Klukkan 00:01 kom í heiminn lítil stúlka …

Ég á hef sögu að segja. Góða og fallega sögu. Sagan hefst þannig að ungur flugmaður í flugher Bandaríkjanna, staðsettur á Íslandi, er í ástarsambandi við íslenska konu, Sigríði Þóru Þorvaldsdóttur, frá Blönduósi, sem starfaði á símanum suður á Keflavíkurflugvelli. Barn verður til og áður en barnið fæðist er ungi flugmaðurinn kallaður til annarra starfa í heimalandinu og hann kemur ekki aftur til Íslands. Það var mikið áfall fyrir móðurina á þeim tíma.

Um miðnætti þann 10. janúar árið 1956 kemur lítil stúlka í heiminn. Klukkunum í fæðingarstofunni ber ekki saman um það hvorum megin við miðnættið barnið fæðist. Móðurinni er boðið að velja hvort hún vilji að barnið eigi afmæli þann 9. janúar eða þann 10. og hún velur seinni daginn. Henni finnst talan 10 fallegri. Fæðingin er því skráð klukkan 0:01 þann 10. janúar árið 1956.

Til að gera langa sögu stutta þá hefur móðirin ekki tök á því að sjá um litla barnið sitt og það verður að samkomulagi að bróðir hennar, Þráinn Þorvaldsson og konan hans, Soffía Margrét Þorgrímsdóttir, taka barnið í fóstur. Þannig verður litla Bryndís þeirra fyrsta barn. Sagan er lengri og verður sögð síðar en svona hófst hún. Hér má sjá nokkrar ljósmyndir af ,,persónum og leikendum“ fyrstu mánuðina í lífi litlu dömunnar, Bryndísar Kristínar Williams Þráinsdóttur.

Í dag eru tímamót. Þá er gott að hugsa til baka en líka fram á við. Ég er þakklát Sísu fyrir að gefa mér lífið og mömmu og pabba fyrir ljósið, uppeldið og væntumþykjuna. TAKK.

Sigríður Þóra Þorvaldsdóttir, frá Blönduósi með dóttur sína og Bobby G. Williams, Bryndísi Kristínu. Bryndís er skírð í höfuðið á langafa sínum Brynjólfi og konu hans, Kristínar.
Bobby G. Williams.
Flugstjórinn, Bobby.
Bryndís Kristín nokkurra mánaða gömul.
Bryndís Kristín.
Sísa mamma með Bryndísi litla.
Brúðkaupsmynd af mömmu Soffíu og Þráni pabba. Þau giftu sig 7. júlí 1956.
Mamma, Soffía og Bryndís.
Mamma og Bryndís.
Pabbi, Þráinn Þorvaldsson, með dóttur sína sem hann tók í fóstur eftir mitt ár 1956.
Pabbi og Bryndís.
Löööngu síðar. Fjölskylda mín. Einar Svan og Guðný, kona hans. Áslaug Sóllilja, Bryndís Lilja, frúin sjálf, Óli maður Bryndísar, Gísli Svan og Þráinn Svan. Myndin er tekin í erfidrykkju pabba. Á myndina vantar Friðrik, kærasta Áslaugar og barnabörnin fjögur.

Jólakveðjur … þegar nútíminn ákvað að stela kveðjunum

Ég hef á hverju ári í mörg, mörg ár sent jólakort til ættingja og vina minna. Ég hef sjálf hannað kortin og teiknað forsíðumynd og síðan fylgir texti og ljósmyndir af fjölskyldunni með. Svona eins konar fréttaannáll í mjög stuttu máli og ég er alltaf á síðustu stundu með kortin.

Mér hefur alltaf þótt skemmtilegt að fá jólakveðjur í umslagi frá ættingjum og vinum, en nú er það að verða búið spil. Það nenna fæstir að senda jólakort og láta duga að senda kveðjur, til dæmis á Facebook. Ég sakna mjög þeirra stunda þegar ég settist niður, seint á aðfangadagskvöld, til að lesa jólakortin. Ég þrjóskast við og sendi enn kort á mína nánustu og jafnvel skreyti umslögin líka svona eins og til að mótmæla þessari þróun.

