Frómas – tilheyrir jólum

Ég má til með að deila uppskrift af einföldum og  ljómandi góðum eftirrétti. Uppskriftin kemur frá Sísu mömmu.

Ég hef búið til frómas frá því að ég hóf sjálfstæðan búskap og þessi eftirréttur tilheyrir jólunum hjá mér.

Það sem þarf er:

  • 1 pakki jarðaberjahlaup (kemur í staðinn fyrir matarlím)
  • 1/2 lítri af rjóma
  • 4 egg, vel þeytt
  • 4 msk sykur
  • makkarónukökur
  • 1 dós af niðursoðnum jarðaberjum
  • jarðaber, ný og fersk

20161231_135946

Ég byrja á því að hita vatn að suðu. Síðan leysi ég jarðaberjahlaupið upp í einum bolla af sjóðandi vatni og hræri vel. Þar á eftir blanda ég einum bolla af jarðaberjasafa úr dósinni út í.

20161231_140414

Ég þeyti saman fjögur egg með fjórum matskeiðum af sykri, þangað til eggjahrærar verður ljós og létt. Það má líka þeyta rauðurnar sér og hvíturnar sér. Mér sýnist það koma út á eitt hvor aðferðin er notuð. Ég set eggjahræruna í aðra skál og þeyti síðan hálfan lítra af rjóma. Ég blanda eggjahrærunni varlega út í rjómann og þegar jarðaberjahlaupið er orðið kalt, eða við stofuhita bæti ég því varlega saman við eggin og rjómann og hræri varlega með handþeytara. Hlaupið má ekki kólna um of því þá verður það að hlaupi. Galdurinn er að koma því í blönduna áður en það gerist.

20161231_140333

20161231_141937

Ég myl makkarónukökurnar og set þær í botninn á stórri skál eða í nokkrar litlar skálar og bleyti aðeins í kökunum með jarðaberjasafanum úr dósinni. Það má líka setja til dæmis sherry yfir kökurnar en þá er frómasinn ekkert sérlega barnvænn lengur:). Síðan eys ég blöndunni varlega yfir makkarónukökurnar. Það má líka setja aðra umferð af muldum kökum í frómasið þegar skálin er um það bil hálffull. Ég sker fersk jarðaber í litla bita og dreifi þeim yfir frómasið. Að lokum skreyti ég með muldum makkarónukökum og ferskum jarðaberjum. Einnig er gott að rífa súkkulaði yfir.

20161231_141547

20161231_142627

Frómasinn má frysta og það gerði ég einmitt um jólin. Ég frysti helminginn og það var ekki slæmt að geta tekið fram frómas þegar einhvern langaði í góðan eftirrétt með afgöngunum síðar.

20161231_143330

 

Jólamatur – steikt hangikjöt

Jólin eru góður tími. Fjölskyldur koma saman og borða góðan mat. Á mínu heimili er haldið í gamlar hefðir hvað varðar bakstur og matargerð. Ég steiki laufabrauð og nota uppskriftina hennar mömmu. Ég baka tvær til þrjár tegundir af smákökum, lagköku, rúllutertu, stollen brauð og ég elda steikt hangikjöt.

Eftispurnin eftir fyrrnefndu sykurljúfmeti fer þó minnkandi með árunum, bæði hjá mér sjálfri og öðrum fjölskyldumeðlimum. Við í fjölskyldunni erum flest að verða vel meðvituð um óhollustu hvíta sykursins … en, það eru nú einu sinni jólin og þá má leyfa sér smá…

Nú ætla ég að segja frá steikta hangikjötinu sem við eldum um hver jól og bjóðum góðum vinum að njóta með okkur. Frá því að ég man eftir mér höfum við stórfjölskyldan haft steikt hangikjöt á jólunum, langoftast á gamlárskvöld. Lesa má nánar um þennan sið okkar í viðtali við pabba í jólablaði Morgunblaðisins árið 2006. Þar segir hann meðal annars frá því hvernig þessi siður er tilkominn. Það sem til þarf er gott hangilæri, rauðkál, grænar baunir, kartöflustappa, smjör og egg. Ég hef aðlagað uppskriftina að mínum þörfum. Til dæmis þá úrbeina ég lærið  fyrst og sker það síðan, öfugt við það sem pabbi gerði í gamla daga. Hann skar alltaf hangilærið í sneiðar af beininu.

