Slátur – lifrarpylsa – himneskur matur

,,Uhh …nú vaknar upp í huganum einhver æskuminning!“, muldraði sonurinn, um leið og hann gekk inn í eldhúsið. Af svip hans mátti ráða að minningin var ekki góð. Hvernig hann beitti röddinni sagði líka meira en þúsund orð. Ja hérna hér, hugsaði ég … og ég sem vara bara að gera slátur eða lifrapylsu.

Mér hefur alltaf fundist lifrarpylsa góð. Hún er bæði holl og seðjandi. Í fyrra gerði ég hana með tveimur fjölskyldum en núna, eins og oftast áður, var ég ein á báti og allt í góðu með það.

Ég má til með að deila því hvernig ég geri lifrarpylsu því mín aðferð á eftir að hjálpa mörgum. Fyrir löngu síðan, þegar ég treysti mér ekki í að sauma vambir þá fór ég að hugsa hvort ekki mætti ganga frá lifrapylsunni á einfaldari hátt en formæður okkar kenndu okkur. Það er að segja að nota eitthvað annað en kindavambir. Jú, jú það voru komnar gervivambir á þeim tíma, en mér hefur ekki fundist þær sérstaklega heppilegar vegna þess að það er svo erfitt að koma lifrarpylsunni ofan í þær. Þá fékk ég líka þessa snilldar hugmynd. Hvernig væri að setja lifrarpylsuna í jólakökuform og gufusjóða hana síðan. Þetta fannst mér góð hugmynd. Ég hugsaði líka til Frakkanna sem eru frægir fyrir sitt lifrarpaté og eins Dananna með sitt leverpostej. Hvað er lifrarpylsa annað en paté, svona ef maður hugsar út í það.

Það fór heill laugardagur í verkið. Ég vandaði mig vel við að hreinsa lifrina. Tók af henni himnuna en það gerði ég nú kannski aðallega til að hún þvældist ekki í hnífnum á hakkavélinni minni. Hökkuð lifrin fór í lítinn bala og smátt og smátt bættust önnur hráefni í blönduna. Ég notaði uppskrift frá ömmu minni, Áslaugu á Staðastað, en notaði líklega bara um 40 % af mör miðað við uppskriftina hennar ömmu. Eins notaði ég minna af rúgmjölinu. Í uppskriftinni á að nota nýru en ég er fyrir löngu hætt að setja þau með og bæti lifur við í staðinn.

Þá er það suðan. Formin, með hrárri lifrarpylsunni í, set ég í pott með vatni. Læt vatnið ná upp að miðju formsins og set álpappír yfir formið og gufusíð herlegheitin.

Hvernig tókst svo til? Mín skoðun er sú að ég hafi aldrei gert eins góða lifrarpylsu og í þetta sinn og ef eitthvað mætti gagnrýna þá hefði ég mátt salta hana aðeins betur. Verði okkur að góðu.

Hér koma nokkra myndir af ferlinu.

Lifrin hreinsuð og skorin í heppilega strimla til að auðvelda hakkavélinni (Kitchen Aid) vinnuna.
Lifrin komin á sinn stað og mjólkinni bætt í ásamt grænmetiskrafti og salti.
Heilhveti, haframjöl og rúgmjöl komin í blönduna.
Allt klár fyrir mörinn.
Ég setti lifrarpylsu í sjö gervivambir en gafst þá upp ….
Snilldin ein. Lifrarpylsan komin í álformin.

Laufabrauð … ómissandi á jólum

Það er mikil laufabrauðshefð í minni fjölskyldu. Í gamla daga kom stórfjölskyldan saman við laufabrauðsgerðina og okkur fannst þetta skemmtilegur siður og hlökkuðum alltaf mikið til. Eldra fólkið, oftast amma og mamma, hnoðuðu og flöttu út laufabrauðskökur. Við krakkarnir, ásamt pabba, skárum út mynstur í kökurnar. Pabbi var snillingur í að skera út í kökurnar eða það fannst mér að minnsta kosti.

Verkfærnin sem við þurftum í þá daga voru gott bretti og lítill vasahnífur. Við brutum upp á kökurnar og skárum litla skurði á ská í kökuna. Síðan flettum við í sundur og brettum upp á skurðinn svona eins konar lauf. Í dag notum við laufabrauðsjárn sem er snilldar uppfinning og flýtir mjög fyrir.

