Það er gott að þú ert komin heim, elskan …

Texas – fimmti og síðasti hluti

Siðasta kvöldið í ferðinni dvaldi ég heima hjá bróður mínum og konu hans ásamt Barb. Fylgifiskarnir mínir, unga fólkið, voru á flandri einhvers staðar. Við sátum þarna þrjú, systkinin og borðuðum saman og höfðum til þess gott næði. Mér fannst stundin nánast heilög.

Allt í einu stendur bróðir minn upp frá borðinu og kíkir á símann sinn, sem hafði látið í sér heyra nokkrum sinnum. ,,Google er að segja mér að það sé einhver búinn að vera að elta mig“, segir hann. ,,Air tag tracker“, og hann skoðar skilaboðin vandlega og var, að mér fannst, eilítið hissa. Svo lagði hann frá sér símann. Skyndilega kveikti ég á perunni og ég stóð á fætur og náði bakpokann minn. ,,This must be because I have this small device in my backpack“, sagði ég vandræðalega og sýndi honum ,,Apple air tag trackerinn“. Svo sagði ég þeim frá því að Áslaugu minni og kærastanum hefði fundist það góð hugmynd að ég væri með svona tæki í töskunni ef ég skildi nú týnast í hinu stóra Texas fylki. Ég skil ekki enn hvers vegna Google sjálfur er að láta aðra vita um það.

Mér fannst kveðjustundin erfið. Faðmlög á báða bóga og ég sagði Barb og John að ef þau kæmu til Íslands þá myndi ég vera þeim innan handar og fara með þeim og sýna þeim landið mitt. Þau tóku vel í það að koma til Íslands. Hvað sem því líður þá ætla ég að fara aftur til Texas.

Barb, systir mín, Ardy, John, bróðir minn og ég:)

Dallas/Fort Worth alþjóðaflugvöllurinn er annar stærsti flugvöllur í USA. Svæðið sem hann þekur er um 70 ferkilómetrar að stærð. Þrír flugturnar eru á flugvellinum og skipulag allt mjög gott. Þegar við tókum á loft í BlueJet vélinni tók önnur þota á loft á sama tíma á braut við hliðina á okkar vél. Einhvern tímann hefði ég ekki alveg getað horft á það rólega.

Vélarnar koma og fara og umferðin um völlinn er mikil. Við höfðum tekið rúnt með John nokkrum dögum fyrr og hann fór með okkur á sérstakan útssýnisstað til að fygjast með fluginu. John fetaði á sínum tíma i fótspor föður okkar og þjónaði í flughernum. Hann er hugfanginn af fluginu; er enn að vinna við að þjálfa flugmenn og sjálfur á hann vél sem hann flýgur reglulega á milli staða, bæði til að sinna ákveðnum erindum og eins sér til skemmtunar.

Áslaug tekur þátt í flugdansinum.

Ég flaug í gegnum öryggisleitina á flugvellinum. Engin blikkandi ljós og ekkert ýlfur. Ég tók á ákvörðun fyrir ferðina heim um að feta í spor gömlu hippanna; henti haldaranum ofan í stóru töskuna sem væntanlega var komin í lestina í flugvélinni og málið var dautt.

Flugið til Boston gekk eins og í sögu. „Clear sky“, eins og flugstjórinn nefndi við upphaf ferðar nánast alla leið. Ferðalagið var frábært í alla staði og ekki síst vegna þess að með í för voru Áslaug Sóllilja og Friðrik, kærasti hennar. Án þeirra hefði ferðin ekki heppnast svona vel.

Í Boston rigndi en mér var alveg sama um veðrið þegar þarna var komið sögu. Ég hlakkaði til að koma heim eftir ævintýraferð til Texas.

Ég sat hjá pabba þegar heim var komið og sagði honum hluta ferðasögunnar. Hann bað mig um að hringja þegar ég væri komin heim á Krók og ég gerði það. „Ertu komin norður? Það er gott að þú ert komin heim, elskan mín“, sagði pabbi minn og ég fann svo vel hversu vænt honum þykir um mig.