Svona fer ég að: Hangilærið er úrbeinað. Ég er svo heppinn að Bryndís Lilja, dóttir mín, er snillingur í að úrbeina og hún hefur séð um þennan hluta undanfarin ár. Þegar búið er að úrbeina lærið snyrti ég það til. Ég sker í burtu ,,húð“ og fitu.

20161230_144516

Nú er kjötið skorið í ,,buffsneiðar“ sem eru svona um það bil einn til einn og hálfur sentimeter að þykkt.

20161230_145820

Sneiðarnar eru lamdar létt með buffhamri báðum megin og þeim raðað upp á fat þar sem þær bíða steikingar á pönnu.

20161230_150009

20161230_151920

Þegar búð er að ,,buffa“ allar sneiðarnar eru þær klárar til steikingar á pönnu. Ég steiki upp úr smjöri og skola jafnvel pönnuna á milli því það kemur saltkenndur vökvi úr kjötinu við steikinguna, sem ég geri ráð fyrir að sé ekki sérstaklega hollur.

20161230_152811

Þegar ég er búin að steikja kjötið í tvær til þrjár mínútur á hvorri hlið raða ég sneiðunum upp í ofnskúffu eða á steikingarfat, þar sem það bíður steikingar í ofninum. Svona 20 mínútum áður en borða skal kjötið set ég það inn íheitan  ofn og hita það vel. Ofninn stilli ég á 180°C. Kjötið er síðan borið fram með grænum baunum, rauðkáli, kartöflustöppu og smjöri og spældum eggjum. Já,  þið lásuð rétt. Við erum að tala um spæld egg hér. Það fer alveg ótrúlega vel saman að borða steikt hangikjöt með spældum eggjum.

Næst ætla ég að gefa upp uppskrift að ótrúlega einföldum og góðum jarðaberjafrómas sem ég fékk frá mömmu Sísu á sínum tíma. Hann er alveg ómissandi á aðfangadagskvöld.

Aukakíló…

Mig langar að deila reynslusögu. Ég hef barist við aukakílóin mín í 25 ár. Ég á fjögur börn og það má alveg segja að með hverju barni bættust á mig 12,5 kg. Auðvitað er ekki rétt að setja þetta svona fram, en stundum hef ég orðað þetta svona og hálf skammast mín fyrir það. Það er að sjálfsögðu ekki hægt að kenna börnum sínum um offituna.

Ég hef þróað með mér mikla sykurfíkn í gegnum árin. Í mörg ár var ég kókfýkill. Mér tókst fyrir rúmum fimm árum að losa mig við kókið en ég var fljót að fara yfir í Egils appelsín í staðinn og ekki er það skrárri drykkur þegar horft er til sykurinnihalds. Ég náði ekki að fara á neina matarkúra af alvöru. Þeir henta mér illa. Sennilega er það agaleysið sem gerir það að verkum. Ég veit ekki hversu oft ég hef sagt við sjálfa mig: ,,Æi, ég byrja bara á mánudaginn“. Svo rennur mánudagurinn upp og ég fresta nammibindindi um eina viku og svo koll af kolli.

Síðastliðið vor ákvað ég ásamt fleirum á vinnustað mínum að prófa að fara í 30 daga matarkúr og borða eingöngu  ,,hreint fæði“. Við völdum að prófa ,,Whole 30″ prógrammið. Í stórum dráttum gengur þessi kúr út á það að borða hreint fæði, það er að segja að borða engan unnin mat. Elda allt frá grunni. Það má borða fisk, kjöt og grænmeti. Sleppa öllu hveiti (brauði) og mjólkurvörum og borða þrjár staðgóðar máltíðir á dag. Þetta er mjög einföld lýsing á hugmyndafræði ,,Whole 30″ og mataræðinu.

Við ákváðum að undirbúa okkur vel og vandlega. Ég til að mynda keypti mér bókina ,,It starts with food“ eftir Dallas Hartwig og Melissu Hartwig. Einnig keypti ég mér uppskriftabók og hafði aðgang að annari til. Við ákváðum að láta sumarið líða og byrja í lok september. Til að gera langa sögu stutta þá kláraði ég kúrinn með stæl. Það reyndist létt verk. Að 30 dögum liðnum ákvað ég að halda áfram með þessa hugmyndafræði að mestu leyti. Ég leyfi mér þó að smakka osta en sækist ekki sérstaklega í mjólkurvörur eða brauðmeti.

