,,Ég er nú ekki nein listakona“ , svaraði ég hálf vandræðaleg á svipinn, þegar góð vinkona úr alþjóðasamtökunum Delta Kappa Gamma, spurði mig, hvort ég væri ekki til í að vera listamaður mánaðarins hjá Evrópudeild samtakanna. Delta Kappa Gamma eru aljóðasamtök kvenna í fræðslustörfum.
,,Hver er að stinga upp á mér“, bætti ég við hissa. ,,Það eru konur fyrir sunnan, sem gerðu það“, svaraði vinkonan. Ég var fljót að finna nafn á listakonu sem ég þekkti vel til innan samtakanna, sem mér fannst miklu verðugri fyrir viðtalið; alvöru listakonu. Vinkonan gaf sig ekki og sagði að stungið hefði verið upp á mér.
Fyrir sunnan, eru sem sagt konur sem þekkja til mín og vita hvað ég hef verið að bralla með litina svona á bak við tjöldin.
Það þurfti bæði að tala mig til og sannfæra mig um að ég væri verðug fyrir verkefnið. Á endanum sló ég til. Nú er komið út stutt viðtal við konuna ásamt sýnishorni af nokkrum myndum.
… og er það ekki skondið að alþjóðasamtökin Delta Kappa Gamma eru stofnuð í Austin í Bandaríkjunum og hvar er Austin? Í Texas, auðvitað! Heimfylkinu sjálfu sem ég heimsótti í september síðstliðinn. Svona getur nú lífið verið skemmtilegt.





