Á ég að leyfa þeim að taka flugið?

Ég setti mér það markmið í júlílok árið 2021 að prjóna eitt par af fingravettlingum á viku í eitt ár. Nú eru liðin tæp tvö ár og verkefnið er enn svo skemmtilegt að ég held áfram að prjóna og prjóna og er löngu búin að ná markmiðinu.

Nú er komið að því að ég ákveði hvort ég fari með verkefnið lengra og bjóði vettlingana til sölu. Það er hins vegar ákveðinn höfuðverkur því ég þarf auðvitað að ákveða verð á hvert par. Ég er alla vega búin að ákveða eitt og það er að þeir verða heldur í dýrari kantinu, ef ég mætti orða það sem svo. Alla vega munu þeir kosta meira en þessir fjöldaframleiddu sem fást í vegasjoppunum. Vettlingarnir eru mín hönnun og prjónaðir úr úrvals ull sem á ættir að rekja til Noregs. Þannig að ég nostra vel við hvert par.

Til Noregs spyr kannski einhver. Hvers vegna ekki að nota íslenska ull? Það er löng saga að segja frá því. Ég notaði lengi íslenska Kambgarnið en þegar nánar er skoðað þá er Kambgarnið ekki unnið úr íslenskri ull og það vill hnökra (það gerir nú reyndar öll ull). Íslenskan lopa er erfitt að nota í fingravettlinga, en ég er þó núna að gera tilraun með að prjóna vettlinga úr skagfirskri ull sem kemur beint frá bónda. Það kemur í ljós hvernig þeir verða en það er spennandi að geta sagt nákvæmlega af hvaða kindum ullin kemur sem vettlingarnir eru prjónaðir úr. Ég bíð sjálf spennt eftir niðurstöðunni og að sjálfsögðu þá verða þessir vettlingar eingöngu í sauðalitunum þar sem það er náttúrulegur litur kindanna hennar Sigrúnar frá Stórhóli í Skagafirði.

Vettlingar prjónaðir úr íslenskri ull af kindim frá Stórhól í Skiagafirði.

En aftur að nútíðinni. Eru grænir tónar málið eða bleikir; kannski rauðir og gráir, nú eða bláir? Á ég kannski að halda áfram með skagfirsku ullina? Er rétti tíminn kominn til að leyfa vettlingunum að taka flugið?

Published by

Óþekkt's avatar

bryndiskristin

Ég er elst fimm systkina. Ég er gift og á fjögur börn; Einar Svan, Þráinn Svan, Áslaugu Sóllilju og Bryndísi Lílju. Ég útskrifaðist sem B.Ed. 1981 frá KHÍ. Haustið 2010 lauk ég M.Ed. í menntunarfræðum með áherslu á fullorðinsfræðslu og mannauðsþróun frá HÍ.

One thought on “Á ég að leyfa þeim að taka flugið?”

Skildu eftir svar við Halla þóra Másdóttir Hætta við svar