Kúrekastelpa ættuð frá Texas …

JAKKINN …

Texas – Fjórði hluti

Fyrir ferðina ákváðu John og Barb að fara með okkur á tvo skipulagða viðburði: annars vegar að heimsækja „Fort Worth Stockyards National Historic District“ og að fara á hafnarboltaleik. „Hafnarboltaleik! Veistu hvað svona leikur getur verið langur?“ sagði yngri systir mín við mig, þegar ég sagði henni frá þessum plönum og hún bætti við: „Þrír til fjórir tímar og það er ekkert að gerast“. Þetta hljómaði ekki vel í mín eyru fyrir ferðina út.

John ók með okkur stelpurnar að Stockyards. Á heimasíðu þeirra segja þeir að Fort Worth sé staðurinn þar sem Vestrið byrjar og í Stockyards megi sjá og kynnast gömlu arfleifðinni um kúreka sem ráku nautahjarðirnar um langan veg til að ná sér í pening. Við gengum um í hitanum, litum inn í búðir og mátuðum kúrekahatta og ég skimaði eftir jökkum með kögri. Þeir voru til en ekki alveg eins og ég hafði hugsað mér.

Svo sá ég hann! Hann hékk þarna á slá með öðrum kvenjökkum. Dökkbrúnn úr rússkinni og með kögri á ermum og á baki. Þungur rússkinnsjakki, alveg eins og ég hafði hugsað mér. Jakki sem verður fallegri eftir því sem hann eldist. Samferðafólki mínu leist vel á jakkann og nú þarf konan bara smá hugrekki til að þora að klæðast honum:)

Frekari myndataka ekki leyfð að sinni …

Alveg frá því ég var unglingur hefur mig langað í rússkinnsjakka með kögri. Ég var of ung til að upplifa hippatímann að öðru leyti en því að sjá bíómyndir eins og Woodstock og hlusta á tónlistina sem var auðvitað alveg geggjuð.

Daginn eftir skelltum við okkur á hafnarboltaleik til að sjá Texas Rangers spila við New York Yankees á sínum heimavelli.  Höllin þar sem heimavöllur Texas er er risastór og mikil stemning var í húsinu.

Ljósmyndin er tekin af: https://ballparkdigest.com/2019/08/16/rangers-release-updated-globe-life-field-renderings/

Ég skildi hvorki upp né niður í reglum leiksins til að byrja með. Ég fékk góðar útskýringar á ensku en það dugði ekki alveg til. Ég ákvað því að einbeta mér að leiknum og kerfisbundið fylgjast með hvað var að gerast og smátt og smátt áttaði ég mig á hvað var í gangi.

Í stuttu máli: Óvinurinn er á vellinum ásamt kastara og grípara eða þeim sem grípur boltann. Samtals níu menn. Síðan kemur einn úr hinu liðinu og hann er með kylfu og á að hitta boltann sem kastarinn kastar á áttina að gríparanum, eftir kúnstarinnar reglum. Ef hann hittir boltann þá hleypur hann af stað í næstu höfn. Tilgangurinn er sem sagt að komast hringinn í heimahöfnina. Nokkuð langdreginn leikur, eins og systir mín hafði réttilega nefnt við mig, en bara nokkuð skemmtilegur þegar ég fór að átta mig á litlu hlutunum í leiknum. Okkar menn töpuðu leiknum með einu stigi. Leikurinn fór 6 – 5 fyrir New York. Úrslitin komu okkar fólki ekki á óvart en fyrirfram var gert ráð fyrir að New York myndi vinna leikinn.

Frá vinstri: John, Bryndís, Barb, Ardy og Áslaug. Friðrik tók myndina.
Áslaug Sóllilja og Friðrik.

Í kvöld ætlum við borða saman heima hjá John og síðan er heimferð á morgun. Það verður erfitt að kveðja.

Ardmore Oklahoma …

Texas – þriðji hluti

„When we cross the Red river, we have reached Oklahoma“, sagði John þegar hann keyrði okkur; konu sína, mig, Áslaugu og Barb til Oklahoma. Stefnan var tekin á borgina Ardmore sem hefur um 25 þúsund íbúa.  Við ætlum að hitta börn Jacks föðurbróður okkar. John er hafsjór af fróðleik sem hann deilir á  leiðinni. Vissuð þið að vötn í nágrenni Dallas og Fort Worth eru gerð af mönnum fyrir utan eitt? Þetta fannst mér merkilegt. Ég velti fyrir mér hvort það væru formleg landamæri á milli ríkjanna en svo er ekki.  Áður en við komum til Ardmore tökum við vinstri beygju í áttina að litlum bæ sem heitir Healdton, en þar ólst faðir minn upp ásamt bróður sínum Jack. John vildi sýna okkur húsið sem þeir bræður ólust upp í. Gamla hverfið þeirra er í mikilli niðurníðslu; garðar illa hirtir og gróður allur skrælnaður. Húsið var á sinum stað en illa farið.

