Bissnesskona eða ekki, þar liggur efinn …

Ég hefði aldrei getað orðið bissnesskona. Það er eitthvað í mínum innsta kjarna sem leyfir það ekki að ég selji eitthvað; komi mér eða því sem ég er að gera eða stend fyrir á framfæri. Líklega kallast þetta feimni á góðri íslensku en hugsanlega tengist þetta líka einhverju öðru djúpt í sálartetrinu.

Ég skellti mér í klippingu um miðjan nóvember og þá bauð hárgreiðslumeistarinn minn, hún Erna, mér að koma með nokkur vettlingapör og selja hjá sér fyrir jólin. Eftir stutta umhugsun ákvað ég að slá til enda nóg til í skápnum hjá mér. Vettlingarnir hafa vakið nokkra athygli og þeir seljast bara vel mér til mikillar ánægju og kannski undrunar. Hvaða litur skildi nú vera vinsælastur? Því er fljótsvarað. Bleikir; spurt er um bleika vettlinga.

Ég hef styrkst í þeirri trú að það sem ég er að prjóna er ekki svo galið eftir allt saman. Mér telst til að ég sé búin að prjóna hátt í 200 vettlingapör og ég er ekki enn komin með leið á verkefninu. Ég prjóna úr alls konar garni eins og Kambgarninu og Fjallalopanum (hann stingur) en prjóna mest úr norskri ull. Ekkert gervigarn. Nú er ég að hanna 2026 vettlingana og það eru ótal hugmyndir í kollinum. Var ég að tala um bissnesskonu eða?

Á ég að leyfa þeim að taka flugið?

Ég setti mér það markmið í júlílok árið 2021 að prjóna eitt par af fingravettlingum á viku í eitt ár. Nú eru liðin tæp tvö ár og verkefnið er enn svo skemmtilegt að ég held áfram að prjóna og prjóna og er löngu búin að ná markmiðinu.

Nú er komið að því að ég ákveði hvort ég fari með verkefnið lengra og bjóði vettlingana til sölu. Það er hins vegar ákveðinn höfuðverkur því ég þarf auðvitað að ákveða verð á hvert par. Ég er alla vega búin að ákveða eitt og það er að þeir verða heldur í dýrari kantinu, ef ég mætti orða það sem svo. Alla vega munu þeir kosta meira en þessir fjöldaframleiddu sem fást í vegasjoppunum. Vettlingarnir eru mín hönnun og prjónaðir úr úrvals ull sem á ættir að rekja til Noregs. Þannig að ég nostra vel við hvert par.

Til Noregs spyr kannski einhver. Hvers vegna ekki að nota íslenska ull? Það er löng saga að segja frá því. Ég notaði lengi íslenska Kambgarnið en þegar nánar er skoðað þá er Kambgarnið ekki unnið úr íslenskri ull og það vill hnökra (það gerir nú reyndar öll ull). Íslenskan lopa er erfitt að nota í fingravettlinga, en ég er þó núna að gera tilraun með að prjóna vettlinga úr skagfirskri ull sem kemur beint frá bónda. Það kemur í ljós hvernig þeir verða en það er spennandi að geta sagt nákvæmlega af hvaða kindum ullin kemur sem vettlingarnir eru prjónaðir úr. Ég bíð sjálf spennt eftir niðurstöðunni og að sjálfsögðu þá verða þessir vettlingar eingöngu í sauðalitunum þar sem það er náttúrulegur litur kindanna hennar Sigrúnar frá Stórhóli í Skagafirði.

Vettlingar prjónaðir úr íslenskri ull af kindim frá Stórhól í Skiagafirði.

En aftur að nútíðinni. Eru grænir tónar málið eða bleikir; kannski rauðir og gráir, nú eða bláir? Á ég kannski að halda áfram með skagfirsku ullina? Er rétti tíminn kominn til að leyfa vettlingunum að taka flugið?

Handóður prjónari …

Það er stundum skrýtið hvernig maður getur ánetjast einhverju, einhverju sem manni finnst skemmtilegt, áhugavert og uppbyggjandi. Í júli síðastliðinn ákvað ég að taka aftur upp prjónana og prjóna fingravettlinga. Ég hef fylgt gamalli uppskrift í gegnum tíðina, breytt henni nokkuð og gert hana að minni. Í sumar ákvað ég að skrifa uppskriftina niður fyrir ýmsar útfærslur, til dæmis vettlinga á börn, netta kvenvettlinga og svo framvegis. Ég ákvað líka að að prjóna eitt vettlingapar í viku ásamt því að mála eina mynd, en það er önnur saga..

Vettlingar á barnabörnin. Það vildu allir fá vettlinga, líka Anton Gísli sem er nú bara tveggja og hálfs.

Í dag, í lok september, held ég mig enn við markmiðin mín og gott betur því að á ellefu vikum hef ég prjónað 17 pör og það er engan bilbug á mér að finna.

Hér er ég aðeins að færa mig varlega í skærari liti.

Nú hef ég fundið nýtt vettlingaverkefni, sem er reyndar ekki nýtt og það er að prjóna vettlinga í einum lit og sauma svo á handarbakið mynstur. Ég hef gert þetta áður og saumaði þá krosssaum í vettlinga hjá dætrum mínum en núna sauma ég í lykkjurnar þannig að það kemur út eins og mynstrið eða myndin hafi verið prjónuð í vettlingana. Fyrirmyndin er gamall púði sem móðir mín, Sísa, saumaði út í fyrir 55 til 60 árum. Mér finnst hugmyndin góð; að færa gamalt handverk og í leiðinni góða minningu yfir á nýtt form sem í þessu tilfelli eru vettlingar. Þessir sem nú eru undir nálinni eru fyrir Bryndísi Lilju mína og eiga að vera við sparikápuna hennar.

Mynstrið kemur vel út svona við fyrstu sýn. Nú er að finna fleiri mynstur, jafnvel hönnuð af mér frá grunni.

Vettlingar í ,,smíðum“.

Það er alltaf gott að eiga svona vettlinga og mér finnst þeir til dæmis góð og falleg afmælisgjöf fyrir þá sem eiga allt.

Það er alveg á mörkunum að ég sé illa haldin af prjónaáráttuhegðun en það er ekki slæmt að geta dundað sér við handverk núna þegar veturinn er framundan.

Áfram ég …