Góð vinkona mín, sem hefur mikla trú á mér, hefur rammað inn margar af þessum myndum og hengt upp á vegg. Ég get ekki annað en verið þakklát henni fyrir það. Hún er þá svona ákveðinn kynningarfulltrúi fyrir mig og mínar myndir.

2025

2024

2023.

Fleiri sýnishorn

Það er mjög líklegt að ég þráist við næstu árin og sendi áfram jólakort að gömlum og góðum sið. En ég er líka pínu skrýtin kona.

,,Ertu maður eða vél?“ Ferðin sem aldrei var farin

„Ertu maður eða vél?“, spurði konan viðmælandann á spjallinu hjá flugfélaginu Play í gærmorgun. Hún hafði spjallað við vélmenni í smá stund sem á endanum gaf henni samband við þjónustufulltrúa. „Ég er manneskja“, svaraði hann.

Konan var niðurbrotin eftir að hafa uppgötvað, fjórum tímum fyrir flug til Gran Canaria, að vegabréfið hennar hafði orðið eftir heima. Þetta hafði aldrei komið fyrir hana áður. „Hefur þú ekki tíma til að láta einhvern skutla því til þín?“, spurði elskulegur starfsmaður Isavia. Það gafst enginn tími til að skjótast eitt eða neitt enda um 340 km heim og veður og færð eins og menn þekkja á Suðvesturhorninu þessa dagana. Hún var heppin að ferðafélagi hennar var yngri sonur hennar en sá eldri var á sama tíma á leiðinni til Gran Canaría frá Danmörku, þar sem hann býr, ásamt börnunum sínum þremur. Þrátt fyrir góða hjálp starfsmanns Isavia, þá var ekki nokkur sjéns að fá enskumælandi starfsmenn flugfélagsins Play til að reyna að aðstoða konuna eða koma með einhverjar hugmyndir að lausn. Hún gæti ekki flogið með félaginu nema hafa sjálft vegabréfið, þetta bláa. Konan hafði þó verið fyrirhyggjusöm og skannað vegabréfið þannig að hún gat framvísað því, bæði í símanum, tölvunni og í útprentun á pappír. Það var ekki tekið gilt.

Auðvitað var þetta konunni sjálfri að kenna og það vissi hún vel. Á opinberum vefsíðum segir þó að ekki þurfi að sýna vegabréf við landamæri innan Schengen svæðisins þótt auðvitað sé mælt með því að fólk hafi vegabréf meðferðis og sé reyndar skilt að vera með persónuskilríkí. Flugfélög geta þó sett sínar eigin reglur og reglur flugfélagsins Play eru þær að enginn fer um borð nema hann framvísi gildu vegabréfi.

Konan gerði allt sem hún gat. Hún leitaði í örvæntingu að einhverri þjónustu á vellinum en það var allt lokað. Hún hringdi í lögregluna. Þeir opna klukkan 10:00. Hún hringdi í síma sýslumannsins. Hann opnar klukkan 08:30. Hún skrifaði Play tölvuóst, því ekki er boðið upp á neyðarsíma. Sá sem svaraði erindinu skrifaði á ensku og sagðist ekki alveg skilja erindið.

Til að gera langa og ömurlega sögu stutta þá samþykkti sonurinn með miklum semingi á endanum að fara í ferðina og skilja konuna, mömmu sína, eftir.

Hún gekk því buguð út úr flugstöðinni og fannst hún niðulægð; dró á eftir sér fulla ferðatösku af sumarfötum, litum, blöðum, bókum og smá nammi sem hún hafði ætlað barnabörnunum.