Gamla húsið í Healdton sem Bobby og Jack ólust upp í.

Kirkjugarðurinn var ekki langt frá og John og Barb vildu sýna okkur hvar amma okkar og afi hvíla. Víða eru plastblóm á leiðum og enginn á ferli. Það var hálf súrrealískt að standa fyrir framan legsteinana: Helen G. Williams, fædd 1903 og látin 1971 og William A. Williams, fæddur 1896 og látinn 1958. Ég sagði John að ég myndi signa yfir leiðin. „That´s what we Icelanders do every time we go to the cemetery“, sagði ég um leið og ég krossaði vel og vandlega yfir.

Áslaug Sóllilja og John við leiði ömmu og afa.

Við mættum á veitingahúsið „Two frogs grill“ í Ardmore á slaginu klukkan 13:00. Þegar við komum voru allir mættir; Ann Williams, frænka mín og bróðir hennar Russel ásamt sinni konu og Becky sem var gift Joel frænda mínum, en Joel lést í vor. Mér fannst eins og ég hefði þekkt þetta fólk alla ævi; öll andlit voru kunnugleg, en auðvitað var það ekki svo. Málið er, að eftir að Facebook kom til sögunnar getur maður kynnt sér alla sem eru á þeim miðli og það hafði ég svo sannarlega gert.

Ég er enn að vandræðast með skammtastærðir þegar ég panta mér mat hér í Texas og eins finnst mér pínu vandræðalegt þegar kemur að því að greiða reikninginn. Ég sá að Russel frændi minn var kominn með reikninginn í hendurnar og gerði sig líklegan til að borga. Ég hallaði mér að John og sagði: „Can I speak to you in confidence?“. „Sure“, sagði hann. Ég nefndi þá að ég væri ekki með pening en myndi greiða okkar hlut með korti. Hann fór að hlæja og sagði: „Well … this is Russel´s treat. Just enjoy …“. Þannig fór það.

Húsið hennar Ann frænku minnar er mjög skemmtilegt. Þangað var hersingin komin eftir góðan hádegismat. Húsið er allt öðru vísi en húsin í kring sem öll eru tveggja hæða með kjallara. Húsið hennar er langt og mjótt, lágreist og á einni hæð og í garðinum er lítil sundlaug. Ann er grafískur hönnuður, spilar á píanó og uppáhaldstónlistarmaður hennar er Joni Mitschell. Listaverkin í húsinu eru eftir hana sjálfa og hún er með vinnustofu heima. Ég giska á að hún sé gamall hippi. Ég á eftir að heyra meira í henni. Ann og maður hennar John eiga eina dóttur og tvö barnabörn.

Dagurinn leið hratt. Mikið var spjallað og gamlar ljósmyndir og skoðaðar. Mér voru gefnir gamlir eyrnarlokkar sem amma mín hafi átt eða „nanny“, eins og allir kalla hana. Áður en hópurinn kvaddist var skellt í eina myndatöku.

Sitjandi frá vinstri: Bryndís, kona Johns og Becky, kona Joels, Standandi: Áslaug Sóllilja, Ann Williams, John, kona Russels, Barb og Russels.

Á morgun er ferðinni heitið í Fort Worth´s StockYards. Hver veit nema þar fáist alvöru kúreka rússkinnsjakki, sem konuna hefur dreymt um frá því að hún kornung sá Crosby, Stills, Nash og Young hér um árið, í kvikmyndinni Woodstock.

Ég, Barb og John …

Texas – annar hluti.

Þeir tóku geltandi á móti okkur hundarnir hennar systur minnar enda hafa þeir líklega aldrei séð Íslendinga fyrr. Í sjónvarpsþáttum, þar sem fjallað er um fólk sem leitar uppruna síns má sjá miklar tilfinningar; menn og konur faðmast og gráta út í eitt. Það var ekki þannig hjá okkur systrum. Mér fannst það einhvern vegin eins og eðlilegasti hlutur í heimi að hitta Barb. Kannski vegna þess að við höfðum bæði séð og heyrt í hvor annarri á netinu undanfarna mánuði. Faðmlagið var hlýtt.

