hér er talið að Oswald hafi skotið forsetann og látið skotvopnið hvíla á kössunum.

Ég hitti John Williams, bróður minn og konu hans, að kvöldi föstudags. Það urðu fagnaðarfundir. Það kom mér á óvart hversu hávaxinn hann er. John var flugmaður í flughernum og er enn að vinna við þjálfun flugmanna þrátt fyrir að vera kominn nokkuð yfir sjötugt. „I followed in my father´s footsteps“, sagði hann. Hann flaug meðal annars „Air force one (three)“, flugvél Bandaríkjaforseta um tíma, en það vita líklega fæstir að þær vélar eru að minnsta kosti þrjár og sú sem John flaug var ætluð forsetafrúnni og öðrum háttsettum embættismönnum á tímum Bush eldri.

John og Bryndís. Ekki laust við að konan sé orðin hálf þreytuleg.

Á sunnudag ætlum við að fara til Oklahoma; til borgar sem heitir Ardmore en þar ólst faðir minn upp og þar búa bróðurbörn hans. Við ætlum að hitta þau og heyra fleiri sögur. Ég hlakka til.

Texas … hér komum við!

Texas – fyrsti hluti

Það er meira en að segja það, fyrir flughrædda konu (svona í grunninn) að taka sér flugferð á hendur, alla leið til Texas, til að hitta nýfundin hálfsystkini sín … og það á sama deginum.

Í flugstöðinni í Keflavík hitti ég gamalkunnugt andlit. Þar var þá mættur Icavia starfsmaðurinn, sem tók svo vel utan um mig í mars þegar ég ætlaði að fljúga til Kanarí með Pl … ég get bara ekki sagt nafnið upphátt … en fékk ekki að fara um borð í vélina, af því að ég gleymdi vegabréfinu mínu fyrir norðan. Í mínum huga er hann starfsmaður ársins hjá Isavia. Ég þakkaðu honum aftur góðvildina, en gleymdi að spyrja hann um nafn. Ég á eftir að hitta hann aftur.

Í röðinni áður en við fórum í gegnum öryggisgæsluna sneri ég mér að Áslaugu minni og sagði henni að hliðið myndi ekki hleypa mér í gegn frekar en fyrri daginn. ,,Það er alltaf leitað á mér“, sagði ég. Hún trúði ekki orði af því sem ég sagði henni. Ljósin blikkuðu og hliðið ýlfraði um leið og ég gekk í gegn. Öryggisvörðurinn kallaði í konu og hún bað mig um að stíga upp á pall og rétta út hendurnar. ,,Snúðu þér við“, sagði hún, um leið og hún skannaði mig alla með leitartækinu. ,,Ég er með nokkra nagla í fætinum“, sagði ég. Hún skannaði fótinn. Fóturinn virtist ekki vera málið. ,,Ég held að þetta sé spöngin í brjóstahaldaranum“, sagði ég að lokum. Hún færði leitartækið ofar. Jú, það fór ekki á milli mála hver sökudólgurinn var. Ég vissi þetta reyndar.

Mæðgur vel gíraðar á leið til New York.

Flugið með Icelandair til New York gekk vel. Þau klikka sko ekki á þeim bænum. Flugfreyjurnar algjörlega með allt upp á tíu, bæði hvað varðar þjónustu, klæðnað og framkomu. Kannski gamaldags að nefna þetta en ég mátti til.

Aðflug inn til Kennedy flugvallar. Ströndin er falleg við New York.

Ég var vel undirbúin fyrir landamæravörðinn í USA enda margir búnir að gefa mér góð ráð. Til dæmis þá var mér sagt að passa upp á lyfin mín. Tollurinn í USA myndi kannski vilja sjá pakkninguna, svo það færi ekki á milli mála að lyfin eða blóðþrýstingstöflurnar mínar væru í alvörunni lyf og fyrir mig en ekki einhvern annan. Ég hafði því klippt í sundur lyfjaboxin og haldið þeim hluta, þar sem nafn mitt og lyfsins kemur fram  og límt lyfjaspjöldin sem ég þurfti á að halda við þá. Það var heilmikið föndur.

