Ég má til með að deila uppskrift af einföldum og ljómandi góðum eftirrétti. Uppskriftin kemur frá Sísu mömmu.
Ég hef búið til frómas frá því að ég hóf sjálfstæðan búskap og þessi eftirréttur tilheyrir jólunum hjá mér.
Það sem þarf er:
- 1 pakki jarðaberjahlaup (kemur í staðinn fyrir matarlím)
- 1/2 lítri af rjóma
- 4 egg, vel þeytt
- 4 msk sykur
- makkarónukökur
- 1 dós af niðursoðnum jarðaberjum
- jarðaber, ný og fersk

Ég byrja á því að hita vatn að suðu. Síðan leysi ég jarðaberjahlaupið upp í einum bolla af sjóðandi vatni og hræri vel. Þar á eftir blanda ég einum bolla af jarðaberjasafa úr dósinni út í.

Ég þeyti saman fjögur egg með fjórum matskeiðum af sykri, þangað til eggjahrærar verður ljós og létt. Það má líka þeyta rauðurnar sér og hvíturnar sér. Mér sýnist það koma út á eitt hvor aðferðin er notuð. Ég set eggjahræruna í aðra skál og þeyti síðan hálfan lítra af rjóma. Ég blanda eggjahrærunni varlega út í rjómann og þegar jarðaberjahlaupið er orðið kalt, eða við stofuhita bæti ég því varlega saman við eggin og rjómann og hræri varlega með handþeytara. Hlaupið má ekki kólna um of því þá verður það að hlaupi. Galdurinn er að koma því í blönduna áður en það gerist.


Ég myl makkarónukökurnar og set þær í botninn á stórri skál eða í nokkrar litlar skálar og bleyti aðeins í kökunum með jarðaberjasafanum úr dósinni. Það má líka setja til dæmis sherry yfir kökurnar en þá er frómasinn ekkert sérlega barnvænn lengur:). Síðan eys ég blöndunni varlega yfir makkarónukökurnar. Það má líka setja aðra umferð af muldum kökum í frómasið þegar skálin er um það bil hálffull. Ég sker fersk jarðaber í litla bita og dreifi þeim yfir frómasið. Að lokum skreyti ég með muldum makkarónukökum og ferskum jarðaberjum. Einnig er gott að rífa súkkulaði yfir.


Frómasinn má frysta og það gerði ég einmitt um jólin. Ég frysti helminginn og það var ekki slæmt að geta tekið fram frómas þegar einhvern langaði í góðan eftirrétt með afgöngunum síðar.






.