Þessi óheppna kona er auðvitað ég sjálf. Ég hef á síðasta sólarhring gengið í gegnum allan tilfinningaskalann; áfall, reiði og sorg og þær fylgdu mér alla leiðina norður í Skagafjörð.

Já, ertu maður eða vél? Er von að spurt sé. Flugfélagið Play býður eingöngu upp á rafræn samskipti við sína viðskiptavini. Það var ítrekað þegar ég vildi fara á staðinn til að ræða málin. „Við erum ekki með móttöku“, var svarið á spjallinu.

Að lokum þetta. Ég legg til að á flugvellinum starfi eins konar umboðsmaður farþega. Einhver sem hefur yfirsýn yfir starfsemina og getur aðstoðað fólk af einhverri alvöru þegar það lendir í sömu aðstæðum og ég gerði. Sú manneskja hefði klárlega sparað mér örvæntinguna og tárin í gær.

Synirnir og barnabörnin hafa það annars gott í sólinni á Kanarí …

Ömmuskóli …

Við upplifum skrýtna tíma þessi misserin. Rútínan er einföld og fábreytt. Dagurinn hefst snemma á SÆT prógramminu mínu, en það má þýða sem: sund, æfingar og teygjur. Síðan tekur vinnan við. Að loknum vinnudegi skýst ég kannski í búðina, vel varin með grímu og hanska og þá má nánast segja að dagurinn sé búinn.

Fyrir nokkrum dögum spurði sonur minn í Danmörku mig að því, hvort ég gæti hitt ömmustelpuna mína nokkra morgna í viku, þar sem skólinn hennar er lokaður vegna Covid. Mamman starfar sem læknir og pabbinn vinnur heima þessar vikurnar, en þarf að byrja hvern dag á fundum. ,,Ekki málið“, sagði ég spennt. ,,Við köllum þetta ömmuskóla“, sagði sonurinn.

Hvað gerum við svo í þessum ömmuskóla í gegnum tölvuna? Jú, ég hef hjálpað henni smá með heimaverkefnin. Við teiknum saman og litum. Hún klippir og límir, býr til bækur og segir mér sögur. Hún teiknaði af mér mynd í fyrsta tímanum okkar.

Amma Bryndís

Um daginn minnti ég hana á að hún mætti alveg standa aðeins upp frá borðinu og gera æfingar. Fyrr en varði var hún komin með spjaldtölvuna á stofugólfið og komin á fullt í æfingar. ,,Amma, leggstu niður á bakið og svo lyftir þú bakinu upp og býrð til svona brú“. Síðan var hún komin nánast í splitt. ,,Þú setur bara fótinn svona og teygir þig svona til hægri og …“. Ég sat enn á stólnum, vandræðaleg og þóttist gera æfingar og það kom ekki að sök.

Stundum kennir hún mér að segja eitthvað á dönsku og leiðréttir þá framburðinn minn. Ég bað hana um að kenna mér að kaupa miða í flugvélina sem ætlaði að fljúga með mig til Danmerkur og segja það á dönsku. Eftir smá umhugsun sagði hún: ,,Amma, það tala allir íslensku í flugvélinni, þú þarft ekki að segja það á dönsku“. Á endanum féllst hún á að kenna mér að kaupa miða í lestina og að sækja bræður sína á leiskólann. ,,God morgen, jeg … „.

Ég les fyrir hana um það bil eina bók á dag. Tæknin þvælist lítið fyrir okkur. Þegar ég les sögu þá er ég búin að taka ljósmyndir af myndunum í bókinni og síðan deili ég þeim jafnóðum og ég les, en þetta er bara gert fyrir okkur tvær.

Ljósmynd úr bókinni Gilitrutt en ljósmyndir bókarinnar eru eftir Brian Pilkington.