Ég var ekki spurð um nein lyf á landamærunum, en var aftur á móti beðin um að horfa í myndavélalinsu, sem var á bak við rispað gler. „I´m sorry“, sagði maðurinn, eftir smá stund. „I need to take another picture“. Kannski voru varirnar of fölar og krumpaðar en kannski var það bara rispaða glerið. En seinni myndatakan tókst vel að mati fulltrúa kerfisins.

Næst bað hann mig um að setja fjóra fingur hægri handar á einhvers konar plötu svo hann gæti skannað fingraförin. Svo vildi hann líka þumalinn. „No problem“, sagði ég og glotti til dóttur minnar, sem stóð á hliðarlínunni. „And now I want to ask you to place the four fingers of your left hand on the plate“? sagði hann. „I´m sorry”, sagði ég og mér fannst ég bara svolítið fyndin og fann til mín og ég hélt áfram: “I only have four and a half finger on my left hand”. Síðan skellti ég fingrunum á plötuna og það fór auðvitað ekkert á milli mála að fingurnir voru ekki alveg fjórir. Ég er ekki frá því að ég hafi séð smá brosviprur í augum hans áður en við kvöddumst. En auðvitað á maður ekki að grínast í svona alvarlegum aðstæðum.

Central Park í lok september.

Eftir að hafa farið inn í borgina og gengið um Central Park og miðborgina þá tók næsta flug við.

„This is because of my bra“, sagði ég vandræðalega við öryggisgæsluna í New York. Ég var búin að fara í ,,röntgenmyndatökuna“ og enn ýlfraði kerfið á mig. Ég var skönnuð hátt og lágt, eins og fyrri daginn en fékk svo að fara.

Öfugt við starfsfólk Icelandair þá var starfsfólk Blue Jets ekki í neinu „júniformi” eða ég gat ekki séð það. Tveir karlar og ein kona. Ég varð lítið vör við þau meðan á fluginu stóð. Flugþjónninn, sem tók á móti okkur þegar við gengum inn í vélina, hafði aðspurður sannfært okkur um að flugveður væri gott alla leið. Ég man ekki eftir að hafa lent í öðrum eins hristingi í langan tíma í flugi. „Stundum verður maður að sleppa takinu og treysta öðrum“, sagði sálfræðingur við mig eitt sinn, þegar ég ræddi við hann um flughræðsluna mína og það var akkúrat það sé ég gerði í fluginu frá New York til Fort Worth í Texas. Ég lagði traust mitt á góða flugmenn og trausta  flugvél.

Flugþjónnin afsakaði sig í bak og fyrir þegar við gengum úr vélinni og dóttir mín sagði brosandi við hann um leið og við kvöddum: „Yes, you lied to us about the flight conditions“. Hann vissi upp á sig skömmina:) Já, hún er hreinskilin stelpan, en samt alltaf kurteis.

Í dag er kominn nýr dagur og Texas bíður mín. Hér er sól og hiti og ævintýri dagsins framundan.

 

sama deginum.





,,Ertu maður eða vél?“ Ferðin sem aldrei var farin

„Ertu maður eða vél?“, spurði konan viðmælandann á spjallinu hjá flugfélaginu Play í gærmorgun. Hún hafði spjallað við vélmenni í smá stund sem á endanum gaf henni samband við þjónustufulltrúa. „Ég er manneskja“, svaraði hann.

Konan var niðurbrotin eftir að hafa uppgötvað, fjórum tímum fyrir flug til Gran Canaria, að vegabréfið hennar hafði orðið eftir heima. Þetta hafði aldrei komið fyrir hana áður. „Hefur þú ekki tíma til að láta einhvern skutla því til þín?“, spurði elskulegur starfsmaður Isavia. Það gafst enginn tími til að skjótast eitt eða neitt enda um 340 km heim og veður og færð eins og menn þekkja á Suðvesturhorninu þessa dagana. Hún var heppin að ferðafélagi hennar var yngri sonur hennar en sá eldri var á sama tíma á leiðinni til Gran Canaría frá Danmörku, þar sem hann býr, ásamt börnunum sínum þremur. Þrátt fyrir góða hjálp starfsmanns Isavia, þá var ekki nokkur sjéns að fá enskumælandi starfsmenn flugfélagsins Play til að reyna að aðstoða konuna eða koma með einhverjar hugmyndir að lausn. Hún gæti ekki flogið með félaginu nema hafa sjálft vegabréfið, þetta bláa. Konan hafði þó verið fyrirhyggjusöm og skannað vegabréfið þannig að hún gat framvísað því, bæði í símanum, tölvunni og í útprentun á pappír. Það var ekki tekið gilt.