Áður en laufabrauðsjárnið kom til sögunnar var skorið mynstur í kökurnar með litlum hnífum.

Mamma og systur hennar sáu um að steikja laufabrauðskökurnar upp úr tólg og seinna meir Palmin feiti.

Þegar mínir krakkar voru litlir tóku þau þátt í laufabrauðsgerðinni með mér og pabba sínum. Svo fluttu þau að heiman og þá hefur það komið í minn hlut að steikja laufabrauðið. Halla vinkona mín spyr mig oft hvers vegna ég kaupi ekki bara laufabrauð. Það er bæði hægt að kaupa kökur sem á eftir að skera út og eins er hægt að kaupa tilbúið laufabrauð. Mér finnst uppskriftin hennar mömmu alltaf best og ég held mig við hana eitthvað áfram.

Í ár gerðum við Bryndís Lilja, dóttir mín, saman laufabrauð. Bryndis Lilja er vegan svo við ákváum að gera líka vegan kökur. Í staðinn fyrir mjólk settum við haframjólk. Við bárum saman bragð og áferð eftir steikinguna og vegan kökurnar voru ekki síðri en þessar hefðbundnu. Þannig að ég get mælt með haframjólkinni.

Hér hnoðar Bryndís Lilja deigið eftir sinni vegan uppskrift.
Laufabrauðsjárnið kemur að góðium notum.

Hér koma nokkrar ljósmyndir af ferlinu. Myndirnar eru teknar í desember 2020. Þá aðstoðaði Áslaug Sóllilja við baksturinn/steikinguna. Ekkert photoshoppað hér:)

Mjólkin/haframjólkin er hituð með smjörinu/smjörlíkinu.
Gott er að sigta mjölið/hvetið.
Kökurnar tilbúnar í steikingu.
Feitin er hituð vel. Passa þarf að hún brenni ekki.
Kökurnar eru steiktar báðum megin. Það þarf að snúa þeim við og passa að brenna sig ekki.
Pressa þarf kökurnar. Þá staflast þær betur. Eldhúspappír er notaður á milli.
Þessar eru tilbúnar til smökkunar.

Uppskriftin okkar:

1 kg hveiti – 70 gr smjör/smjörlíki – 3 msk sykur (jafnvel minna) – 1 tsk salt – 1 tsk ger – 6 – 7 dl mjólk/haframjólk. Mjólk og smjör hitað upp. Ekki láta suðuna koma upp.

Frómas – tilheyrir jólum

Ég má til með að deila uppskrift af einföldum og  ljómandi góðum eftirrétti. Uppskriftin kemur frá Sísu mömmu.

Ég hef búið til frómas frá því að ég hóf sjálfstæðan búskap og þessi eftirréttur tilheyrir jólunum hjá mér.

Það sem þarf er:

  • 1 pakki jarðaberjahlaup (kemur í staðinn fyrir matarlím)
  • 1/2 lítri af rjóma
  • 4 egg, vel þeytt
  • 4 msk sykur
  • makkarónukökur
  • 1 dós af niðursoðnum jarðaberjum
  • jarðaber, ný og fersk

20161231_135946

Ég byrja á því að hita vatn að suðu. Síðan leysi ég jarðaberjahlaupið upp í einum bolla af sjóðandi vatni og hræri vel. Þar á eftir blanda ég einum bolla af jarðaberjasafa úr dósinni út í.

20161231_140414

Ég þeyti saman fjögur egg með fjórum matskeiðum af sykri, þangað til eggjahrærar verður ljós og létt. Það má líka þeyta rauðurnar sér og hvíturnar sér. Mér sýnist það koma út á eitt hvor aðferðin er notuð. Ég set eggjahræruna í aðra skál og þeyti síðan hálfan lítra af rjóma. Ég blanda eggjahrærunni varlega út í rjómann og þegar jarðaberjahlaupið er orðið kalt, eða við stofuhita bæti ég því varlega saman við eggin og rjómann og hræri varlega með handþeytara. Hlaupið má ekki kólna um of því þá verður það að hlaupi. Galdurinn er að koma því í blönduna áður en það gerist.