Í morgun sat ég uppi í herbergi og las fyrir hana söguna af Gilitrutt. Brian Pilkington teiknaði myndirnar í þá bók. Á einum tímapunkti verður mér litið á gluggann og sé þá spegilmynd mína. Ég var orðin heldur ófrýnileg í framan, baðandi út öllum öngum, algjörlega búin að missa mig í túlkuninni á persónum og leikendum sögunnar. ,,Ja, hérna hér“, hugsaði ég. Hvað er ég eiginlega að hugsa. Þetta er auðvitað málið. Streitulosun af bestu gerð. Að lesa fyrir barnabarnið og komast í flæði við að teikna og föndra í gegnum netið er að bjarga Covid heilsunni minni. Hvílík heilun og heppin ég.

Horft í suðurátt, út um gluggan í Suðurgötu 8. Dagrenning.

Og heilarinn minn, hún Ella, hún er bara sex ára snillingur.

Afmæliskveðja – 24. janúar 2017

Hún gaf mér lífið en ákvað þegar ég var nokkurra mánaða að eftirláta Þráni bróður sínum og konu hans, Soffíu,  uppeldið á stelpunni. Foreldrar mínir voru á þessum tíma nýgift og barnlaus og höfðu litið eftir mér á meðan hún var að vinna sem símastúlka suður í Keflavík. Á einhverjum tímapunkti var ákveðið að ég yrði hjá þeim til frambúðar. ,,Ég vildi frekar gráta ein“, sagði hún mér seinna ,,frekar en að horfa upp á þau tvö gráta“. Þannig æxlaðist það að ég varð elsta barn foreldra minna.

sisa-1
Sísa í kringum tvítugt.

Það var aldrei neitt leyndarmál að ég ætti aðra mömmu og meira að segja amerískan föður enda góður samgangur á milli pabba og Sísu mömmu. Það truflaði mig ekki í uppeldinu, enda átti ég góða foreldra og systkini og hafði nóg fyrir stafni. Ég man eftir einu atviki þar sem ég er í kringum átta ára aldurinn og var að hjálpa mömmu að leggja á borð og áttaði mig á því að ég ætti engin alsystkini. Það fannst mér alveg hræðilegt. Mömmu fannst ég gera úlfalda úr mýflugu, nokkur tár féllu og svo var það búið í það skiptið.

rettur-william
Captain Williams, blóðfaðir minn.

Þegar ég var orðin unglingur bærðust alls konar tilfinningar innra með mér, svona eins og gengur og gerist hjá unglingum. Sísa vildi alltaf allt fyrir mig gera en ég tók þann pól í hæðina að halda henni í ákveðnni fjarlægð. Ég vildi lengi ekki leyfa henni að vera góðri við mig. Ég hef alltaf séð eftir því.

227263_1706402496086_1118747683_31390696_3836188_n1
Myndin er tekin á Hólavallagötunni. Það eru jól og Sisa mamma í heimsókn.

Ég kynntist Sísu ekki af neinu viti  fyrr en eftir að hún bauð mér vinnu hjá sér sumarið 1978. Ég stundaði nám í Kennaraháskólanum. Hún var þá búin að vera ráðskona á sumrin í veiðihúsinu við Hítará, frá sumrinu 1966. Ég sló til enda launin ágæt. Þarna kynntist ég henni fyrst almennilega og hún mér. Við unnum vel saman og mér leið vel með henni þessi þrjú sumur sem við áttum saman við Hítará. Þegar við áttum frí þá unnum við handavinnu; prjónuðum og saumuðum út eins og enginn væri morgundagurinn og ég held að við höfum hlustað á allar framhaldssögur sem Rás 1 bauð upp á þessi sumur.

Hún hafði stóran og hlýjan faðm og það var gott að fá hjá henni faðmlag. Það var ,,alvöru“ eins og sagt er. Hún eldaði besta mat í heimi og var höfðingi heim að sækja. Hún og Friðrik, maður hennar, útbjuggu matarveislur fyrir fermingar í mörg ár. Mér fannst ,,köldu borðin“ þeirra alltaf alveg æði. Hún var listakona í höndunum og fyrir utan að prjóna, saumaði hún út af miklu kappi alla tíð.

img_0012
Amma í heimasókn. Áslaug Sóllilja og Bryndís Lílja. Lílega sumarið 1994.