Hún býr í fallegu húsi ásamt tveimur hundum og einum ketti. Hún missti mann sinn árið 2013. Fylgifiskarnir mínir voru fljótir að komast upp á lag með hundana og köttinn. Hundarnir róuðust smátt og smátt, enda var þeim klappað í bak og fyrir. Við gátum spjallað saman í langa stund og skoðað gamlar ljósmyndir og Barb sagði okkur sögur.

Friðrik ásamt Barb.

Ég færði Barb lakkrís og súkkulaði og lét fylgja með söguna af milliríkjadeilu Dana og Íslendinga um lakkrísinn og súkkulaðið. Einnig gaf ég henni fingravettlinga og litla mynd.

Tvær skvísur og önnur ´íslensk.

Prjónaðir fingravettlingar eru kannski ekki alveg málið í Texas þar sem meðalhitinn yfir köldustu mánuði ársins er um 18°C!

Ég er ekki frá því að kötturinn hafi orðið eilítið órólegur yfir harðfiskinum því hann vildi ólmur komast í pokann minn, þrátt fyrir að fiskurinn væri farinn í frystinn.

Við ókum til Dallas daginn eftir og fórum á „The sixth floor Museum at Dealey Plaza (jfk.org)“. Við sem eldri erum munum mörg eftir því þegar John F. Kennedy var skotinn. Líklega með óhugnanlegri atburðum samtímans. Það var áhrifamikið að fara upp á sjöttu hæðina, þar sem talið er að skotmaðurinn hafi búið um sig og skoða allt sem þar var að sjá og heyra. Annars vakti það athygli okkar hversu fáir voru á ferli þennan föstudag í miðbæ Dallas og kannski bara eins gott því konan fékk í magann og þurfti að hraða sér heim á hótel.

Hér er talið að Oswald hafi skotið forsetann og látið skotvopnið hvíla á kössunum.

Ég hitti John Williams, bróður minn og konu hans, að kvöldi föstudags. Það urðu fagnaðarfundir. Það kom mér á óvart hversu hávaxinn hann er. John var flugmaður í flughernum og er enn að vinna við þjálfun flugmanna þrátt fyrir að vera kominn nokkuð yfir sjötugt. „I followed in my father´s footsteps“, sagði hann. Hann flaug meðal annars „Air force one (three)“, flugvél Bandaríkjaforseta um tíma, en það vita líklega fæstir að þær vélar eru að minnsta kosti þrjár og sú sem John flaug var ætluð forsetafrúnni og öðrum háttsettum embættismönnum á tímum Bush eldri.

John og Bryndís. Ekki laust við að konan sé orðin hálf þreytuleg.

Á sunnudag ætlum við að fara til Oklahoma; til borgar sem heitir Ardmore en þar ólst faðir minn upp og þar búa bróðurbörn hans. Við ætlum að hitta þau og heyra fleiri sögur. Ég hlakka til.

Texas … hér komum við!

Texas – fyrsti hluti

Það er meira en að segja það, fyrir flughrædda konu (svona í grunninn) að taka sér flugferð á hendur, alla leið til Texas, til að hitta nýfundin hálfsystkini sín … og það á sama deginum.

Í flugstöðinni í Keflavík hitti ég gamalkunnugt andlit. Þar var þá mættur Icavia starfsmaðurinn, sem tók svo vel utan um mig í mars þegar ég ætlaði að fljúga til Kanarí með Pl … ég get bara ekki sagt nafnið upphátt … en fékk ekki að fara um borð í vélina, af því að ég gleymdi vegabréfinu mínu fyrir norðan. Í mínum huga er hann starfsmaður ársins hjá Isavia. Ég þakkaðu honum aftur góðvildina, en gleymdi að spyrja hann um nafn. Ég á eftir að hitta hann aftur.