20161231_140333

20161231_141937

Ég myl makkarónukökurnar og set þær í botninn á stórri skál eða í nokkrar litlar skálar og bleyti aðeins í kökunum með jarðaberjasafanum úr dósinni. Það má líka setja til dæmis sherry yfir kökurnar en þá er frómasinn ekkert sérlega barnvænn lengur:). Síðan eys ég blöndunni varlega yfir makkarónukökurnar. Það má líka setja aðra umferð af muldum kökum í frómasið þegar skálin er um það bil hálffull. Ég sker fersk jarðaber í litla bita og dreifi þeim yfir frómasið. Að lokum skreyti ég með muldum makkarónukökum og ferskum jarðaberjum. Einnig er gott að rífa súkkulaði yfir.

20161231_141547

20161231_142627

Frómasinn má frysta og það gerði ég einmitt um jólin. Ég frysti helminginn og það var ekki slæmt að geta tekið fram frómas þegar einhvern langaði í góðan eftirrétt með afgöngunum síðar.

20161231_143330

 

Jólamatur – steikt hangikjöt

Jólin eru góður tími. Fjölskyldur koma saman og borða góðan mat. Á mínu heimili er haldið í gamlar hefðir hvað varðar bakstur og matargerð. Ég steiki laufabrauð og nota uppskriftina hennar mömmu. Ég baka tvær til þrjár tegundir af smákökum, lagköku, rúllutertu, stollen brauð og ég elda steikt hangikjöt.

Eftispurnin eftir fyrrnefndu sykurljúfmeti fer þó minnkandi með árunum, bæði hjá mér sjálfri og öðrum fjölskyldumeðlimum. Við í fjölskyldunni erum flest að verða vel meðvituð um óhollustu hvíta sykursins … en, það eru nú einu sinni jólin og þá má leyfa sér smá…

Nú ætla ég að segja frá steikta hangikjötinu sem við eldum um hver jól og bjóðum góðum vinum að njóta með okkur. Frá því að ég man eftir mér höfum við stórfjölskyldan haft steikt hangikjöt á jólunum, langoftast á gamlárskvöld. Lesa má nánar um þennan sið okkar í viðtali við pabba í jólablaði Morgunblaðisins árið 2006. Þar segir hann meðal annars frá því hvernig þessi siður er tilkominn. Það sem til þarf er gott hangilæri, rauðkál, grænar baunir, kartöflustappa, smjör og egg. Ég hef aðlagað uppskriftina að mínum þörfum. Til dæmis þá úrbeina ég lærið  fyrst og sker það síðan, öfugt við það sem pabbi gerði í gamla daga. Hann skar alltaf hangilærið í sneiðar af beininu.

Svona fer ég að: Hangilærið er úrbeinað. Ég er svo heppinn að Bryndís Lilja, dóttir mín, er snillingur í að úrbeina og hún hefur séð um þennan hluta undanfarin ár. Þegar búið er að úrbeina lærið snyrti ég það til. Ég sker í burtu ,,húð“ og fitu.

20161230_144516

Nú er kjötið skorið í ,,buffsneiðar“ sem eru svona um það bil einn til einn og hálfur sentimeter að þykkt.

20161230_145820

Sneiðarnar eru lamdar létt með buffhamri báðum megin og þeim raðað upp á fat þar sem þær bíða steikingar á pönnu.

20161230_150009

20161230_151920

Þegar búð er að ,,buffa“ allar sneiðarnar eru þær klárar til steikingar á pönnu. Ég steiki upp úr smjöri og skola jafnvel pönnuna á milli því það kemur saltkenndur vökvi úr kjötinu við steikinguna, sem ég geri ráð fyrir að sé ekki sérstaklega hollur.

20161230_152811

Þegar ég er búin að steikja kjötið í tvær til þrjár mínútur á hvorri hlið raða ég sneiðunum upp í ofnskúffu eða á steikingarfat, þar sem það bíður steikingar í ofninum. Svona 20 mínútum áður en borða skal kjötið set ég það inn íheitan  ofn og hita það vel. Ofninn stilli ég á 180°C. Kjötið er síðan borið fram með grænum baunum, rauðkáli, kartöflustöppu og smjöri og spældum eggjum. Já,  þið lásuð rétt. Við erum að tala um spæld egg hér. Það fer alveg ótrúlega vel saman að borða steikt hangikjöt með spældum eggjum.

Næst ætla ég að gefa upp uppskrift að ótrúlega einföldum og góðum jarðaberjafrómas sem ég fékk frá mömmu Sísu á sínum tíma. Hann er alveg ómissandi á aðfangadagskvöld.