Sísa hafði ekki góða heilsu í gegnum tíðina. Sem ung kona þjáðist hún af höfuðverkjum og var greind með mígreni. Henni bauðst að fara til Danmerkur í aðgerð sem átti að hjálpa til. Hún átti ekki peninga fyrir ferðinni sem átti að kosta 3 þúsund krónur, sem var mikið á þeim tíma. Þráinn, pabbi, bróðir hennar, átti sparifé sem hann lánaði systur sinni. Hún sigldi því með Gullfossi til Danmerkur og fékk einhver bóta meina sinna. Síðar plagaði gigt hana og það setti mark sitt á hennar daglega líf í gegnum tíðina.

img_0014
Myndin er tekin fyrir utan Bifröst á Sauðárkróki. Tilefnið er jarðarför ömmu Ragnheiðar.

Hún eignaðist fimm börn; Óðinn Má Jónson, sem er fæddur 1946, Bryndísi Krístínu fædda 1956, Eirík Valdimar Friðriksson sem fæddur er 1958, Sigríði Súsönnu Friðriksdóttur sem fædd er 1959 og Þorvald Björn sem fæddist 1966 og dó sama ár. Hún giftist Friðriki Eiríkssyni, bryta.

img_0003
Efsta röð: Hildur Þóra, Eiríkur, Óðinn með Róbert Rafn og Svava Rut. Miðröð: Súsanna, Sísa með Áslaugu Sóllilju, Bryndís með nöfnu sína. Nesta röð: Kristín Lilja, Ragnheiður, Þráinn Svan og Einar Svan.

Sísa lést 9. apríl 2001. Hér má lesa viðtal við Sísu í Morgunblaðinu frá því í mars 2001 og eftirmæli um hana í Morgunblaðinu eftir að hún lést.

Til hamingju með afmælið, elsku Sísa móðir mín.

Aukakíló…

Mig langar að deila reynslusögu. Ég hef barist við aukakílóin mín í 25 ár. Ég á fjögur börn og það má alveg segja að með hverju barni bættust á mig 12,5 kg. Auðvitað er ekki rétt að setja þetta svona fram, en stundum hef ég orðað þetta svona og hálf skammast mín fyrir það. Það er að sjálfsögðu ekki hægt að kenna börnum sínum um offituna.

Ég hef þróað með mér mikla sykurfíkn í gegnum árin. Í mörg ár var ég kókfýkill. Mér tókst fyrir rúmum fimm árum að losa mig við kókið en ég var fljót að fara yfir í Egils appelsín í staðinn og ekki er það skrárri drykkur þegar horft er til sykurinnihalds. Ég náði ekki að fara á neina matarkúra af alvöru. Þeir henta mér illa. Sennilega er það agaleysið sem gerir það að verkum. Ég veit ekki hversu oft ég hef sagt við sjálfa mig: ,,Æi, ég byrja bara á mánudaginn“. Svo rennur mánudagurinn upp og ég fresta nammibindindi um eina viku og svo koll af kolli.

Síðastliðið vor ákvað ég ásamt fleirum á vinnustað mínum að prófa að fara í 30 daga matarkúr og borða eingöngu  ,,hreint fæði“. Við völdum að prófa ,,Whole 30″ prógrammið. Í stórum dráttum gengur þessi kúr út á það að borða hreint fæði, það er að segja að borða engan unnin mat. Elda allt frá grunni. Það má borða fisk, kjöt og grænmeti. Sleppa öllu hveiti (brauði) og mjólkurvörum og borða þrjár staðgóðar máltíðir á dag. Þetta er mjög einföld lýsing á hugmyndafræði ,,Whole 30″ og mataræðinu.