Auðvitað var þetta konunni sjálfri að kenna og það vissi hún vel. Á opinberum vefsíðum segir þó að ekki þurfi að sýna vegabréf við landamæri innan Schengen svæðisins þótt auðvitað sé mælt með því að fólk hafi vegabréf meðferðis og sé reyndar skilt að vera með persónuskilríkí. Flugfélög geta þó sett sínar eigin reglur og reglur flugfélagsins Play eru þær að enginn fer um borð nema hann framvísi gildu vegabréfi.

Konan gerði allt sem hún gat. Hún leitaði í örvæntingu að einhverri þjónustu á vellinum en það var allt lokað. Hún hringdi í lögregluna. Þeir opna klukkan 10:00. Hún hringdi í síma sýslumannsins. Hann opnar klukkan 08:30. Hún skrifaði Play tölvuóst, því ekki er boðið upp á neyðarsíma. Sá sem svaraði erindinu skrifaði á ensku og sagðist ekki alveg skilja erindið.

Til að gera langa og ömurlega sögu stutta þá samþykkti sonurinn með miklum semingi á endanum að fara í ferðina og skilja konuna, mömmu sína, eftir.

Hún gekk því buguð út úr flugstöðinni og fannst hún niðulægð; dró á eftir sér fulla ferðatösku af sumarfötum, litum, blöðum, bókum og smá nammi sem hún hafði ætlað barnabörnunum.

Þessi óheppna kona er auðvitað ég sjálf. Ég hef á síðasta sólarhring gengið í gegnum allan tilfinningaskalann; áfall, reiði og sorg og þær fylgdu mér alla leiðina norður í Skagafjörð.

Já, ertu maður eða vél? Er von að spurt sé. Flugfélagið Play býður eingöngu upp á rafræn samskipti við sína viðskiptavini. Það var ítrekað þegar ég vildi fara á staðinn til að ræða málin. „Við erum ekki með móttöku“, var svarið á spjallinu.

Að lokum þetta. Ég legg til að á flugvellinum starfi eins konar umboðsmaður farþega. Einhver sem hefur yfirsýn yfir starfsemina og getur aðstoðað fólk af einhverri alvöru þegar það lendir í sömu aðstæðum og ég gerði. Sú manneskja hefði klárlega sparað mér örvæntinguna og tárin í gær.

Synirnir og barnabörnin hafa það annars gott í sólinni á Kanarí …

Töfrar vísindanna …

Hann var flugmaður í flugher Bandaríkjanna og kom til Íslands árið 1954. Þegar hann þjónaði á Íslandi þá var hann þyrluflugstjóri í björgunarsveit bandaríska hersins (53rd Air Rescue Squadron) en sú sveit þjónaði einnig Íslendingum með því að bjarga sjómönnum í sjávarháska og öðrum sem þurftu á hjálp að halda á þeim tíma, eins og elstu menn muna.

Hann þjónaði í flughernum í 22 ár eða frá 1942 – 1964 og flaug meðal annars 35 ferðir á sprengjuvélum yfir Þýskaland í seinni heimsstyrjöldinni á B – 26 Marauder vélum, aðeins tvítugur að aldri. Eftir að hann hætti í flughernum flaug hann fyrir United Airlines í 20 ár, meðal annars á DC – 6, Boeing 737, Boeing 727 og DC – 10. Flugtímarnir hans urðu yfir tíu þúsund.

Ungir bræður. Frá vinstri: Jack og Bobby.
Flugmaður um borð í B – 26 Marauder vél sinni.

