Hann var flugmaður í flugher Bandaríkjanna og kom til Íslands árið 1954. Þegar hann þjónaði á Íslandi þá var hann þyrluflugstjóri í björgunarsveit bandaríska hersins (53rd Air Rescue Squadron) en sú sveit þjónaði einnig Íslendingum með því að bjarga sjómönnum í sjávarháska og öðrum sem þurftu á hjálp að halda á þeim tíma, eins og elstu menn muna.
Hann þjónaði í flughernum í 22 ár eða frá 1942 – 1964 og flaug meðal annars 35 ferðir á sprengjuvélum yfir Þýskaland í seinni heimsstyrjöldinni á B – 26 Marauder vélum, aðeins tvítugur að aldri. Eftir að hann hætti í flughernum flaug hann fyrir United Airlines í 20 ár, meðal annars á DC – 6, Boeing 737, Boeing 727 og DC – 10. Flugtímarnir hans urðu yfir tíu þúsund.


Umræddur maður var blóðfaðir minn; Bobby G . Williams. Það má segja að ég hafi leitað að honum í yfir 30 ár. Á sínum tíma gekk ég í samtök stríðsbarna og bað um hjálp við að finna hann. Sú aðstoð var gagnslaus. Ég átti góða frænku í Bandaríkjunum, sem reyndi að aðstoða mig en ekkert gekk. Ég átti sendibréf frá honum og eina ljósmynd til að styðjast við í leitinni.
Á síðustu árum hefur Google komið sterkt inn og eftir nokkra leit af og til fóru að safnast saman brot í eina heildarmynd.

Síðastliðið vor fann Bryndís Lilja, dóttir mín, tilkynningu um lát hans en hann lést árið 2007 og þar mátti finna nöfn forelda hans, bróður, konu hans og barna. Þegar þarna var komið sögu skynjuðum við að við vorum alveg að komast á leiðarenda í leitinni að uppruna mínum. Við fundum ættingja á Facebook og Instagram en ekki þá allra nánustu.
Í ágúst fékk dóttir mín, Áslaug Sóllilja, þá brilljant hugmynd að fara í DNA próf úti í Kanada þar sem hún býr. ,,Ég hrækti í túpu“, eins og hún sagði sjálf frá og niðurstöður úr prófinu komu mánudaginn 27. september. Niðurstöður sýndu meðal annars að Áslaug átti náskylda frænku í Bandaríkjunum (1st – 2nd cousin) sem heitir Barbara og viti menn; hún reyndist vera hálfsystir mín. Áslaug skrifaði henni tölvupóst og það kom svar nánast um hæl. Daginn eftir var ég í þó nokkurri geðshræringu og það féllu nokkur tár. Það stóða allt heima, Barbara vissi að hún ætti hálfsystur ´á Íslandi og tók tíðindunum fagnandi.
Til að gera langa sögu stutta þá erum við systur nú komnar í ágætis samband á netinu og vonandi er ferð til Bandaríkjanna næsta stóra ferðalag sem ég, fyrrum flughrædda konan, fer í til að kynnast nýjum systkinum mínum betur.
Það er svo merkilegt að þrátt fyrir dásamlega foreldra á Íslandi; bestu systkini sem hægt er að hugsa sér, þá var alltaf einhver lítið hola í hjartanu sem maður verður að fylla upp í. Það er svo gott að finna hvaðan maður kemur og hverjum maður er líkur.
Nú voru það máttur og töfrar vísindanna sem komu mér til hjálpar. Ég vildi bara að þessi leit hefði borið árangur fyrr … miklu fyrr.

Amen á eftir efninu …
Merkilegr – til hamingju þetta er merkileg saga.
Líkar viðLíkar við
Ég er ánægður fyrir þína hönd að leitin skuli hafa borið árangur.
Líkar viðLíkar við