Í röðinni áður en við fórum í gegnum öryggisgæsluna sneri ég mér að Áslaugu minni og sagði henni að hliðið myndi ekki hleypa mér í gegn frekar en fyrri daginn. ,,Það er alltaf leitað á mér“, sagði ég. Hún trúði ekki orði af því sem ég sagði henni. Ljósin blikkuðu og hliðið ýlfraði um leið og ég gekk í gegn. Öryggisvörðurinn kallaði í konu og hún bað mig um að stíga upp á pall og rétta út hendurnar. ,,Snúðu þér við“, sagði hún, um leið og hún skannaði mig alla með leitartækinu. ,,Ég er með nokkra nagla í fætinum“, sagði ég. Hún skannaði fótinn. Fóturinn virtist ekki vera málið. ,,Ég held að þetta sé spöngin í brjóstahaldaranum“, sagði ég að lokum. Hún færði leitartækið ofar. Jú, það fór ekki á milli mála hver sökudólgurinn var. Ég vissi þetta reyndar.

Mæðgur vel gíraðar á leið til New York.

Flugið með Icelandair til New York gekk vel. Þau klikka sko ekki á þeim bænum. Flugfreyjurnar algjörlega með allt upp á tíu, bæði hvað varðar þjónustu, klæðnað og framkomu. Kannski gamaldags að nefna þetta en ég mátti til.

Aðflug inn til Kennedy flugvallar. Ströndin er falleg við New York.

Ég var vel undirbúin fyrir landamæravörðinn í USA enda margir búnir að gefa mér góð ráð. Til dæmis þá var mér sagt að passa upp á lyfin mín. Tollurinn í USA myndi kannski vilja sjá pakkninguna, svo það færi ekki á milli mála að lyfin eða blóðþrýstingstöflurnar mínar væru í alvörunni lyf og fyrir mig en ekki einhvern annan. Ég hafði því klippt í sundur lyfjaboxin og haldið þeim hluta, þar sem nafn mitt og lyfsins kemur fram  og límt lyfjaspjöldin sem ég þurfti á að halda við þá. Það var heilmikið föndur.

Ég var ekki spurð um nein lyf á landamærunum, en var aftur á móti beðin um að horfa í myndavélalinsu, sem var á bak við rispað gler. „I´m sorry“, sagði maðurinn, eftir smá stund. „I need to take another picture“. Kannski voru varirnar of fölar og krumpaðar en kannski var það bara rispaða glerið. En seinni myndatakan tókst vel að mati fulltrúa kerfisins.

Næst bað hann mig um að setja fjóra fingur hægri handar á einhvers konar plötu svo hann gæti skannað fingraförin. Svo vildi hann líka þumalinn. „No problem“, sagði ég og glotti til dóttur minnar, sem stóð á hliðarlínunni. „And now I want to ask you to place the four fingers of your left hand on the plate“? sagði hann. „I´m sorry”, sagði ég og mér fannst ég bara svolítið fyndin og fann til mín og ég hélt áfram: “I only have four and a half finger on my left hand”. Síðan skellti ég fingrunum á plötuna og það fór auðvitað ekkert á milli mála að fingurnir voru ekki alveg fjórir. Ég er ekki frá því að ég hafi séð smá brosviprur í augum hans áður en við kvöddumst. En auðvitað á maður ekki að grínast í svona alvarlegum aðstæðum.

Central Park í lok september.

Eftir að hafa farið inn í borgina og gengið um Central Park og miðborgina þá tók næsta flug við.

„This is because of my bra“, sagði ég vandræðalega við öryggisgæsluna í New York. Ég var búin að fara í ,,röntgenmyndatökuna“ og enn ýlfraði kerfið á mig. Ég var skönnuð hátt og lágt, eins og fyrri daginn en fékk svo að fara.

Öfugt við starfsfólk Icelandair þá var starfsfólk Blue Jets ekki í neinu „júniformi” eða ég gat ekki séð það. Tveir karlar og ein kona. Ég varð lítið vör við þau meðan á fluginu stóð. Flugþjónninn, sem tók á móti okkur þegar við gengum inn í vélina, hafði aðspurður sannfært okkur um að flugveður væri gott alla leið. Ég man ekki eftir að hafa lent í öðrum eins hristingi í langan tíma í flugi. „Stundum verður maður að sleppa takinu og treysta öðrum“, sagði sálfræðingur við mig eitt sinn, þegar ég ræddi við hann um flughræðsluna mína og það var akkúrat það sé ég gerði í fluginu frá New York til Fort Worth í Texas. Ég lagði traust mitt á góða flugmenn og trausta  flugvél.