Reynsla og lærdómur:

  • Á þriðja og fjórða degi varð ég veik. Ég hafði enga orku, var með svima, ógleði og verki og átti erfitt með að sinna vinnunni minni. Þarna held ég að líkami minn hafi hreinlega verið að mótmæla kröftuglega sykurleysinu. Ég gaf mig ekki og hafði betur.
  • Á fimmta degi ákvað ég að hætta að styðjast við matreiðslubókina. Hún var of flókin fyrir mig og gerði það að verkum að ég varð bara stressuð. Ég ákvað að gera þetta einfalt. Ef ég hafði fisk þá eldaði ég hann á pönnu eða í ofni og hafði mikið af góðu grænmeti með. Stundum ofnsteikti ég grænmetið, stundum svissaði ég það á pönnu. Það sama átti við um kjötið. Ég valdi að nota salt og pipar, góða olíu, enga sósu og ,,veskú“, maturinn var dásamlegur.
  • Orkan ókst dag frá degi. Ég fann það svo vel á morgnana þegar ég synti minn kílómeter að áður óþekkt orka gerði vart við sig.
  • Ég var aldrei svöng. Þrjár staðgóðar máltíðir hentuðu mér vel.
  • Verkir og óþægindi sem tengdust meltingunni og voru búnir að vera vandamál í mörg ár hurfu og hafa ekki komið aftur.
  • Ég tók alltaf nesti með í vinnuna; bæði máltíð eitt (morgunmatur) og máltíð tvö (hádegismatur).
  • Grænmetisneysla jókst um mörg hundruð prósent. Bragðskyn breyttist og grænmeti fór að smakkast vel.
  • Ég fann á fötunum mínum að kílóin fóru að renna af mér og eftir einn og hálfan mánuð eru 9 kg farin. Ég er ánægð með það.
  • Bjúgur á öklum er nánast horfinn.
  • Svo er það rúsínan í pylsuendanum. Blóðrannsókn sýnir að sykurstuðullinn hefur lækkað vel.

Með öðrum orðum. Mataræði skiptir öllu máli fyrir mig. Að borða einfaldan og hollan mat reglulega með grænmeti og sleppa öllu sælgæti og gosi hentar mér vel.

Meira um þetta ævintýri seinna og þá kannski þori ég að nefna tölur og setja inn myndirbryndiskth.

 

 

 

Mósaík

Mér finnst gaman að búa til mósaíkmyndir. Ég skil reyndar ekki alveg þessa áráttu því það tekur langan tíma að gera eina mynd. Það væri mun fljótlegar að mála myndina með pensli.

Fyrst teikna ég myndina á striga eða pappír. Síðan lita ég pappír og klippi hann niður í litla ferninga sem eru um það bil 1 x 1 cm eða rúmlega það; fer eftir stærð myndarinnar. Ég lími síðan litlu bútana á myndina og nota til þess veggfóðurslím. Þegar allir pappírsbútarnir eru komnir á sinn stað laga ég myndina til. Ég nota krít og er því mikið með ,,puttana“ í myndinni.

Það er eitthvað sem róar hugann minn þegar ég vinn svona myndir. Kannski er það nostrið við hverja einustu ,,flís“, um leið og ég kem henni fyrir á sínum stað eða kannski er ástæðan sú að ég get hugsað og pælt mikið á meðan á vinnunni stendur og þá sérstaklega um þann sem er fyrirmynd hverju sinni.

Nýjasta myndin mín er teiknuð eftir ljósmynd  af Þráni Svan, syni mínum. Myndin er aðeins færð í stílinn en það er smá svipur.

Turkish blátt … er það ekki málið?

Undanfarið hef ég verið að prjóna fingravettlinga í bláum lit. Mynstrið verður til jafnóðum. Nú hef ég komist að því að það er sennilega ekki sniðugt að prjóna svona af fingrum fram. Nýtt mynstur er því á teikniborðinu og það verður spennandi að sjá hvernig það kemur út.