Það er gott að þú ert komin heim, elskan …

Texas – fimmti og síðasti hluti

Siðasta kvöldið í ferðinni dvaldi ég heima hjá bróður mínum og konu hans ásamt Barb. Fylgifiskarnir mínir, unga fólkið, voru á flandri einhvers staðar. Við sátum þarna þrjú, systkinin og borðuðum saman og höfðum til þess gott næði. Mér fannst stundin nánast heilög.

Allt í einu stendur bróðir minn upp frá borðinu og kíkir á símann sinn, sem hafði látið í sér heyra nokkrum sinnum. ,,Google er að segja mér að það sé einhver búinn að vera að elta mig“, segir hann. ,,Air tag tracker“, og hann skoðar skilaboðin vandlega og var, að mér fannst, eilítið hissa. Svo lagði hann frá sér símann. Skyndilega kveikti ég á perunni og ég stóð á fætur og náði bakpokann minn. ,,This must be because I have this small device in my backpack“, sagði ég vandræðalega og sýndi honum ,,Apple air tag trackerinn“. Svo sagði ég þeim frá því að Áslaugu minni og kærastanum hefði fundist það góð hugmynd að ég væri með svona tæki í töskunni ef ég skildi nú týnast í hinu stóra Texas fylki. Ég skil ekki enn hvers vegna Google sjálfur er að láta aðra vita um það.

Mér fannst kveðjustundin erfið. Faðmlög á báða bóga og ég sagði Barb og John að ef þau kæmu til Íslands þá myndi ég vera þeim innan handar og fara með þeim og sýna þeim landið mitt. Þau tóku vel í það að koma til Íslands. Hvað sem því líður þá ætla ég að fara aftur til Texas.

Barb, systir mín, Ardy, John, bróðir minn og ég:)

Dallas/Fort Worth alþjóðaflugvöllurinn er annar stærsti flugvöllur í USA. Svæðið sem hann þekur er um 70 ferkilómetrar að stærð. Þrír flugturnar eru á flugvellinum og skipulag allt mjög gott. Þegar við tókum á loft í BlueJet vélinni tók önnur þota á loft á sama tíma á braut við hliðina á okkar vél. Einhvern tímann hefði ég ekki alveg getað horft á það rólega.

Vélarnar koma og fara og umferðin um völlinn er mikil. Við höfðum tekið rúnt með John nokkrum dögum fyrr og hann fór með okkur á sérstakan útssýnisstað til að fygjast með fluginu. John fetaði á sínum tíma i fótspor föður okkar og þjónaði í flughernum. Hann er hugfanginn af fluginu; er enn að vinna við að þjálfa flugmenn og sjálfur á hann vél sem hann flýgur reglulega á milli staða, bæði til að sinna ákveðnum erindum og eins sér til skemmtunar.

Áslaug tekur þátt í flugdansinum.

Ég flaug í gegnum öryggisleitina á flugvellinum. Engin blikkandi ljós og ekkert ýlfur. Ég tók á ákvörðun fyrir ferðina heim um að feta í spor gömlu hippanna; henti haldaranum ofan í stóru töskuna sem væntanlega var komin í lestina í flugvélinni og málið var dautt.

Flugið til Boston gekk eins og í sögu. „Clear sky“, eins og flugstjórinn nefndi við upphaf ferðar nánast alla leið. Ferðalagið var frábært í alla staði og ekki síst vegna þess að með í för voru Áslaug Sóllilja og Friðrik, kærasti hennar. Án þeirra hefði ferðin ekki heppnast svona vel.

Í Boston rigndi en mér var alveg sama um veðrið þegar þarna var komið sögu. Ég hlakkaði til að koma heim eftir ævintýraferð til Texas.

Ég sat hjá pabba þegar heim var komið og sagði honum hluta ferðasögunnar. Hann bað mig um að hringja þegar ég væri komin heim á Krók og ég gerði það. „Ertu komin norður? Það er gott að þú ert komin heim, elskan mín“, sagði pabbi minn og ég fann svo vel hversu vænt honum þykir um mig.

Kúrekastelpa ættuð frá Texas …

Published by

Óþekkt's avatar

bryndiskristin

Ég er elst fimm systkina. Ég er gift og á fjögur börn; Einar Svan, Þráinn Svan, Áslaugu Sóllilju og Bryndísi Lílju. Ég útskrifaðist sem B.Ed. 1981 frá KHÍ. Haustið 2010 lauk ég M.Ed. í menntunarfræðum með áherslu á fullorðinsfræðslu og mannauðsþróun frá HÍ.

2 athugasemdir á “Það er gott að þú ert komin heim, elskan …”

Skildu eftir svar við Matthildur Ingólfsdóttir Hætta við svar