Umræddur maður var blóðfaðir minn; Bobby G . Williams. Það má segja að ég hafi leitað að honum í yfir 30 ár. Á sínum tíma gekk ég í samtök stríðsbarna og bað um hjálp við að finna hann. Sú aðstoð var gagnslaus. Ég átti góða frænku í Bandaríkjunum, sem reyndi að aðstoða mig en ekkert gekk. Ég átti sendibréf frá honum og eina ljósmynd til að styðjast við í leitinni.

Á síðustu árum hefur Google komið sterkt inn og eftir nokkra leit af og til fóru að safnast saman brot í eina heildarmynd.

Síðastliðið vor fann Bryndís Lilja, dóttir mín, tilkynningu um lát hans en hann lést árið 2007 og þar mátti finna nöfn forelda hans, bróður, konu hans og barna. Þegar þarna var komið sögu skynjuðum við að við vorum alveg að komast á leiðarenda í leitinni að uppruna mínum. Við fundum ættingja á Facebook og Instagram en ekki þá allra nánustu.

Í ágúst fékk dóttir mín, Áslaug Sóllilja, þá brilljant hugmynd að fara í DNA próf úti í Kanada þar sem hún býr. ,,Ég hrækti í túpu“, eins og hún sagði sjálf frá og niðurstöður úr prófinu komu mánudaginn 27. september. Niðurstöður sýndu meðal annars að Áslaug átti náskylda frænku í Bandaríkjunum (1st – 2nd cousin) sem heitir Barbara og viti menn; hún reyndist vera hálfsystir mín. Áslaug skrifaði henni tölvupóst og það kom svar nánast um hæl. Daginn eftir var ég í þó nokkurri geðshræringu og það féllu nokkur tár. Það stóða allt heima, Barbara vissi að hún ætti hálfsystur ´á Íslandi og tók tíðindunum fagnandi.

Til að gera langa sögu stutta þá erum við systur nú komnar í ágætis samband á netinu og vonandi er ferð til Bandaríkjanna næsta stóra ferðalag sem ég, fyrrum flughrædda konan, fer í til að kynnast nýjum systkinum mínum betur.

Það er svo merkilegt að þrátt fyrir dásamlega foreldra á Íslandi; bestu systkini sem hægt er að hugsa sér, þá var alltaf einhver lítið hola í hjartanu sem maður verður að fylla upp í. Það er svo gott að finna hvaðan maður kemur og hverjum maður er líkur.

Nú voru það máttur og töfrar vísindanna sem komu mér til hjálpar. Ég vildi bara að þessi leit hefði borið árangur fyrr … miklu fyrr.

Amen á eftir efninu …

Handóður prjónari …

Það er stundum skrýtið hvernig maður getur ánetjast einhverju, einhverju sem manni finnst skemmtilegt, áhugavert og uppbyggjandi. Í júli síðastliðinn ákvað ég að taka aftur upp prjónana og prjóna fingravettlinga. Ég hef fylgt gamalli uppskrift í gegnum tíðina, breytt henni nokkuð og gert hana að minni. Í sumar ákvað ég að skrifa uppskriftina niður fyrir ýmsar útfærslur, til dæmis vettlinga á börn, netta kvenvettlinga og svo framvegis. Ég ákvað líka að að prjóna eitt vettlingapar í viku ásamt því að mála eina mynd, en það er önnur saga..

Vettlingar á barnabörnin. Það vildu allir fá vettlinga, líka Anton Gísli sem er nú bara tveggja og hálfs.

Í dag, í lok september, held ég mig enn við markmiðin mín og gott betur því að á ellefu vikum hef ég prjónað 17 pör og það er engan bilbug á mér að finna.

Hér er ég aðeins að færa mig varlega í skærari liti.

Nú hef ég fundið nýtt vettlingaverkefni, sem er reyndar ekki nýtt og það er að prjóna vettlinga í einum lit og sauma svo á handarbakið mynstur. Ég hef gert þetta áður og saumaði þá krosssaum í vettlinga hjá dætrum mínum en núna sauma ég í lykkjurnar þannig að það kemur út eins og mynstrið eða myndin hafi verið prjónuð í vettlingana. Fyrirmyndin er gamall púði sem móðir mín, Sísa, saumaði út í fyrir 55 til 60 árum. Mér finnst hugmyndin góð; að færa gamalt handverk og í leiðinni góða minningu yfir á nýtt form sem í þessu tilfelli eru vettlingar. Þessir sem nú eru undir nálinni eru fyrir Bryndísi Lilju mína og eiga að vera við sparikápuna hennar.