Flugþjónnin afsakaði sig í bak og fyrir þegar við gengum úr vélinni og dóttir mín sagði brosandi við hann um leið og við kvöddum: „Yes, you lied to us about the flight conditions“. Hann vissi upp á sig skömmina:) Já, hún er hreinskilin stelpan, en samt alltaf kurteis.

Í dag er kominn nýr dagur og Texas bíður mín. Hér er sól og hiti og ævintýri dagsins framundan.

 

sama deginum.





Töfrar vísindanna …

Hann var flugmaður í flugher Bandaríkjanna og kom til Íslands árið 1954. Þegar hann þjónaði á Íslandi þá var hann þyrluflugstjóri í björgunarsveit bandaríska hersins (53rd Air Rescue Squadron) en sú sveit þjónaði einnig Íslendingum með því að bjarga sjómönnum í sjávarháska og öðrum sem þurftu á hjálp að halda á þeim tíma, eins og elstu menn muna.

Hann þjónaði í flughernum í 22 ár eða frá 1942 – 1964 og flaug meðal annars 35 ferðir á sprengjuvélum yfir Þýskaland í seinni heimsstyrjöldinni á B – 26 Marauder vélum, aðeins tvítugur að aldri. Eftir að hann hætti í flughernum flaug hann fyrir United Airlines í 20 ár, meðal annars á DC – 6, Boeing 737, Boeing 727 og DC – 10. Flugtímarnir hans urðu yfir tíu þúsund.

Ungir bræður. Frá vinstri: Jack og Bobby.
Flugmaður um borð í B – 26 Marauder vél sinni.

Umræddur maður var blóðfaðir minn; Bobby G . Williams. Það má segja að ég hafi leitað að honum í yfir 30 ár. Á sínum tíma gekk ég í samtök stríðsbarna og bað um hjálp við að finna hann. Sú aðstoð var gagnslaus. Ég átti góða frænku í Bandaríkjunum, sem reyndi að aðstoða mig en ekkert gekk. Ég átti sendibréf frá honum og eina ljósmynd til að styðjast við í leitinni.

Á síðustu árum hefur Google komið sterkt inn og eftir nokkra leit af og til fóru að safnast saman brot í eina heildarmynd.

Síðastliðið vor fann Bryndís Lilja, dóttir mín, tilkynningu um lát hans en hann lést árið 2007 og þar mátti finna nöfn forelda hans, bróður, konu hans og barna. Þegar þarna var komið sögu skynjuðum við að við vorum alveg að komast á leiðarenda í leitinni að uppruna mínum. Við fundum ættingja á Facebook og Instagram en ekki þá allra nánustu.

Í ágúst fékk dóttir mín, Áslaug Sóllilja, þá brilljant hugmynd að fara í DNA próf úti í Kanada þar sem hún býr. ,,Ég hrækti í túpu“, eins og hún sagði sjálf frá og niðurstöður úr prófinu komu mánudaginn 27. september. Niðurstöður sýndu meðal annars að Áslaug átti náskylda frænku í Bandaríkjunum (1st – 2nd cousin) sem heitir Barbara og viti menn; hún reyndist vera hálfsystir mín. Áslaug skrifaði henni tölvupóst og það kom svar nánast um hæl. Daginn eftir var ég í þó nokkurri geðshræringu og það féllu nokkur tár. Það stóða allt heima, Barbara vissi að hún ætti hálfsystur ´á Íslandi og tók tíðindunum fagnandi.

Til að gera langa sögu stutta þá erum við systur nú komnar í ágætis samband á netinu og vonandi er ferð til Bandaríkjanna næsta stóra ferðalag sem ég, fyrrum flughrædda konan, fer í til að kynnast nýjum systkinum mínum betur.

Það er svo merkilegt að þrátt fyrir dásamlega foreldra á Íslandi; bestu systkini sem hægt er að hugsa sér, þá var alltaf einhver lítið hola í hjartanu sem maður verður að fylla upp í. Það er svo gott að finna hvaðan maður kemur og hverjum maður er líkur.

Nú voru það máttur og töfrar vísindanna sem komu mér til hjálpar. Ég vildi bara að þessi leit hefði borið árangur fyrr … miklu fyrr.

Amen á eftir efninu …