Hver er að stinga upp á mér …

,,Ég er nú ekki nein listakona“ , svaraði ég hálf vandræðaleg á svipinn, þegar góð vinkona úr alþjóðasamtökunum Delta Kappa Gamma, spurði mig, hvort ég væri ekki til í að vera listamaður mánaðarins hjá Evrópudeild samtakanna. Delta Kappa Gamma eru aljóðasamtök kvenna í fræðslustörfum.

,,Hver er að stinga upp á mér“, bætti ég við hissa. ,,Það eru konur fyrir sunnan, sem gerðu það“, svaraði vinkonan. Ég var fljót að finna nafn á listakonu sem ég þekkti vel til innan samtakanna, sem mér fannst miklu verðugri fyrir viðtalið; alvöru listakonu. Vinkonan gaf sig ekki og sagði að stungið hefði verið upp á mér.

Fyrir sunnan, eru sem sagt konur sem þekkja til mín og vita hvað ég hef verið að bralla með litina svona á bak við tjöldin.

Það þurfti bæði að tala mig til og sannfæra mig um að ég væri verðug fyrir verkefnið. Á endanum sló ég til. Nú er komið út stutt viðtal við konuna ásamt sýnishorni af nokkrum myndum.

… og er það ekki skondið að alþjóðasamtökin Delta Kappa Gamma eru stofnuð í Austin í Bandaríkjunum og hvar er Austin? Í Texas, auðvitað! Heimfylkinu sjálfu sem ég heimsótti í september síðstliðinn. Svona getur nú lífið verið skemmtilegt.

Sjá nánar á: http://www.dkgeurope.org/bryndis-thrainsdottir.html?fbclid=IwAR34bK2my7dCNX6D3wQbKmqcGK6gxOoEbnf_JLgQrHhyQMmJlJz-W1z_G0w

… og áfram heldur Covid

Covid – 19 heldur áfram að veikja fólk, bæði hér heima á Íslandi og erlendis. Fjölskyldur ná ekki að hittast og það er erfitt. Maður vonar að allir fari varlega og reyni að forðast smit, bæði til að létta á heilbrigðiskerfinu okkar og eins til að vernda sjálfan sig og sína nánustu.

Mér finnst gott að hafa eitthvað fyrir stafni á þessum tímum og helst eitthvað sem mér finnst skipta máli. Eitt er, að dunda sér við að teikna og mála. Það gerir mér gott. Um leið og ég teikna er gott að hlusta á góða tónlist og hugsa til þeirra sem maður elskar en fær ekki að hitta þessi misserin þar sem þeir búa í öðrum löndum. ÉG hlakka mikið til þegar við fjölskyldan verðum öll saman á ný.

Gul mistök …

Stundum geta mistök  snúist upp í andhverfu sína og orðið eitthvað sérstakt og fallegt. Það er í lagi að gera mistök. Mistök eru til að læra af þeim. Akkúrat þetta hugsaði ég, fyrr í vor, þegar ég æfði mig í að gera nokkrar grafít myndir á eldhúsborðinu mínu. Myndirnar voru verkefni á námskeiðinu Sjónlistir á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Ég reyndi tvær aðferðir; skar út myndir í dúk og handþrykkti myndirnar á pappír og eins þá málaði ég á plexílgler og þrykkti á pappír. Ég hafði ekki aðgang að grafíkpressu á mínum heimaslóðum og því þurfti ég að nota hendurnar til að þrykkja myndirnar á pappírinn, allt eftir kúnstarinnar reglum.

Ein tilraunin var þannig að ég rúllaði gulan akríllit á plexílglerið. Síðan málaði ég lauslega með svartri málningu útlínur af íslenskri konu á gula litinn. Ég lagði rakan pappírinn yfir glerið. Setti því næst dagblað  ofan á pappírinn og þrýsti þéttingsfast með fingrunum og lófanum yfir. Ég tók síðan dagblaðið varlega af pappírnum og pappírinn af glerinu. Bingó! Hér var komin mynd. Hún hefði mátt þrykkjast betur á pappírinn en það er önnur saga.

Í fyrstu fannst mér lítið varið í myndina og var jafnvel að hugsa um að farga henni en ég ákvað að geyma hana. Til að gera langa sögu stutta þá finnst mér myndin flott og fleiri hafa tekið undir það. Myndin minnir mig á listamanninn Banksy  og eins minnir hún mig á auglýsingu sem ég sá einhvern tímann fyrir sýninguna Vesalingana en þrátt fyrir mikla leit hef ég ekki fundið þessa auglýsingu.

En aftur að myndinni. Það sem ég taldi vera mistök er ekki svo slæmt eftir allt saman:)

20200415_171757

Mósaík

Mér finnst gaman að búa til mósaíkmyndir. Ég skil reyndar ekki alveg þessa áráttu því það tekur langan tíma að gera eina mynd. Það væri mun fljótlegar að mála myndina með pensli.

Fyrst teikna ég myndina á striga eða pappír. Síðan lita ég pappír og klippi hann niður í litla ferninga sem eru um það bil 1 x 1 cm eða rúmlega það; fer eftir stærð myndarinnar. Ég lími síðan litlu bútana á myndina og nota til þess veggfóðurslím. Þegar allir pappírsbútarnir eru komnir á sinn stað laga ég myndina til. Ég nota krít og er því mikið með ,,puttana“ í myndinni.

Það er eitthvað sem róar hugann minn þegar ég vinn svona myndir. Kannski er það nostrið við hverja einustu ,,flís“, um leið og ég kem henni fyrir á sínum stað eða kannski er ástæðan sú að ég get hugsað og pælt mikið á meðan á vinnunni stendur og þá sérstaklega um þann sem er fyrirmynd hverju sinni.

Nýjasta myndin mín er teiknuð eftir ljósmynd  af Þráni Svan, syni mínum. Myndin er aðeins færð í stílinn en það er smá svipur.