Mynstrið kemur vel út svona við fyrstu sýn. Nú er að finna fleiri mynstur, jafnvel hönnuð af mér frá grunni.

Vettlingar í ,,smíðum“.

Það er alltaf gott að eiga svona vettlinga og mér finnst þeir til dæmis góð og falleg afmælisgjöf fyrir þá sem eiga allt.

Það er alveg á mörkunum að ég sé illa haldin af prjónaáráttuhegðun en það er ekki slæmt að geta dundað sér við handverk núna þegar veturinn er framundan.

Áfram ég …

Ömmuskóli …

Við upplifum skrýtna tíma þessi misserin. Rútínan er einföld og fábreytt. Dagurinn hefst snemma á SÆT prógramminu mínu, en það má þýða sem: sund, æfingar og teygjur. Síðan tekur vinnan við. Að loknum vinnudegi skýst ég kannski í búðina, vel varin með grímu og hanska og þá má nánast segja að dagurinn sé búinn.

Fyrir nokkrum dögum spurði sonur minn í Danmörku mig að því, hvort ég gæti hitt ömmustelpuna mína nokkra morgna í viku, þar sem skólinn hennar er lokaður vegna Covid. Mamman starfar sem læknir og pabbinn vinnur heima þessar vikurnar, en þarf að byrja hvern dag á fundum. ,,Ekki málið“, sagði ég spennt. ,,Við köllum þetta ömmuskóla“, sagði sonurinn.

Hvað gerum við svo í þessum ömmuskóla í gegnum tölvuna? Jú, ég hef hjálpað henni smá með heimaverkefnin. Við teiknum saman og litum. Hún klippir og límir, býr til bækur og segir mér sögur. Hún teiknaði af mér mynd í fyrsta tímanum okkar.

Amma Bryndís

Um daginn minnti ég hana á að hún mætti alveg standa aðeins upp frá borðinu og gera æfingar. Fyrr en varði var hún komin með spjaldtölvuna á stofugólfið og komin á fullt í æfingar. ,,Amma, leggstu niður á bakið og svo lyftir þú bakinu upp og býrð til svona brú“. Síðan var hún komin nánast í splitt. ,,Þú setur bara fótinn svona og teygir þig svona til hægri og …“. Ég sat enn á stólnum, vandræðaleg og þóttist gera æfingar og það kom ekki að sök.

Stundum kennir hún mér að segja eitthvað á dönsku og leiðréttir þá framburðinn minn. Ég bað hana um að kenna mér að kaupa miða í flugvélina sem ætlaði að fljúga með mig til Danmerkur og segja það á dönsku. Eftir smá umhugsun sagði hún: ,,Amma, það tala allir íslensku í flugvélinni, þú þarft ekki að segja það á dönsku“. Á endanum féllst hún á að kenna mér að kaupa miða í lestina og að sækja bræður sína á leiskólann. ,,God morgen, jeg … „.

Ég les fyrir hana um það bil eina bók á dag. Tæknin þvælist lítið fyrir okkur. Þegar ég les sögu þá er ég búin að taka ljósmyndir af myndunum í bókinni og síðan deili ég þeim jafnóðum og ég les, en þetta er bara gert fyrir okkur tvær.

Ljósmynd úr bókinni Gilitrutt en ljósmyndir bókarinnar eru eftir Brian Pilkington.

Í morgun sat ég uppi í herbergi og las fyrir hana söguna af Gilitrutt. Brian Pilkington teiknaði myndirnar í þá bók. Á einum tímapunkti verður mér litið á gluggann og sé þá spegilmynd mína. Ég var orðin heldur ófrýnileg í framan, baðandi út öllum öngum, algjörlega búin að missa mig í túlkuninni á persónum og leikendum sögunnar. ,,Ja, hérna hér“, hugsaði ég. Hvað er ég eiginlega að hugsa. Þetta er auðvitað málið. Streitulosun af bestu gerð. Að lesa fyrir barnabarnið og komast í flæði við að teikna og föndra í gegnum netið er að bjarga Covid heilsunni minni. Hvílík heilun og heppin ég.