Við ákváðum að undirbúa okkur vel og vandlega. Ég til að mynda keypti mér bókina ,,It starts with food“ eftir Dallas Hartwig og Melissu Hartwig. Einnig keypti ég mér uppskriftabók og hafði aðgang að annari til. Við ákváðum að láta sumarið líða og byrja í lok september. Til að gera langa sögu stutta þá kláraði ég kúrinn með stæl. Það reyndist létt verk. Að 30 dögum liðnum ákvað ég að halda áfram með þessa hugmyndafræði að mestu leyti. Ég leyfi mér þó að smakka osta en sækist ekki sérstaklega í mjólkurvörur eða brauðmeti.

Reynsla og lærdómur:

  • Á þriðja og fjórða degi varð ég veik. Ég hafði enga orku, var með svima, ógleði og verki og átti erfitt með að sinna vinnunni minni. Þarna held ég að líkami minn hafi hreinlega verið að mótmæla kröftuglega sykurleysinu. Ég gaf mig ekki og hafði betur.
  • Á fimmta degi ákvað ég að hætta að styðjast við matreiðslubókina. Hún var of flókin fyrir mig og gerði það að verkum að ég varð bara stressuð. Ég ákvað að gera þetta einfalt. Ef ég hafði fisk þá eldaði ég hann á pönnu eða í ofni og hafði mikið af góðu grænmeti með. Stundum ofnsteikti ég grænmetið, stundum svissaði ég það á pönnu. Það sama átti við um kjötið. Ég valdi að nota salt og pipar, góða olíu, enga sósu og ,,veskú“, maturinn var dásamlegur.
  • Orkan ókst dag frá degi. Ég fann það svo vel á morgnana þegar ég synti minn kílómeter að áður óþekkt orka gerði vart við sig.
  • Ég var aldrei svöng. Þrjár staðgóðar máltíðir hentuðu mér vel.
  • Verkir og óþægindi sem tengdust meltingunni og voru búnir að vera vandamál í mörg ár hurfu og hafa ekki komið aftur.
  • Ég tók alltaf nesti með í vinnuna; bæði máltíð eitt (morgunmatur) og máltíð tvö (hádegismatur).
  • Grænmetisneysla jókst um mörg hundruð prósent. Bragðskyn breyttist og grænmeti fór að smakkast vel.
  • Ég fann á fötunum mínum að kílóin fóru að renna af mér og eftir einn og hálfan mánuð eru 9 kg farin. Ég er ánægð með það.
  • Bjúgur á öklum er nánast horfinn.
  • Svo er það rúsínan í pylsuendanum. Blóðrannsókn sýnir að sykurstuðullinn hefur lækkað vel.

Með öðrum orðum. Mataræði skiptir öllu máli fyrir mig. Að borða einfaldan og hollan mat reglulega með grænmeti og sleppa öllu sælgæti og gosi hentar mér vel.

Meira um þetta ævintýri seinna og þá kannski þori ég að nefna tölur og setja inn myndirbryndiskth.

 

 

 

Turkish blátt … er það ekki málið?

Undanfarið hef ég verið að prjóna fingravettlinga í bláum lit. Mynstrið verður til jafnóðum. Nú hef ég komist að því að það er sennilega ekki sniðugt að prjóna svona af fingrum fram. Nýtt mynstur er því á teikniborðinu og það verður spennandi að sjá hvernig það kemur út.

 

 

Mamma 60 ára

Innilega til hamingju með daginn þinn elsku besta mamma mín. Njóttu dagsins í botn! Haltu áfram að vera dugleg, rækta hæfileika þína, hugsa jákvætt og síðast en ekki síst að setja sjálfa þig í fyrsta sætið. Kominn tími til.

Ég vona að þú eigir yndislegan dag. Hlakka til að sjá þig í sumar, vonandi fyrr. Kveðja frá Vancouver!

Ástarkveðja, þín dóttir, Áslaug Sóllilja.

10313429_10153076406008469_2475766941498688176_n