Mig langar að deila reynslusögu. Ég hef barist við aukakílóin mín í 25 ár. Ég á fjögur börn og það má alveg segja að með hverju barni bættust á mig 12,5 kg. Auðvitað er ekki rétt að setja þetta svona fram, en stundum hef ég orðað þetta svona og hálf skammast mín fyrir það. Það er að sjálfsögðu ekki hægt að kenna börnum sínum um offituna.
Ég hef þróað með mér mikla sykurfíkn í gegnum árin. Í mörg ár var ég kókfýkill. Mér tókst fyrir rúmum fimm árum að losa mig við kókið en ég var fljót að fara yfir í Egils appelsín í staðinn og ekki er það skrárri drykkur þegar horft er til sykurinnihalds. Ég náði ekki að fara á neina matarkúra af alvöru. Þeir henta mér illa. Sennilega er það agaleysið sem gerir það að verkum. Ég veit ekki hversu oft ég hef sagt við sjálfa mig: ,,Æi, ég byrja bara á mánudaginn“. Svo rennur mánudagurinn upp og ég fresta nammibindindi um eina viku og svo koll af kolli.
Síðastliðið vor ákvað ég ásamt fleirum á vinnustað mínum að prófa að fara í 30 daga matarkúr og borða eingöngu ,,hreint fæði“. Við völdum að prófa ,,Whole 30″ prógrammið. Í stórum dráttum gengur þessi kúr út á það að borða hreint fæði, það er að segja að borða engan unnin mat. Elda allt frá grunni. Það má borða fisk, kjöt og grænmeti. Sleppa öllu hveiti (brauði) og mjólkurvörum og borða þrjár staðgóðar máltíðir á dag. Þetta er mjög einföld lýsing á hugmyndafræði ,,Whole 30″ og mataræðinu.
Við ákváðum að undirbúa okkur vel og vandlega. Ég til að mynda keypti mér bókina ,,It starts with food“ eftir Dallas Hartwig og Melissu Hartwig. Einnig keypti ég mér uppskriftabók og hafði aðgang að annari til. Við ákváðum að láta sumarið líða og byrja í lok september. Til að gera langa sögu stutta þá kláraði ég kúrinn með stæl. Það reyndist létt verk. Að 30 dögum liðnum ákvað ég að halda áfram með þessa hugmyndafræði að mestu leyti. Ég leyfi mér þó að smakka osta en sækist ekki sérstaklega í mjólkurvörur eða brauðmeti.
Reynsla og lærdómur:
- Á þriðja og fjórða degi varð ég veik. Ég hafði enga orku, var með svima, ógleði og verki og átti erfitt með að sinna vinnunni minni. Þarna held ég að líkami minn hafi hreinlega verið að mótmæla kröftuglega sykurleysinu. Ég gaf mig ekki og hafði betur.
- Á fimmta degi ákvað ég að hætta að styðjast við matreiðslubókina. Hún var of flókin fyrir mig og gerði það að verkum að ég varð bara stressuð. Ég ákvað að gera þetta einfalt. Ef ég hafði fisk þá eldaði ég hann á pönnu eða í ofni og hafði mikið af góðu grænmeti með. Stundum ofnsteikti ég grænmetið, stundum svissaði ég það á pönnu. Það sama átti við um kjötið. Ég valdi að nota salt og pipar, góða olíu, enga sósu og ,,veskú“, maturinn var dásamlegur.
- Orkan ókst dag frá degi. Ég fann það svo vel á morgnana þegar ég synti minn kílómeter að áður óþekkt orka gerði vart við sig.
- Ég var aldrei svöng. Þrjár staðgóðar máltíðir hentuðu mér vel.
- Verkir og óþægindi sem tengdust meltingunni og voru búnir að vera vandamál í mörg ár hurfu og hafa ekki komið aftur.
- Ég tók alltaf nesti með í vinnuna; bæði máltíð eitt (morgunmatur) og máltíð tvö (hádegismatur).
- Grænmetisneysla jókst um mörg hundruð prósent. Bragðskyn breyttist og grænmeti fór að smakkast vel.
- Ég fann á fötunum mínum að kílóin fóru að renna af mér og eftir einn og hálfan mánuð eru 9 kg farin. Ég er ánægð með það.
- Bjúgur á öklum er nánast horfinn.
- Svo er það rúsínan í pylsuendanum. Blóðrannsókn sýnir að sykurstuðullinn hefur lækkað vel.
Með öðrum orðum. Mataræði skiptir öllu máli fyrir mig. Að borða einfaldan og hollan mat reglulega með grænmeti og sleppa öllu sælgæti og gosi hentar mér vel.
Meira um þetta ævintýri seinna og þá kannski þori ég að nefna tölur og setja inn myndir
.
Glæsilegt 🙂 gangi þér áfram sem best
Líkar viðLíkar við