Horft í suðurátt, út um gluggan í Suðurgötu 8. Dagrenning.

Og heilarinn minn, hún Ella, hún er bara sex ára snillingur.

… og áfram heldur Covid

Covid – 19 heldur áfram að veikja fólk, bæði hér heima á Íslandi og erlendis. Fjölskyldur ná ekki að hittast og það er erfitt. Maður vonar að allir fari varlega og reyni að forðast smit, bæði til að létta á heilbrigðiskerfinu okkar og eins til að vernda sjálfan sig og sína nánustu.

Mér finnst gott að hafa eitthvað fyrir stafni á þessum tímum og helst eitthvað sem mér finnst skipta máli. Eitt er, að dunda sér við að teikna og mála. Það gerir mér gott. Um leið og ég teikna er gott að hlusta á góða tónlist og hugsa til þeirra sem maður elskar en fær ekki að hitta þessi misserin þar sem þeir búa í öðrum löndum. ÉG hlakka mikið til þegar við fjölskyldan verðum öll saman á ný.

Gul mistök …

Stundum geta mistök  snúist upp í andhverfu sína og orðið eitthvað sérstakt og fallegt. Það er í lagi að gera mistök. Mistök eru til að læra af þeim. Akkúrat þetta hugsaði ég, fyrr í vor, þegar ég æfði mig í að gera nokkrar grafít myndir á eldhúsborðinu mínu. Myndirnar voru verkefni á námskeiðinu Sjónlistir á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Ég reyndi tvær aðferðir; skar út myndir í dúk og handþrykkti myndirnar á pappír og eins þá málaði ég á plexílgler og þrykkti á pappír. Ég hafði ekki aðgang að grafíkpressu á mínum heimaslóðum og því þurfti ég að nota hendurnar til að þrykkja myndirnar á pappírinn, allt eftir kúnstarinnar reglum.

Ein tilraunin var þannig að ég rúllaði gulan akríllit á plexílglerið. Síðan málaði ég lauslega með svartri málningu útlínur af íslenskri konu á gula litinn. Ég lagði rakan pappírinn yfir glerið. Setti því næst dagblað  ofan á pappírinn og þrýsti þéttingsfast með fingrunum og lófanum yfir. Ég tók síðan dagblaðið varlega af pappírnum og pappírinn af glerinu. Bingó! Hér var komin mynd. Hún hefði mátt þrykkjast betur á pappírinn en það er önnur saga.

Í fyrstu fannst mér lítið varið í myndina og var jafnvel að hugsa um að farga henni en ég ákvað að geyma hana. Til að gera langa sögu stutta þá finnst mér myndin flott og fleiri hafa tekið undir það. Myndin minnir mig á listamanninn Banksy  og eins minnir hún mig á auglýsingu sem ég sá einhvern tímann fyrir sýninguna Vesalingana en þrátt fyrir mikla leit hef ég ekki fundið þessa auglýsingu.

En aftur að myndinni. Það sem ég taldi vera mistök er ekki svo slæmt eftir allt saman:)

20200415_171757

Afmæliskveðja – 24. janúar 2017

Hún gaf mér lífið en ákvað þegar ég var nokkurra mánaða að eftirláta Þráni bróður sínum og konu hans, Soffíu,  uppeldið á stelpunni. Foreldrar mínir voru á þessum tíma nýgift og barnlaus og höfðu litið eftir mér á meðan hún var að vinna sem símastúlka suður í Keflavík. Á einhverjum tímapunkti var ákveðið að ég yrði hjá þeim til frambúðar. ,,Ég vildi frekar gráta ein“, sagði hún mér seinna ,,frekar en að horfa upp á þau tvö gráta“. Þannig æxlaðist það að ég varð elsta barn foreldra minna.

sisa-1
Sísa í kringum tvítugt.

Það var aldrei neitt leyndarmál að ég ætti aðra mömmu og meira að segja amerískan föður enda góður samgangur á milli pabba og Sísu mömmu. Það truflaði mig ekki í uppeldinu, enda átti ég góða foreldra og systkini og hafði nóg fyrir stafni. Ég man eftir einu atviki þar sem ég er í kringum átta ára aldurinn og var að hjálpa mömmu að leggja á borð og áttaði mig á því að ég ætti engin alsystkini. Það fannst mér alveg hræðilegt. Mömmu fannst ég gera úlfalda úr mýflugu, nokkur tár féllu og svo var það búið í það skiptið.

rettur-william
Captain Williams, blóðfaðir minn.

Þegar ég var orðin unglingur bærðust alls konar tilfinningar innra með mér, svona eins og gengur og gerist hjá unglingum. Sísa vildi alltaf allt fyrir mig gera en ég tók þann pól í hæðina að halda henni í ákveðnni fjarlægð. Ég vildi lengi ekki leyfa henni að vera góðri við mig. Ég hef alltaf séð eftir því.

227263_1706402496086_1118747683_31390696_3836188_n1
Myndin er tekin á Hólavallagötunni. Það eru jól og Sisa mamma í heimsókn.

Ég kynntist Sísu ekki af neinu viti  fyrr en eftir að hún bauð mér vinnu hjá sér sumarið 1978. Ég stundaði nám í Kennaraháskólanum. Hún var þá búin að vera ráðskona á sumrin í veiðihúsinu við Hítará, frá sumrinu 1966. Ég sló til enda launin ágæt. Þarna kynntist ég henni fyrst almennilega og hún mér. Við unnum vel saman og mér leið vel með henni þessi þrjú sumur sem við áttum saman við Hítará. Þegar við áttum frí þá unnum við handavinnu; prjónuðum og saumuðum út eins og enginn væri morgundagurinn og ég held að við höfum hlustað á allar framhaldssögur sem Rás 1 bauð upp á þessi sumur.

Hún hafði stóran og hlýjan faðm og það var gott að fá hjá henni faðmlag. Það var ,,alvöru“ eins og sagt er. Hún eldaði besta mat í heimi og var höfðingi heim að sækja. Hún og Friðrik, maður hennar, útbjuggu matarveislur fyrir fermingar í mörg ár. Mér fannst ,,köldu borðin“ þeirra alltaf alveg æði. Hún var listakona í höndunum og fyrir utan að prjóna, saumaði hún út af miklu kappi alla tíð.

img_0012
Amma í heimasókn. Áslaug Sóllilja og Bryndís Lílja. Lílega sumarið 1994.

Sísa hafði ekki góða heilsu í gegnum tíðina. Sem ung kona þjáðist hún af höfuðverkjum og var greind með mígreni. Henni bauðst að fara til Danmerkur í aðgerð sem átti að hjálpa til. Hún átti ekki peninga fyrir ferðinni sem átti að kosta 3 þúsund krónur, sem var mikið á þeim tíma. Þráinn, pabbi, bróðir hennar, átti sparifé sem hann lánaði systur sinni. Hún sigldi því með Gullfossi til Danmerkur og fékk einhver bóta meina sinna. Síðar plagaði gigt hana og það setti mark sitt á hennar daglega líf í gegnum tíðina.

img_0014
Myndin er tekin fyrir utan Bifröst á Sauðárkróki. Tilefnið er jarðarför ömmu Ragnheiðar.

Hún eignaðist fimm börn; Óðinn Má Jónson, sem er fæddur 1946, Bryndísi Krístínu fædda 1956, Eirík Valdimar Friðriksson sem fæddur er 1958, Sigríði Súsönnu Friðriksdóttur sem fædd er 1959 og Þorvald Björn sem fæddist 1966 og dó sama ár. Hún giftist Friðriki Eiríkssyni, bryta.

img_0003
Efsta röð: Hildur Þóra, Eiríkur, Óðinn með Róbert Rafn og Svava Rut. Miðröð: Súsanna, Sísa með Áslaugu Sóllilju, Bryndís með nöfnu sína. Nesta röð: Kristín Lilja, Ragnheiður, Þráinn Svan og Einar Svan.

Sísa lést 9. apríl 2001. Hér má lesa viðtal við Sísu í Morgunblaðinu frá því í mars 2001 og eftirmæli um hana í Morgunblaðinu eftir að hún lést.

Til hamingju með afmælið, elsku Sísa móðir mín.